Fimmtudagur 18. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

„Vissi ekki að pabbi væri frægur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stefán Hilmarsson var ekkert að básúna það inni á heimilinu að hann væri söngvari Sálarinnar hans Jóns míns. Sonur hans, Birgir Steinn Stefánsson, stóð lengi í þeirri meiningu að hann væri trommari.

Feðgarnir Stefán Hilmarsson og Birgir Steinn Stefánsson eru nánir og góðir vinir og styðja hvor annan í tónlistinni. Birgir sendir bráðum frá sér sína fyrstu sólóplötu á meðan Stefán hefur farið sér hægt undanfarið.

Stefán hefur verið einn ástsælasti söngvari þjóðarinnar í áratugi og Birgir Steinn hefur heldur betur slegið í gegn á Spotify, er með yfir milljón fasta fylgjendur og lag hans Can You Feel It hefur þar verið leikið rúmlega tólf milljón sinnum. Hefur þessi velgengni komið þeim feðgum á óvart?

„Ég átti alls ekki von á þessu og þetta kom mér satt að segja mikið og gleðilega á óvart“, segir Birgir og hljómar steinhissa. „Ég hafði alltaf góða trú á laginu og því efni sem ég hef verið að gefa út, en þetta voru mun betri viðbrögð en ég bjóst við.“

Stefán tekur undir með syninum. „Já, ég verð að viðurkenna að þetta hefur komið mér á óvart, svona öðrum þræði,“ segir hann. „Það eru varla nema tvö til þrjú ár síðan hann fór að sinna tónlistinni af alvöru. Hann fer svolítið aðra leið en ég, einbeitir sér mest að því að pæla í músík, semja og dunda sér við upptökur, en gerir kannski minna af því að troða upp opinberlega eins og ég hef jafnan gert.“

Langaði frekar að syngja en elta bolta

Birgir segist samt í rauninni hafa verið á kafi í tónlist síðan hann man eftir sér, en hafi ekki komið fram opinberlega fyrr en við útskriftina úr grunnskóla.

- Auglýsing -

„Ég var sífellt sönglandi og þegar ég var í fótbolta sem strákur hafði ég meiri áhuga á því að syngja inni á vellinum en að elta boltann. Mér var alveg sama þótt boltinn færi fram hjá mér, hélt bara áfram að hlaupa og syngja.“

Stefán segir að þetta sé nú kannski fært í stílinn, því þótt Birgir hafi stöku sinnum virst sveimhuga á vellinum, hafi hann þó verið ágætur í fótboltanum. „En hann festi ekki alveg yndi við boltann,“ útskýrir hann. „Svo hann hætti að sparka og sneri sér að öðru á unglingsárum, eins og gengur.“

Ég var sífellt sönglandi og þegar ég var í fótbolta sem strákur hafði ég meiri áhuga á því að syngja inni á vellinum en að elta boltann.

Þeir feðgar eru sammála um að tónlistariðkun Birgis hafi ekki verið að frumkvæði föður hans, foreldrarnir hafi bara leyft honum að fara sínu fram og gera það sem hann hefði áhuga á.

- Auglýsing -

„Pabbi hvatti mig ekkert endilega beint til að spila eða syngja,“ segir Birgir. „En hann latti mig alls ekki heldur, hann bara gerði sitt og ég gerði mitt, en auðvitað var alltaf tónlist í kringum mig og ég fór í nokkra píanótíma þegar ég var yngri, en hætti fljótlega því mér fannst leiðinlegt að læra tónfræðina. Ég vildi miklu frekar læra lögin bara með því að hlusta á þau og setjast síðan við hljóðfærið og spila.“

Stefán tekur undir það að foreldrarnir hafi ekki haldið tónlistinni mikið að Birgi.

„Við foreldrarnir leiddum hann ekkert út á tónlistarbrautina, ef frá eru taldir píanótímarnir forðum,“ segir hann. „Að öðru leyti fetaði hann eigin slóð. Svo kom að því að hann langaði í trommusett og við létum það eftir honum. Fljótlega heyrði maður að hann virtist býsna flinkur trommari og þá hvatti maður hann auðvitað. Síðan átti hann það til að grípa í píanóið heima hjá afa sínum og ömmu, sem síðar arfleiddu hann að píanóinu og hann hefur samið á það mörg laga sinna, held ég.“

Hélt að pabbi væri trommari

Spurður hvort pabbi hans hafi að einhverju leyti verið fyrirmynd þegar hann var að byrja í tónlistinni er Birgir snöggur til svars.

„Já, algjörlega,“ segir hann með áherslu. „En í rauninni áttaði ég mig ekki á því að pabbi væri þekktur söngvari fyrr en ég var orðinn 15-16 ára. Hins vegar hélt ég á tímabili, þegar ég var innan við tíu ára, að hann væri trommari. Það voru nefnilega bongótrommur í bílskúrnum og mér fannst því ekki ólíklegt að pabbi væri trommari. En á þeim tímapunkti hafði ég ekki hugmynd um að hann syngi hina ýmsu smelli sem hljómuðu reglulega í útvarpinu.“

Það voru nefnilega bongótrommur í bílskúrnum og mér fannst því ekki ólíklegt að pabbi væri trommari.

Stefán kímir. „Þetta hefur líklega verið þegar ég var að syngja með Milljónamæringunum, en ég lék stundum á þessar bongótromur með þeim. En þær urðu mögulega örlagavaldur í lífi Birgis, þar sem hann tók þær eignarnámi og hóf að stunda trommuslátt og hlusta á rokk. Kannski var grunnur trommuástríðunnar sá að hann hélt að þetta væri það hljóðfæri sem ég spilaði á, ég hef aldrei hugsað út í það.“

En hvernig var að alast upp sem sonur eins vinsælasta söngvara landsins, Birgir? „Ég hef fengið þessa spurningu oft, alveg síðan ég var krakki; hvernig er að vera sonur Stefáns Hilmarssonar? Og svarið við henni er einfaldlega að ég hef aldrei prófað neitt annað, þetta er það eina sem ég þekki og ég held að það sé ekkert mikið öðruvísi en að vera sonur einhvers annars. Allavega fékk ég, held ég bara, nokkuð eðlilegt uppeldi og fann lítið fyrir því pabbi væri mögulega ólíkur öðrum pöbbum, þótt hann væri söngvari.“

Birgir Steinn var kominn á unglingsár þegar hann uppgötvaði að faðir hans væri einn þekktasti söngvari landsins. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Tónlistarstörfin lítið rædd við matarborðið

Spurður hvort hann hafi lagt áherslu á að halda fjölskyldunni fyrir utan tónlistarferilinn segist Stefán svo sem ekki hafa hugsað það þannig.

„Ég held ég hafi nú ekki úttalað mig mikið um tónlistarstörfin við matarborðið í gegnum árin,“ segir hann. „Enda verða þau störf, jafnt sem önnur, smátt og smátt partur af venjubundinni tilveru. Vissulega er munur á því að leggja malbik og syngja lag, en annað er svo sem ekkert merkilegra en hitt. Auðvitað ber sitthvað á góma við matarborðið, en músíkin er ekkert ofar á baugi en ýmislegt annað. Ég held að þar hafi mun oftar verið rætt um íþróttir en tónlist.“

Einn frægasti texti Stefáns, Líf, var innblásinn af fæðingu Birgis Steins, sem segist hafa verið lengi að átta sig á því að lagið væri tileinkað honum.

„Það er kannski besta leiðin til að útskýra það almennilega fyrir fólki hvað í raun fór lítið fyrir tónlist inni á heimilinu,“ segir hann brosandi.

Spurður hvort hann haldi að hann hafi skapað Birgi örlög með þessu lagi verður Stefán hugsi. „Það er aldrei að vita,“ segir hann. „Mér fannst ég þó einfaldlega bara þurfa að tjá mig um þá lífshamingju á þeim tíma, en það vakti nú ekki fyrir mér að það yrði mögulega einhvers konar akgrein fyrir hann inn á tónlistarbrautina, þótt það sé nú fullbratt að halda því fram að sú sé raunin.“

Aðalstarf pabba að smyrja samlokur

Mýtan segir að tónlistarmenn eigi erfitt með að sameina ferilinn og fjölskyldulífið, en Stefán segir það alhæfingu. „Það er ekkert svo erfitt,“ segir hann. „Maður semur sig bara að ákveðnum takti. Reyndar er maður stundum töluvert að heiman, enda var þetta og er enn mikið til helgarvinna og maður hefur misst af nokkrum fjölskyldu- eða vinaveislum í gegnum árin, en á móti kemur að virku dagarnir voru oft rólegri og þá hafði maður til dæmis meiri fjölskyldutíma. Þetta er bara lífsstíll sem þarf að aðlagast ef maður hyggst leggja þetta fyrir sig í fullri alvöru. Ýmsar aðrar starfsgreinar eru erfiðari hvað fjarvistir varðar, til dæmis er sjómennskan að því leyti verri en „showmennskan“,“ segir hann brosandi

Birgir tekur undir þetta. „Aðalmunurinn á okkar heimili og heimilum vina minna var að pabbi var oftar heima á virkum dögum. Sem var auðvitað þægilegt fyrir mig. Þegar ég kom heim úr skólanum var hann oftar en ekki búinn að smyrja samlokur handa mér. Svo hvarf hann svolítið um helgar, fór að syngja einhvers staðar. En auðvitað hlýtur hann að hafa unnið töluvert heimafyrir, til dæmis við texta- og lagasmíðar, þótt mér hafi fundist hann aðallega vera þar til að smyrja samlokur handa mér,“ segir hann og blikkar pabbann.

Eins og flestir músíkantar hef ég þurft að fást við ýmislegt annað með fram tónlistinni, því listin er harður fjárhagshúsbóndi og fáir draga fram lífið einungis með listsköpun.

Stefán hlær að þessari lýsingu sonarins. „Þetta eru nú dálitlar ýkjur,“ segir hann. „Eins og flestir músíkantar hef ég þurft að fást við ýmislegt annað með fram tónlistinni, því listin er harður fjárhagshúsbóndi og fáir draga fram lífið einungis með listsköpun. Ég hef því starfað við ýmislegt samhliða söng í gegnum tíðina, fengist við eitt og annað heima og að heiman. En auðvitað hef ég þó ekki látið það bitna á samlokugerðinni.“

Í 12 ár var Birgir Steinn eina barn Stefáns og Önnu Bjarkar Birgisdóttur, konu hans, en árið 2004 bættist yngri sonurinn, Steingrímur Dagur, í hópinn. Var ekki erfið upplifun fyrir einkabarnið að þurfa að deila ást og athygli foreldranna með öðrum?

„Hann stal náttúrlega algjörlega senunni,“ segir Birgir og hlær. „En ég var sem betur fer orðinn það gamall að það skipti litlu máli. Ég var aldrei afbrýðisamur og við höfum eiginlega verið bestu vinir frá því að hann fæddist. Alveg grínlaust og eins fáránlega fullkomið og það hljómar þá held ég að ég og bróðir minn höfum rifist innan við fimm sinnum á þessum fimmtán árum sem hann hefur verið til. Við virkum eins og smurð vél saman og ég er mjög þakklátur fyrir það.“

Þannig að þú fórst ekki út í það að gerast vandræðaunglingur til að ná athyglinni aftur?

„Nei, alls ekki. Ég hef alltaf verið rosalega passasamur,“ segir Birgir og hlær. „Ég hætti mér aldrei út í neitt. Ef vinir mínir hoppuðu niður tvær tröppur í einu fór ég frekar eina tröppu í senn. Ég var alltaf mjög rólegur. Jú, jú, ég var dálítið athyglissjúkur í vinahópnum, alltaf syngjandi og gólandi og leikandi látbragðsleiki, en alltaf mjög rólegur þess utan.“

Stefán samdi lagið Líf eftir fæðingu Birgis Steins. 16 árum síðar kom Birgir Steinn fyrst fram opinberlega og söng þá það sama lag. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Kitlaði augntaugar foreldranna

Birgir kom fyrst opinberlega fram á unglingsaldri, en hafa þeir feðgar aldrei komið fram saman?

„Ég hef sungið með pabba á jólatónleikum hans tvisvar eða þrisvar,“ segir Birgir. „Það var hins vegar við grunnskólaútskriftina mína sem ég kom fyrst fram opinberlega, en þá ákvað ég, öllum að óvörum, að setjast við píanóið og flytja lagið Líf. Pabbi og mamma vissu ekkert af þessu fyrir fram en voru auðvitað viðstödd og ég held ég hafi kitlað nokkrar taugar í augunum á þeim báðum með þessu. Þetta var eiginlega upphafið að ferlinum hjá mér.“

Stefán segir að þetta hafi verið mjög eftirminnilegt. „Ég man nú ekki hvort ég komst við, en auðvitað snerti þetta mig djúpt, enda textinn saminn til hans.“

Þrátt fyrir að virðast rólegur eins og pabbi þvertekur Birgir fyrir það að vera einrænn eða inni í sér.

„Ég er algjör félagsvera,“ segir hann. „Í kringum ákveðið fólk, svona mína nánustu, get ég verið mjög rólegur og látið lítið fyrir mér fara, en í margmenni og stórum hópum hef ég alltaf verið mjög léttur og félagslyndur.“

Gefur syni sínum ráð í tónlistinni

Birgir segist hafa verið að semja tónlist síðan á unglingsárum, bæði fyrir sjálfan sig og aðra. En leitar hann aðstoðar hjá föður sínum?

„Já, ég leyfi pabba að heyra margt sem ég geri,“ segir Birgir. „Hann hefur auðvitað áralanga reynslu úr stúdíóbransanum og gott að hafa einhvern sem maður getur leitað til ef maður vill fá álit. Hins vegar hef ég hingað til samið á ensku, sem er dálítið öðruvísi en að semja á íslensku og að mörgu leyti auðveldara, finnst mér. Pabbi á það til að koma með ábendingar og punkta og það kemur alveg fyrir að ég taki þá til greina, þótt ég hafi auðvitað alltaf lokaorðið.“

Stefán segir að sér finnist mjög gaman að fá að heyra það sem Birgir er að vinna að hverju sinni. „Ég hef gaman að því að geta hjálpað og kannski bent á eitt og eitt atriði sem betur megi fara, að mínu mati, þótt eðlilega sé smekkur okkar ekki alltaf eins, það er bara eins og það er.“

En svarar þú í sömu mynt? Læturðu Birgi hlusta á það sem þú semur? „Já, svona hin seinni ár hef ég stundum gert það, þótt ég hafi reyndar verið frekar rólegur í útgáfu undanfarið,“ segir Stefán.

Stefán er einn þekktasti textasmiður þjóðarinnar til áratuga, hvað finnst honum um textagerð sonarins? „Birgir semur á ensku og ég hef verið að hvetja hann til að semja eitthvað á íslensku, þótt ég skilji vel að hyggist menn fanga athygli á veraldarvefnum geti íslenskan verið hamlandi. Hann er í raun að taka sín fyrstu alvöruútgáfuskref, þannig að ótímabært er að fella hér stóran dóm. Mér finnst hann hins vegar hafa góðan sans fyrir „eyrnaormum“ það sem í bransanum er stundum kallað „hookur“, eða „krókur“. En eins og önnur listsköpun þá eru lagsmíðar sífellt námsferli, maður verður aldrei fullnuma, en manni fer alltaf pínulítið fram. Sumir frumtexta minna eru glompóttir og maður lét ýmislegt frá sér sem hafði mátt við meiri yfirlegu. En sem betur fer er maður nú ánægður með ýmislegt.“

Æsir sig helst í golfinu

Feðgarnir eru algjörlega einróma um að þeir séu nánir og miklir vinir. „Við erum alveg ótrúlega nánir,“ fullyrðir Birgir. „Ég hugsa að pabbi hafi ekki skammað mig síðan ég var smákrakki. Ég man mjög vel eftir því þegar hann skammaði mig síðast, það hafði svo sterk áhrif á mig.“

Stefán tekur undir að þeir feðgar séu nánir. „Það er óhætt að segja það. „Við erum góðir félagar og vinir, alveg eins og maður vill hafa það.“

En eru þeir feðgar líkir að eðlisfari? „Já, við erum nokkuð líkir,“ segir Birgir strax. „Pabbi er rosalega róleg týpa, þótt hann líti kannski ekki út fyrir það þegar hann er uppi á sviði að öskra Sódómaaaa!!! Við náum alveg ofboðslega vel saman og höfum gert alveg síðan ég man eftir mér.“

Stefán samþykkir þetta. „Ég held við séum frekar líkir, já. Ég held reyndar að hann sé almennt aðeins yfirvegaðri en ég. Ég sé þó auðvitað ekki til hans alla daga núorðið, eftir að hann flutti að heiman. Ég á það til að æsa mig svolítið í golfinu, þó að aldurinn hafi nú mildað mjög slík bræðisköst. Ég á eftir að sjá til Birgis eftir mjög misheppnað golfhögg, en golfið er að mörgu leyti ágæt mælistika á skaphöfn fólks.“

Pabbi er rosalega róleg týpa, þótt hann líti kannski ekki út fyrir það þegar hann er uppi á sviði að öskra Sódómaaaa!!!

Spurður um á hvað hann hafi lagt áherslu í uppeldinu, segist Stefán nú eiginlega ekki geta sagt til um það. „Það er erfitt að svara því,“ segir hann hugsi. „Eins og flestir foreldrar geta eflaust tekið undir þá spilar maður jafnan uppeldið af fingrum fram, það er ekki til nein varanleg handbók um uppeldi. Maður reynir bara að vera góður í sér og almennt í þokkalegu standi og dansar oftar en ekki á línunni á milli þess að vera sveigjanlegur og ákveðinn. Ég hugsa að ég hafi hingað til verið ágætis pabbi, alltént ekki slæmur.“

En hvaða ráðleggingar föðurins hafa nýst Birgi best á tónlistarferlinum? „Ég myndi segja kurteisi,“ segir Birgir. „Hún hefur fleytt mér rosalega langt. Til dæmis það að virða alla tónlist, hún á öll rétt á sér, hvort sem það er þungarokk, popp eða hvaðeina, og það hefur pabbi kennt mér. Það fauk stundum í mann þegar maður var að byrja ef fólk fílaði ekki lögin manns, en bæði pabbi og mamma hafa alltaf lagt áherslu á að virða aðrar skoðanir og ég hef lært að fara eftir því. Maður getur heldur aldrei gert öllum til geðs, aðalatriðið er að maður sé sjálfur sáttur við það sem maður gerir.“

Sömdu lag saman

Þeir feðgar segjast ekki hafa mikið komið fram undanfarið, en það þýði þó engan veginn að það sé ekki ýmislegt í bígerð hjá þeim. Birgir hefur verið að vinna að sinni fyrstu sólóplötu sem mun koma út seinna í sumar og Stefán hefur, eins og hann orðar það, ekki enn sungið sitt síðasta.

„Ég hef verið rólegur og ekki gefið mikið út undanfarin misseri,“ segir hann. „Það er öðrum þræði meðvituð ákvörðun að halda mig svolítið til hlés. Svo kem ég líklega til baka þegar sköpunarþorstinn segir til sín og maður vill fara að tjá sig. Ég er alla vega ekki búinn að stimpla mig út“, segir hann og glottir. „Ég finn reyndar að það er farið að styttast í að ég haldi í hljóðver. Þetta minnir mig á að við Birgir sömdum saman prýðilegt lag í fyrra og það getur bara vel verið að ég hljóðriti það áður en langt um líður.“

Birgir útskýrir að hann hafi verið í stúdíói við og við núna í hálft ár að taka upp fyrstu alvöruplötuna sína, tólf lög. „Ég hef verið að tína eitt og eitt lag inn á Spotify og í útvarp og í þessari viku kemur einmitt út lagið For Our Love sem ég er mjög spenntur fyrir og svo kemur platan út í byrjun ágúst ef allt gengur vel. Síðan er stefnan að halda bara óhikað áfram að búa til músík.“

Stefán hefur haft hægt um sig undanfarið en segist þó alls ekki vera búinn að stimpla sig út úr bransanum. Mynd/Hákon Davíð Björnsson

Fær að koma fram í göngugrindinni

Birgir er í sambúð með Rakel Sigurðardóttur og fer að hlæja þegar ég spyr hvort hann sé að fara að gera pabba sinn að afa fljótlega. „Það kemur vonandi að því einn daginn,“ segir hann skellihlæjandi. „Ef allt fellur með manni. En það er ekki á dagskrá núna, við njótum bara lífsins, nýbúin að kaupa okkar fyrstu íbúð, höfum verið að ferðast aðeins saman og skemmta okkur. En við skulum vona að pabbi og mamma verði nú afi og amma einn daginn.“

Hvernig leggst sú tilhugsun að verða afi í Stefán, fyndist honum hann ekki verða gamall við það? „Birgir er núna á svipuðum aldri og ég var þegar hann kom í heiminn. Þannig að það styttist vonandi í þetta,“ segir Stefán sposkur. „Auðvitað er maður ekkert að yngjast, en það eitt að verða afi, hvenær sem það yrði, ætti varla að bæta á mann mörgum árum,“ bætir hann við og skellir upp úr.

En hvað með nánara samstarf? Hafa þeir feðgar eitthvað velt því fyrir sér að koma fram saman eða vera gestasöngvarar á plötum hvor annars á næstunni. „Ekki eins og er, nei,“ segir Birgir. „Það hefur ekki verið rætt. Ég er enn bara að koma ferli mínum af stað, en það er aldrei að vita. Við sungum reyndar saman jólalag sem kom út fyrir nokkrum árum. Kannski held ég jólatónleika þegar ég verð fimmtugur og pabbi verður þar með göngugrindina að taka lagið. Ég yrði að endurgjalda honum að hafa leyft mér að syngja á hans jólatónleikunum um árið,“ bætir hann hlæjandi við.

„Mér líst vel á þá hugmynd,“ segir Stefán og tekur undir hlátur sonarins. „Þetta er díll. Vonum bara að ég verði ofar foldu þegar þar að kemur.“

Viðtalið birtist fyrst í Mannlífi 21. júní.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -