Fimmtudagur 28. mars, 2024
1.8 C
Reykjavik

Þetta er ömurlegt og á ekki að þurfa að gerast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Elín Richter, Sindri Bjarkason og Amíra Snærós Jabali og skólasystkini þeirra berjast fyrir því að skólasystir þeirra, Zainab Safari og fjölskyldu hennar, verði ekki vísað úr landi.

Elín segir að markmiðið með aðgerðum sé einfalt. „Við viljum bara halda þeim á Íslandi, til þess að þeim líði vel og að þau séu örugg.“ Sindri bendir á að fyrir þeim sé þetta einmitt hlutverk réttindaráðsins. í Hagaskóla, sem hann og Elín eiga sæti í „Þar er markmiðið að stuðla að réttindum barna og reyna að sjá til þess að íslensk stjórnvöld starfi eftir Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Ísland er aðili að þessum sáttmála og á þar af leiðandi að fara alltaf eftir honum.“

Amíra Snærós var ein af þeim sem kom að undirskriftasöfnununni og hún segir að þau hafi mikið hugsað um hvernig mætti ná til stjórnvalda og fá þau til þess að taka mark á því sem þau voru að koma á framfæri. „Við ákváðum að gera þetta svona formlega en ekki bara á Facebook til þess að það leyndi sér ekki að okkur er alvara og við söfnuðum 6200 undirskriftum.“ Aðspurð um hvað þeim hafi fundist um að það hafi borist athugasemdir við þetta frá einhverjum foreldrum þá stendur ekki á svari: „Við vorum fyrst og fremst vonsvikin. Undarlegt að einhverjum finnist að við megum ekki hafa okkar skoðun og leggja einhverjum lið sem skiptir okkur máli. Það var ekki heldur þannig, eins og einhverjir hafa haldið fram, að foreldrar okkar stýrðu okkur í þessu. Það var alls ekki þannig. Við erum alveg með okkar skoðanir og getum komið þeim á framfæri sjálf.”

„Ég held að við getum í fyrsta lagi tekið á móti miklu fleirum en við gerum núna. Það er eitt að taka ekki við flóttamönnum en annað að senda þá úr landi eftir að þeir hafa dvalið hér í nokkurn tíma og þá jafnvel gengið hér í skóla og eignast eitthvað líf eins og Zainab.“

En hvað getið þið gert fleira til þess að leggja ykkar af mörkum? „Hvað getum við gert? Hvað getum við ekki gert?“ svara þau nánast einum rómi og það leynir sér ekki að þau hafa langt frá því lagt árar í bát í baráttunni fyrir Zainab.

Aðspurð um hvort þau telji að það sé hlustað á það sem þau hafi fram að færa segja þau að það sé vissulega tekið eftir þeim ef eitthvað er að marka fjölmiðla, en eins og Sindri segir „á svo eftir að koma í ljós hvort það er hlustað af þeim sem ráða.“ Elín tekur undir þetta og minnir á að það sé dapurlegt að hugsa til þess að Zainab verði kannski send í burtu með skömmum fyrirvara og sé þá allt í einu komin á götuna í Grikklandi. „Það er ömurlegt og á ekki að þurfa að gerast.“

Við þetta berst talið að því að sumir hafi haft á orði að Íslendingar geti einfaldlega ekki tekið við öllum sem hingað leita og þess vegna séu hælisleitendur sendir aftur burt. Að Íslendingar geti einfaldlega ekki tekið að sér að bjarga öllum en um það hefur Sindri sitthvað að segja. „Ég held að við getum í fyrsta lagi tekið á móti miklu fleirum en við gerum núna. Það er eitt að taka ekki við flóttamönnum en annað að senda þá úr landi eftir að þeir hafa dvalið hér í nokkurn tíma og þá jafnvel gengið hér í skóla og eignast eitthvað líf eins og Zainab.“

Skólasystur hans taka undir þetta og minna á að þetta hljóti að horfa öðruvísi við þegar um börn er að ræða. Þau eru líka öll sammála um það að stjórnvöld þurfi að standa sig miklu betur. „Við þurfum að koma betur fram við þá sem vilja, nei, ég meina neyðast, til þess að koma til Íslands og vilja eiga hér friðsamlegt líf. Við þurfum líka að leyfa fólki að vinna og bæta þannig sinn eigin hag og okkar sem samfélags. Það er gott fyrir alla.“

- Auglýsing -

Myndatexti: Vinkonurnar og skólasysturnar Zainab Safari og Elín Sara Richter.
Ljósmyndari: Aldís Pálsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -