Þriðjudagur 16. apríl, 2024
2.1 C
Reykjavik

Við munum þig Stefán Karl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þær fregnir bárust um miðbik vikunnar að einn ástsælasti leikari landsins, Stefán Karl Stefánsson, væri látinn eftir tveggja ára baráttu við illvígt gallgangakrabbamein.

Það má með sanni segja að Stefán Karl hafi barist hetjulega við meinið, með eiginkonu sína, stórleikkonuna Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, sér við hlið. Hann greindist með krabbamein í brishöfði haustið 2016 og fór í kjölfarið í nokkrar aðgerðir og krabbameinsmeðferð. Ári síðar leit út fyrir að Stefán Karl væri laus við meinið. Fyrr á þessu ári var það síðan reiðarslag fyrir fjölskyldu leikarahjónanna þegar ný meinvörp greindust í Stefáni Karli, meinvörp sem ekki væri hægt að fjarlægja með skurðaðgerðum.

Íslendingar, sem og aðdáendur Stefáns Karls um heim allan, hafa fylgst agndofa með baráttu leikarans, enda hafa þau hjónin ávallt barist með jákvæðni og bjartsýni að vopni. Steinunn Ólína raunar kom þessum baráttuvilja hvað best í orð í pistli sem hún skrifaði á vef sinn kvennabladid.is fyrr á árinu:

„Ég mun aldrei bjóða þér að búa hjá mér því það er nákvæmlega ekkert varið í þig, Dauði. Vægðarleysi og grimmd þín er fyrirlitleg. Fokkaðu þér, Dauði.“

Að ósk Stefáns Karls verður engin jarðarför, en ösku hans verður dreift í kyrrþey á úthafi fjær. Auk eiginkonu lætur Stefán Karl eftir sig fjögur börn; Elínu Þóru, Júlíu, Þorstein og stjúpdótturina Bríeti Ólínu.

„Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist“

Stefán Karl var innfæddur Hafnfirðingur og hóf leiklistarferilinn með leikfélagi Hafnarfjarðar þegar hann var þrettán ára. Þá steig hann einnig reglulega á svið í Öldutúnsskóla þegar hann stundaði þar nám. Þjóðin tók fyrst eftir Stefáni Karli í Áramótaskaupi Sjónvarpsins árið 1994 þar sem hann lék fréttamann, á móti óheiðarlegri sendiráðsfrú sem leikin var af gamanleikkonunni Eddu Björgvinsdóttur.

Fimm árum síðar útskrifaðist Stefán Karl úr Leiklistarskóla Íslands. Sama ár landaði hann því hlutverki sem hann er hvað þekktastur fyrir – hins óborganlega, uppátækjasama og seinheppna Glanna glæps í Latabæ. Um framhaldið þarf varla að fjölyrða en Latibær náði heimsathygli þegar þættirnir hófu göngu sína á bandarísku stöðinni Nickelodeon árið 2004. Í framhaldinu flutti Stefán Karl ásamt fjölskyldu til Kaliforníu.

- Auglýsing -

https://www.youtube.com/watch?v=4BIpDIelf8s

Í kjölfar vinsælda Latabæjar landaði Stefán Karl hlutverki Trölla í samnefndum söngleik byggðum á bók Dr. Seuss um hvernig Trölli stal jólunum. Hann lék Trölla í fjölmörgum borgum í Bandaríkunum og Kanada, alls sex hundruð sinnum fyrir um tvær milljónir aðdáenda. Til marks um vinsældir leikarans hafa fjölmargir erlendir miðlar minnst hans, meðal annars BBC, CNN og Daily Mail. Hann var samt ekki aðeins fjölhæfur leikari, heldur ötull baráttumaður gegn einelti og rak góðgerðasamtökin Regnbogabörn um árabil. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu þann 17. júní á þessu ári fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Þótt Stefán Karl hafi heillað íslenska aðdáendur í ýmsum verkum á stóra sviðinu er þó eitt verk sem stendur upp úr – Með fulla vasa af grjóti. Það verk var fyrst sett upp árið 2000 og sló rækilega í gegn. Það fór aftur á fjalirnar árið 2012 og í þriðja sinn í fyrra. Þá hafði Stefán Karl nýlega lokið sterkri geislameðferð. Við skulum leyfa leikaranum sjálfum að eiga lokaorðin úr viðtali Morgunblaðsins við hann eftir síðustu sýningu Með fulla vasa af grjóti – tilvitnun sem einkenndi lífsspeki leikarans:

„Já, núna er þessum kafla lokið. Eins og Dr. Seuss sagði: „Ekki gráta af því þessu er lokið. Brostu yfir því að það gerðist.““

- Auglýsing -

Minning um mann

Fjölmargir hafa minnst Stefáns Karls á samfélagsmiðlum síðustu daga. Leyfum minningunum um merkan mann að tala sínu máli.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -