Fimmtudagur 25. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Viljum við spila með framtíðina?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Skoðun

Eftir / Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur

Lendingin á Kastrup-flugvelli var mjúk. Tilhlökkunin fyrir langþráðu fríi í faðmi fjölskyldunnar er í hámarki. Þetta verður frábært frí, hugsarðu og tekur upp símann – eins gott að muna að slökkva á Netinu strax. Ég ætla ekki að enda gjaldþrota eftir fríið með háan símreikning. Þið takið nokkrar myndir og snöpp af börnunum á leiðinni á hótelið til að eiga inni þangað til næsta nettenging finnst (ef síminn verður ekki óvart rafmagnslaus í millitíðinni). Og þannig gengur fríið fyrir sig. En símreikningurinn verður að minnsta kosti ekki svimandi hár. Það er fyrir öllu.

„Streyma eins og heima“

Þessi veruleiki heyrir sem betur fer sögunni til. Það var 15. júlí 2017 sem markaði vatnaskil. Þá gátu Íslendingar og aðrir Evrópubúar ferðast um álfuna með snjallsímann á lofti án sérstaks reikigjalds. Loksins gátu ferðlangar deilt upplifunum eins og enginn væri morgundagurinn og stressið um hvort það væri ekki örugglega slökkt á Netinu heyrði sögunni til. Veruleiki sem næstu kynslóðir munu vafalaust hlæja að. Þarna kristallaðist hugsjón Evrópusambandsins um að íbúar ESB/EES geti ferðast og notað þjónustu eins og þeir séu í heimalandinu. Fjarskipti eru orðin órjúfanlegur hluti af tilveru okkar. Þessi eðlilega breyting, sem sumum kann að finnast smávægileg, er enn ein byltingin þegar kemur að öflugri neytendavernd Evrópusambandsins. Lítil þjóð hefði ekki lagt símarisana í Evrópu en vegna fjölþjóðasamstarfs ríkja ESB þurftu símafyrirtækin að lúta í gras. Og neytendur njóta góðs af.

Sjálfsögð tækifæri?

Árið 1994 opnuðust okkur dyr að Evrópu með EES-samningnum. Frjálst flæði fjármagns, fólks, vöru og þjónustu og þar með aðgangur að fimm hundruð milljóna manna markaði breytti landslaginu. Fyrir fyrirtækin sem heimili. Inn flæddu framandi vörur sem ekki þekktust á íslenskum heimilum; einsleitni var skipt út fyrir fjölbreytni, fákeppni fyrir samkeppni, vöruverð lækkaði og valfrelsi jókst. Í aldarfjórðung hefur EES-samningurinn veitt íslenskum ríkisborgurum lífsgæði og tækifæri sem nær óhugsandi væri að vera án í dag. Tækifæri þvert á landamæri til að ferðast, stunda viðskipti, búa og mennta okkur, efla umhverfisvernd, nú eða að nota Netið í símanum óhindrað. Allt sjálfsagðir hlutir úr hversdagslífinu, ekki satt?

- Auglýsing -

Viljum við spila með lífsgæðin?

Tortryggni gagnvart EES-samningnum hefur farið vaxandi, m.a. með tilkomu þriðja orkupakkans. Því miður hefur hún verið knúin markvisst áfram af síendurteknum rangfærslum, ósannindum og áróðri. Einangrunarsinnar, sem leynast víða, sá efasemdafræjum í garð fjölþjóðasamstarfs, tortryggja loftslagsbreytingar og standa vörð um Ísland fyrir Íslendinga. Þegar við bætist að ríkisstjórnarflokkar og bakland þeirra virðist ætla að kúvenda í afstöðu sinni til EES-samstarfsins er líklegt að við munum fyrr en síðar standa frammi fyrir spurningunni: Viljum við skila þeim réttindum sem EES hefur fært okkur og afsala okkur þeim lífsgæðum sem honum fylgir? Er það lífið sem við þráum?

Höfundur er formaður Viðreisnar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -