Föstudagur 29. mars, 2024
-4.2 C
Reykjavik

Virkjar sinn innri mótorhjólatöffara

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngvarinn vinsæli Valdimar Guðmundsson fetar ótroðnar slóðir þessa dagana en í kvöld stígur hann á Stóra svið Borgarleikhússins í hlutverki Eddies í söngleiknum Rocky Horror.

Þetta er fyrsta hlutverk Valdimars á leiksviði en hann segist ekki kvíðinn fyrir frumsýningunni, hann þurfi fyrst og fremst að muna að virkja mótorhjólatöffarann innra með sér, jafnvel þótt hann hafi aldrei keyrt mótorhjól.

Í kvikmyndinni frægu frá 1975 er það sjálfur Meatloaf sem fer með hlutverk Eddies og ég byrja á að spyrja Valdimar hvort Meatloaf sé í uppáhaldi hjá honum sem söngvari.

„Ég get nú ekki sagt það, nei,“ segir Valdimar, sem er nýkominn af strangri æfingu og pínulítið andstuttur eftir hamaganginn á sviðinu. „Mér finnst hann alveg fínn söngvari en tónlistin hans er ekki í þeim flokki tónlistar sem höfðar mest til mín. Ekki minn tebolli.“

Spurður hvernig það hafi komið til að hann var fenginn til leika hlutverk Eddies, segist Valdimar hafa grun um að Jón Ólafsson, tónlistarstjóri sýningarinnar, hafi mælt með honum í hlutverkið.

„Við Jón höfðum unnið saman í öðru verkefni og ég held að hann hafi ýtt á það að fá mig til að leika Eddie. Honum fannst ég passa vel í hlutverkið og svo er ég svolítið þykkur sem hentar vel í þetta hlutverk.“

Talandi um það, fyrir tveimur árum fylgdist öll þjóðin með líkamsræktarátaki Valdimars þegar hann steig fram og viðurkenndi að líkamsástand hans væri farið að valda sér heilsutjóni. Ári seinna hafði hann misst 40 kíló og var enn þá á fullu í ræktinni. Hver er staðan í því máli núna?

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt.“

- Auglýsing -

„Ég er enn þá í ræktinni, var síðast í ræktinni í morgun, en ég tek þetta ekki með neinu offorsi, reyni að finna skynsamlegan meðalveg og passa bara upp á að lenda ekki á sama stað og ég var fyrir tveimur árum. Þá var ástandið orðið alvarlegt. Ég ætla ekki þangað aftur. Maður þarf samt að passa sig að fara ekki út í neinar öfgar. Þetta snýst allt um að láta skynsemina ráða og finna hinn gullna meðalveg.“

En er ekki mikil líkamleg áreynsla að leika í söngleik? Vera þjótandi um sviðið syngjandi með hamagangi og danssporum?
„Þetta er nú ekki langur tími sem ég þarf að vera inni á sviðinu,“ segir Valdimar sallarólegur. „Þetta tekur auðvitað á en það er ekkert sem ég ræð ekki við.“

Lifir ekki slúðurvænu lífi

- Auglýsing -

Auk þess að leika í Rocky Horror er Valdimar að undirbúa útgáfu nýrrar plötu með hljómsveit sinni Valdimar. Fyrsta lagið af plötunni sem meiningin er að komi út í haust, „Of seint“, fór í spilun í síðustu viku og Valdimar lýsir því sem „rokk/diskó, popp rokk eitthvað“. Maður hnýtur um orðið diskó og spyr eins og auli hvort Valdimar sé ekki allt of ungur til að muna eftir diskóæðinu.

„Jú, ég er fæddur 1985 svo diskótímabilið var löngu liðið þegar ég man fyrst eftir mér,“ segir hann hneykslaður á fáfræði blaðamannsins. „En diskóið er farið að skjóta upp kollinum í rappinu og víðar svo við erum nú ekkert að gera einhverja byltingu. Ég veit ekki einu sinni hvort það er rétt að nota orðið diskó í þessu samhengi. Ég heyri diskóhljóm í þessu lagi, en það er ekkert víst að aðrir heyri það.“

Þjóðin elskar Valdimar sem ballöðusöngvara en sjálfur segist hann kannski frekar líta á sig sem rokksöngvara. „Ég hef gaman bæði af rokki og rólegheitum og alls konar stílum,“ segir hann ákveðinn. „Ég vil ekki festa mig við eitthvað eitt en ég hallast þó aðeins að rokkinu.“

Ég reyni að pumpa Valdimar um einkalíf hans en hann er ekkert á þeim buxunum að gefa mikið upp um það. Hann segist hvorki vera í sambúð né föstu sambandi og lifi almennt ekki slúðurvænu lífi. Það er tónlist, tónlist og aftur tónlist sem líf hans snýst um. En er ekki mikil skuldbinding fyrir eftirsóttan tónlistarmann að festa sig í einu verkefni í leikhúsinu? Hvað ef sýningin gengur árum saman, flækist hún þá ekki fyrir ferli hans sem tónlistarmanns?

„Ég er nú ekkert farinn að hugsa svo langt enn þá,“ segir Valdimar og hlær. „Það getur vel verið að það verði einhverjir árekstrar verkefna en það er nú yfirleitt hægt að leysa það þegar slíkt kemur upp. Og ég er þá alla vega á föstum launum á meðan sýningin gengur, það er ágætis tilbreyting.“

Er erfitt að sjá fyrir sér með því að vera alfarið í tónlistarbransanum?
„Alla vega ekki eftir að maður er orðinn eftirsóttur,“ segir hann ákveðinn. „Það er auðvitað hark fyrst en síðustu sex árin hef ég alfarið lifað af tónlistinni og það gengur ágætlega. Ég hef auðvitað ekki orðið ríkur af þessu, á til dæmis engan Range Rover, en ég get alveg lifað af þessu.“

Væri það ekki líka hræðilegt stílbrot fyrir rokkara að keyra um á Range Rover?
„Jú, algjörlega! Ég tók hann nú bara sem dæmi um birtingarmynd ríkidæmis, ég myndi alls ekki vilja eiga Range Rover,“ segir Valdimar glottandi. „Það væri ekki ég.“

Ótrúlegt ferðalag að leika í Rocky Horror

Aftur að Rocky Horror. Á Facebook-síðu Valdimars birtist nýlega mynd af honum í hælaháum skóm, þýðir það að hann sé í dragi í sýningunni?
„Nei, ég er ekki í dragi. Ég er í leðurgalla mótorhjólatöffara, með svarta hárkollu og barta sem ég er búinn að safna. Skórnir voru bara smágrín sem kannski verður notað í uppklappinu. Eða ekki, það kemur í ljós,“ bætir hann við leyndardómsfullur.

Þetta er fyrsta leikhlutverk Valdimars, þótt hann hafi reyndar áður verið á leiksviði í hlutverki básúnuleikara í bæjarhljómsveitinni í sýningu Borgarleikhússins á Milljarðamærin snýr aftur eftir Dürrenmatt fyrir sléttum níu árum. Hvernig gengur honum að leika, er hann góður leikari?

„Ég er nú kannski ekki rétti maðurinn til að svara því,“ segir hann, hógværðin uppmáluð. „En ég held þetta gangi ágætlega. Þegar ég er kominn í gallann, með hárkolluna og sminkið verð ég bara Eddie. Það eina sem ég þarf að muna er að virkja minn innri mótorhjólatöffara og þá smellur þetta allt saman.“

„Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Mótorhjólatöffara? Hefurðu verið mótorhjólatöffari?
„Nei, nei. Ég hef ekki einu sinni keyrt mótorhjól,“ svarar Valdimar glaðbeittur. „En það býr mótorhjólatöffari innra með mér og hann fær að njóta sín í þessari sýningu.“

Talið berst að sýningunni og því hvort Valdimar kvíði ekkert fyrir því að koma í fyrsta sinn fyrir augu þjóðarinnar sem leikari. Hann segist ekki kvíðinn enda sé hann í hópi stórkostlegra listamanna og það hafi verið mikil og dýrmæt reynsla að fá að taka þátt í þessari uppsetningu.
„Þetta er búið að vera alveg ótrúlegt ferðalag,“ segir hann andaktugur. „Það er svo frábært fólk sem vinnur að þessari sýningu á öllum sviðum. Tónlistarmenn, leikarar, leikstjóri, leikmyndahönnuðir, dansarar, danshöfundur, búningahönnuðir og förðunarfólk, þetta er allt toppfólk á sínu sviði og ég er ótrúlega þakklátur fyrir að hafa fengið að kynnast þessum heimi og taka þátt í að búa þessa sýningu til. Það er enginn kvíði í mér fyrir frumsýningunni, bara tilhlökkun og gleði. Ég held ég geti alveg lofað því að fólk á eftir að skemmta sér vel í Borgarleikhúsinu á næstunni. Eða, já, ég held það ekkert, ég get lofað því! Þetta er frábær skemmtun.“

Texti / Friðrika Benónýsdóttir
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -