Þriðjudagur 23. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Þreföldun í framleiðni heimsins á tuttugu árum skilar sér ekki til launafólks

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Misrétti hefur aukist til muna síðustu áratugi. Framleiðni í heiminum hefur þrefaldast á síðustu 20 árum en þessi auður hefur ekki skilað sér til vinnandi fólks í gegnum laun eða bætta innviði,“ segir Drífa Snædal, forseti ASÍ, í 1. maí ávarpi sínu.

„Þvert á móti hafa möguleikar til auðsöfnunar og skattaundanskota aukist hjá fáum ofur ríkum einstaklingum og stórfyrirtækjum. Fólk, þjóðir og samfélög sem farið hafa halloka kenna stjórnmálunum eðlilega um sem hefur leitt til þess að traust til stjórnmálamanna fer stöðugt minnkandi. Það sem verra er; traust til lýðræðis fer þverrandi. Einhverjir sjá sér hag í því að grafa undan trú fólks á lýðræðinu og jafnvel að ala á andúð gagnvart minnihlutahópum. Það er gömul saga og ný að til að ná völdum er minnihlutahópum stundum att saman, eins og til dæmis öryrkjum og innflytjendum eða láglaunafólki og eldri borgurum. Það er nauðsynlegt fyrir lýðræði og mannréttindi að við látum ekki glepjast af slíkum tilraunum. Baráttan hlýtur alltaf að snúast um að auðnum sé skipt með sanngjörnum hætti og að stórfyrirtæki og auðmenn greiði sinn sanngjarna skerf til samfélagsins,“ segir forseti ASÍ.

Hún segir áherslur Alþýðusambandsins og aðildarfélaga á breytt samfélag í gegnum skatta og önnur stjórnvaldstæki hafi vakið athygli út fyrir landsteina. „Þegar verkalýðshreyfingin allt í kringum okkur berst í bökkum og háir varnarbaráttu fyrir áunnum réttindum þá sækjum við fram með miklar kröfur á stjórnvöld um jafnara og betra samfélag fyrir alla. Í aðdraganda kjarasamninga fáum við að heyra að lægstu laun séu há hér á landi í samanburði við önnur lönd og jöfnuður hvergi meiri. Gott og vel, en önnur lönd eiga ekki endilega að vera viðmiðið heldur það sem okkur sjálfum þykir sanngjarnt og réttlátt. Við erum því í forystu annarra landa um þessar mundir og bræður okkar og systur um heim allan fylgjast með.“

Hún segir verkalýðshreyfinguna aldrei mega gefa afslátt af áunnum réttindum.  „Það eru stór verkefni sem bíða okkar en verkalýðshreyfingin á Íslandi er vel skipulögð grasrótarhreyfing og tilbúin í það sem koma skal. Krafa okkar í dag er meiri jöfnuður og samfélag þar sem allir fá tækifæri til að blómstra. Förum þangað og öllum farnast betur.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -