Föstudagur 19. apríl, 2024
-0.9 C
Reykjavik

Þöggun og meðvirkni með ofbeldismönnum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir er orðin einn helsti talsmaður stjórnarandstöðunnar á þingi þrátt fyrir tiltölulega stutta þingsetu. Hún er föst fyrir og óhrædd við að taka slaginn í umdeildum málum og hefur einsett sér að berjast gegn þöggun og meðvirkni á Alþingi.

„Það er og hefur verið ákveðinn þöggunar- og meðvirkniskúltúr með ofbeldi og ofbeldismönnum, bæði í samfélaginu og inni á Alþingi og maður sér hvernig það er kerfisbundið reynt að þagga niður óþægileg mál. En við sjáum líka að það er orðið erfiðara að beita þessari taktík þótt vissulega sé það reynt, eins og í Klaustursmálinu,“ segir Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata.

Hún hefur látið mikið að sér kveða á þeim rúmlega tveimur árum sem liðin eru frá því hún settist fyrst inn á þing. Hún er óhrædd við að láta í sér heyra og hefur fyrir vikið hlotið lof en um leið verið gagnrýnd, samanber uppátæki hennar og Björns Levís Gunnarssonar þegar þau settu upp „Fokk ofbeldi“-húfu í þingsal á meðan Bergþór Ólason flutti ræðu í þingsal. Að hennar sögn var það skyndiákvörðun gerð af vanmætti.

Stækkun Miðflokks breytir engu

Spjallið hefst á þingstörfunum í vetur og það líður ekki langur tími þar til Klaustursmálið kemur upp. Eðlilega, enda fordæmalaust mál sem skyggt hefur á flest önnur mál síðan það kom upp í lok nóvember. Það mál tók nýja stefnu á dögunum þegar þeir Karl Gauti Hjaltason og Ólafur Ísleifsson gengu í Miðflokkinn sem þar með er orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi. Þórhildur Sunna telur að þessi vending breyti litlu um valdahlutföllin á þingi.

„Nei, þetta kom ekki á óvart, mér fannst þetta alltaf tímaspursmál enda snerist fundurinn frægi á Klaustri allur um það að lokka þá félaga yfir til Miðflokksins. Flokkaskiptin hafa í sjálfu sér lítil sem engin áhrif á stjórnarandstöðuna fyrir utan að nú fær Sigmundur [Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins] að vera fyrstur stjórnarandstöðuþingmanna í Eldhúsdagsumræðum og stefnuræðu forsætisráðherra. Honum finnst það eflaust frábært en ég sé ekki að það hafi mikil áhrif á okkar störf.“

Fjölgun í þingliði Miðflokksins breytir engu öðru en að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fær að fara fyrstur í ræðustól við sérstök tilefni, segir Þórhildur Sunna.

 

- Auglýsing -

Annar angi málsins sneri að formennsku Bergþórs Ólasonar í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Bergþór neitaði lengi vel að verða við kröfu minnihlutans um að víkja vegna Klaustursmálsins en lét að lokum undan og varð niðurstaðan sú að Jón Gunnarsson, Sjálfstæðisflokki, tók tímabundið við formennsku. Þórhildur Sunna furðar sig á því hvers vegna Miðflokkurinn hafi frekar verið til í að styrkja stöðu meirihlutans á þingi heldur en að láta samflokksmanni sínum eða öðrum flokki úr minnihlutanum formennskuna í té.

„Ég held að þeir telji að þessu sæti Bergþórs sé best varið hjá Sjálfstæðisflokknum upp á það að gera að Bergþór fái það aftur á einhverjum tímapunkti, að þetta sé ráðstöfun upp á það að gera og ekkert annað. Og þeir treysta sjálfstæðismönnum best til að færa Bergþóri formannssætið aftur.“

Bergþór var búinn að sitja sem fastast í tvær vikur án þess að vilja nokkuð gera til þess að skapa vinnufrið í nefndinn.

Þórhildur Sunna lítur svo á að Miðflokkurinn sé í raun orðinn fjórða hjólið undir vagni ríkisstjórnarinnar fremur en hluti af stjórnarandstöðunni.

- Auglýsing -

„Bergþór var búinn að sitja sem fastast í tvær vikur án þess að vilja nokkuð gera til þess að skapa vinnufrið í nefndinni og án þess að stjórnarmeirihlutinn vildi taka af skarið og fella hann fyrst Miðflokkurinn vildi ekki skipta inn þingmanni sem var ekki á Klaustri. En hann fær þessa fallegu útgönguleið á silfurfati frá stjórnarmeirihlutanum. Mér þykir það gefa í skyn að það sé eitthvað samkomulag þarna á milli, að það séu einhver kaup kaups,“ segir hún og bendir jafnframt á mikinn samhljóm með ríkisstjórninni og Miðflokknum í málum eins og lækkun veiðigjalda og samgönguáætlun.

Skyndiákvörðun gerð af vanmætti

Uppákoman sem vísað var til í inngangi hlaut afar blendin viðbrögð. Á meðan sumir hrósuðu þeim fyrir hugrekki voru aðrir sem vildu meina að þau hafi sett svartan blett á störf þingsins. Þórhildur Sunna viðurkennir að viðbrögðin hafi verið ákafari en hún átti von á.

„Ég hefði betur mátt gera mér grein fyrir því að fólk myndi taka þessu svona illa. Þetta var ekki beint þaulskipulagt atriði. Þetta var skyndiákvörðun og eiginlega gerð af ákveðnum vanmætti,“ útskýrir hún. Þau hafi með þessu viljað mótmæla þráteflinu í kringum formennsku Bergþórs.

„Þarna var Bergþór, sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar, að ræða samgönguáætlun og mér fannst einhvern veginn ólíðandi að hann fengi að stíga þarna á stokk án þess að nokkur segði að þeim þætti það athugavert. Á sama tíma mátti ég ekkert tjá mig um málið því þess var óskað að trúnaði yrði haldið á meðan viðræður milli þingflokksformanna stóðu yfir. En mér fannst nauðsynlegt að sýna að okkur stæði ekki á sama, að þetta væri ekki í lagi.“

Sérðu eftir þessu?

„Ég sé ekki eftir þessu en ég held að ef ég hefði haft meiri tíma til að hugsa þetta þá hefði ég mögulega ekki þorað að gera þetta.“ Engu að síður segist Þórhildur Sunna skilja að fólki hafi sárnað þessi framkoma en þetta hafi verið gert undir ákveðnum kringumstæðum.

Uppátæki Þórhildar og Björns Levís Gunnarssonar, þegar þau settu upp „Fokk ofbeldi“-húfu í þingsal á meðan Bergþór Ólason flutti ræðu í þingsal, hlaut afar blendin viðbrögð.

„Við stóðum þarna í tvær sekúndur með þessar húfur til þess að sýna okkar skoðun á því að hann sæti þarna áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar og, að því að ég best veit, trufluðum hans ræðu nákvæmlega ekki neitt. Rétt á undan voru umræður um samgönguáætlun og hver einasta kona í stjórnarandstöðu fékk ekki að klára eina setningu í andsvörum við stjórnarþingmenn vegna ítrekaðra og mjög dónalegra framíkalla frá stjórnarmeirihlutanum. Að því er virtist skipulagt. Það var hluti af þessu líka. Mér misbauð þessi framkoma.“

Við stóðum þarna í tvær sekúndur með þessar húfur til þess að sýna okkar skoðun á því að hann sæti þarna áfram sem formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Gagnrýnin í kjölfar þessarar uppákomu var á köflum æði persónuleg og gerðu nafnkunnir menn sér far um að gera athugasemdir við líkamsvöxt Þórhildar Sunnu.

„Það voru einhverjir sem fóru út í að gera athugasemdir við hvernig ég liti út og sögðu að þarna væri lítil húfa á stórum skrokki. Mér finnst þetta vera talsmáti og árásir sem vitsmunalega gjaldþrota fólk notar til þess að ráðast á fólk sem það á ekkert í hugmyndafræðilega. Ef þú hefur ekkert betra að segja um mig og mína pólitík en að setja út á hvernig ég lít út, þá er kannski ekkert sérstaklega mikið varið í þinar skoðanir.“ Aðspurð hvort hún taki slíkar athugasemdir nærri sér svarar hún: „Já, það er ekkert voðalega þægilegt að útlitið á manni sé á milli tannanna á fólki. Ég held að engum finnist það þægilegt. En á sama tíma er það töluverð huggun harmi gegn að þetta eru vopn þeirra sem hafa ekki neitt merkilegt fram að færa.“

Beita kerfisbundinni þöggunartaktík

Þau tvö og hálft ár sem Þórhildur Sunna hefur setið á þingi segist hún hafa greint ákveðið mynstur í því hvernig óþægileg mál eru tækluð í umræðunni. „Ég sé þetta endurtekið og kalla þetta þöggunartaktík. Þá er byrjað að gera lítið úr málinu og segja að þetta sé ekkert til þess að tala um. Þetta snýst um að smætta málið og gera það sem minnst. Þegar það dugar ekki er oft gripið til næsta ráðs sem er að skjóta sendiboðann. Það er að ráðast á þá sem benda á vandamálið, gera þeirra hlut sem minnstan og gera lítið úr þeirra persónu og hvötum.

Síðasta trikkið í þessari hringrás er svo sögufalsanir og eftiráskýringar þar sem annaðhvort er farið út með hreinar lygar eða eftiráhagræðingu á sannleikanum.

Þegar það slær ekki á umræðuna er fundinn einhver annar sökudólgur eða blóraböggull, sem er mjög klassískt trikk í þessari bók. Því næst eru allir gerðir samsekir og sagt að þetta sé öllum að kenna og þess vegna er þetta ekki neinum að kenna. Síðasta trikkið í þessari hringrás er svo sögufalsanir og eftiráskýringar þar sem annaðhvort er farið út með hreinar lygar eða eftiráhagræðingu á sannleikanum.“

Þórhildur Sunna nefnir bæði „uppreist æru“-málið og Klaustursmálið í þessu samhengi. Í því síðarnefnda hafi þeir sem þar komu við sögu reynt að gera sem minnst úr málinu og talað um að þetta væri einungis fyllirísröfl á bar. Svo var farið í að skjóta sendiboðann sem í þessu tilviki var Bára Halldórsdóttir sem tók samtalið upp á barnum. Næsti sökudólgur var fundinn í Steingrími J. Sigfússyni þingforseta áður en Klaustursmenn gerðu alla samseka með því að segja að svona orðræða væri viðtekin venja á þingi. Loks hafi þeir komið fram með ýmiss konar mistrúverðugar eftiráskýringar eftir því sem málinu hefur undið fram.

„Það sama gerðist í „uppreist æru“-málinu. Til dæmis steig Brynjar Níelsson fram og sagði að það væru til verri brot gegn börnum en þau sem Robert Downey framdi gegn Nínu Rún, Höllu, Glódísi Töru og Önnu Katrínu – eða þegar Bjarni sagði eftir fall ríkisstjórnarinnar að hugur þeirra hafi alltaf verið með þolendum.“

Þórhildur Sunna þakkar MeToo-umræðunni að erfiðara er að beita þessari taktík en áður.

„Það er erfiðara fyrir meðvirknina að ná tökum á fólki og það er erfiðara fyrir þessa þöggunartaktík að virka á mál. Það er auðveldara að koma málum á dagskrá og það er erfiðara að taka þau af dagskrá með þessari taktík sem stjórnmálamenn og aðrir hafa notað til að koma sér undan óþægilegum málum. Hún virkar síður en hún gerði fyrir tíma MeToo. Athyglin var alltaf á þeim sem var brotið á frekar en þeim sem braut á þeim. Þetta virkar síður núna. Dagskrárvaldið er ekki lengur í höndunum á þeim sem frömdu brotið heldur geta þolendur líka haldið dagskránni á lofti. Meðvirknin með brotamönnum fer þverrandi þótt hún geti enn verið of rík í sumum tilfellum.“

Tókum illa á fyrsta alvörumálinu

Þegar MeToo-byltingin hófst var Alþingi fljótt að bregðast við og efndu þingmenn til svokallaðrar rakararáðstefnu og var útkoman meðal annars sú að breyta siðareglum þingsins á þann hátt að óviðeigandi hegðun verði ekki liðin. Var Alþingi í fararbroddi þjóðþinga þegar kom að viðbrögðunum við MeToo. Þórhildur Sunna, sem situr í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins og er formaður laga- og mannréttindanefndar þess, hefur tekið málið upp á þeim vettvangi.

Mér finnst samt dapurlegt að þurfa að færa þær fregnir líka að við höfum tekið mjög illa á fyrsta alvörumálinu sem upp kom í kjölfarið.

„Það er stutt síðan Alþjóðaþingmannasambandið í samstarfi við Evrópuráðsþingið, gaf út mjög svarta skýrslu um áreitni í garð þingkvenna og starfsmanna í þjóðþingum þessara stofnana og mér finnst mikilvægt að við bregðumst hratt og örugglega við því alþjóðlega og kerfisbundna ofbeldi sem birtist í þeirri skýrslu. Ég lagði fram tillögu sem fjöldinn allur af þingmönnum Evrópuráðsþingsins hefur undirritað. Tillagan felur í sér að samin verði skýrsla sem fer yfir þróun MeToo-hreyfingarinnar í pólitík og leggi til breytingar á siðareglum Evrópuráðsþingsins.“

Þórhildur Sunna er framsögumaður skýrslunnar sem tekin var fyrir í jafnréttisnefnd Evrópuráðsþingsins í gær, en skýrslan sjálf verður svo á dagskrá þingsins 9. apríl. „Ísland mun koma þar við sögu enda vorum við fyrsta þjóðþingið til þess að bregðast við MeToo með rakararáðstefnu innan þings. Mér finnst samt dapurlegt að þurfa að færa þær fregnir líka að við höfum tekið mjög illa á fyrsta alvörumálinu sem upp kom í kjölfarið, og að enn sjái ekki til lands í Klausturmálinu.“

Sinnuleysi gagnvart hinum verst settu

Annað mál sem Þórhildur Sunna berst fyrir lýtur að heildarendurskoðun lögræðislaga og hefur þingsályktunartillaga þess efnis verið lögð fram. Gömlu lögin eru, að hennar mati, barn síns tíma. Þau feli í sér mjög ríka forræðishyggju gagnvart borgurunum, einkum og sér í lagi þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Í skjóli þeirra laga hafi ríkisvaldið tæki til að fara fram með offorsi gegn þessum hópum.

„Ef við horfum á fólk sem á við geðsjúkdóma að stríða, þá er allt regluverk í kringum réttindi þess mjög veikt og völdin sem yfirvöld og læknar hafa yfir lífi þess eru gríðarlega mikil. Varnir fólksins við því að vera beitt órétti, offorsi, þvingaðri meðferð eða jafnvel frelsissviptingu eru gríðarlega takmarkaðar og standast engar mannréttindakröfur, standast ekki alþjóðlegar skuldbindingar Íslands og við erum langt á eftir öllum löndum sem við viljum gjarnan bera okkur saman við þegar kemur að mannréttindum.“

Þannig séu réttarheimildir til að frelsissvipta fólk mjög rúmar. „Það er nóg að læknir telji að þú sért með alvarlegan geðsjúkdóm til þess að geta svipt þig frelsi. Réttarstaða fólks við að missa frelsið, vera jafnvel sprautað niður með geðbreytandi efnum, er gríðarlega veik. Þetta á líka við fólk sem á við alvarlegan áfengis- og fíkniefnavanda að stríða. Ég held að þetta komi til af því að við teljum okkur búa í þetta litlu samfélagi að það séu bara allir að passa upp á alla en átti sig ekki á því að þeim mun smærra sem samfélagið er, þeim mun mikilvægara er að það gildi skýrar og strangar reglur um allar skerðingar á réttindum fólks, sérstaklega því sem stendur höllum fæti í samfélaginu.

Réttarstaða fólks við að missa frelsið, vera jafnvel sprautað niður með geðbreytandi efnum, er gríðarlega veik.

Vegna þess að hættan á því að einhver kunningsskapur ráði för er svo rík í svona samfélagi.“ Kerfisbundnir fordómar hafa einnig áhrif þar á. „Mér hefur fundist vera ákveðið sinnuleysi, fjárskortur og pólitísk forgangsröðun sem veldur því að minnihlutahópar, hvort sem það er fatlað fólk, geðsjúkir, fangar eða vímuefnaneytendur, hafa fengið að vera aftast í röðinni þegar kemur að verndun réttinda.“

Dystópísk og ógeðsleg hugmynd

Annað mál er lýtur að réttindum borgaranna gagnvart ríkisvaldinu, í þessu tilfelli kvenna, er til meðferðar hjá þinginu og lýtur að fóstureyðingum, eða þungunarrofi eins og það verður kallað framvegis nái frumvarpið í gegn að ganga. Það mál er umdeilt, einkum ákvæði um að konur munu hafa fullan rétt til að taka ákvörðun um þungunarrof fram að 22. viku. Sjálf er Þórhildur Sunna fylgjandi frumvarpinu.

„Það eina sem þessi nýju lög breyta er að ákvörðunarvaldið færist úr höndum ríkisins í hendur konunnar. Þessi tímafrestur er nú þegar til staðar en til þess að fá hann í gegn þarf að fara fyrir undanþágunefnd á vegum ríkisins. 22. viku í ákveðnum undantekningartilfellum. Það sem er verið að gera með þessari nýju löggjöf er að konum er treyst til að taka þessa ákvörðun og að þær þurfi ekki samþykki einhverrar nefndar, lækna, ríkisstarfsmanna eða embættismanna fyrir þeirri ákvörðun.“

Það sem er verið að gera með þessari nýju löggjöf er að konum er treyst til að taka þessa ákvörðun.

Uppákoma varð á þingi í umræðu um málið á dögunum þegar Þorsteinn Sæmundsson, þingmaður Miðflokksins, spurði Þórhildi Sunnu hvort hún hefði persónulega reynslu af þungunarrofi. Því tók Þórhildur Sunna illa og baðst Þorsteinn síðar afsökunar á ummælum sínum. Þórhildur Sunna segir Miðflokkinn nota „ljóta taktík“ í nálgun sinni á þetta mál og nefnir sérstaklega frumvarp sem þingmenn flokksins hafa lagt fram og felur í sér að mæður sem gefa börn sín til ættleiðingar fái fæðingarstyrk í sex mánuði eftir fæðingu barns.

„Þetta finnst mér alveg gríðarlega dystópísk og ógeðsleg hugmynd. Þetta lyktar af því að konur séu útungunarvélar sem fái greitt fyrir að ganga með börn sem fólk vill ættleiða. Þetta angar af kvenfyrirlitningu og fordómum og vantrausti í garð kvenna. Ef þeim er svo annt um að draga úr ótímabærum þungunum ættu þessir þingmenn að vera miklu duglegri að hvetja til smokkanotkunar. Það eru einmitt karlmenn sem best eru til þess fallnir að koma í veg fyrir slíkar þunganir.“

Laug að hágrátandi barninu

Það lífsviðhorf að vilja vernda borgarana frá ofríki kerfisins mótaðist snemma hjá Þórhildi Sunnu enda fékk hún sjálf að finna fyrir því á skólagöngu sinni. Hún náði ekki að fóta sig í grunnskóla eftir að fjölskylda hennar fluttist til landsins frá Þýskalandi og segist hún hafa upplifað höfnun frá samnemendum sínum. Í fyrstu var hún skilin út undan en þegar hún fluttist í Mosfellsbæ varð hún fyrir grimmu einelti.

„Það var frekar brútalt og ég endaði á því að flýja því þetta var ekki hægt lengur. Ég veit ekki hvort það sé rétt upplifun en mér leið þá eins og allur skólinn hataði mig og léti mér líða þannig“. Endaði Þórhildur Sunna með að fara í Laugalækjarskóla þar sem hún féll vel inn í hópinn. En það var ekki auðsótt mál.

Það var frekar brútalt og ég endaði á því að flýja því þetta var ekki hægt lengur.

„Það sem situr hvað mest í mér enn þá er að reglulega fór ég inn á skrifstofu aðstoðarskólastjórans á þessum tíma og grátbað hana um að fá að skipta um skóla. Þessi kona sagði mér endurtekið að það væri ekki hægt, það væri allt of dýrt, vissi ég hvað það þyrfti að borga með mér ef ég færi í annan skóla, þetta væri bara ómögulegt og ég þyrfti bara að herða mig. Þessu laug hún að mér, hágrátandi barninu. Svo þegar ég loksins trúði foreldrum mínum fyrir því hvað mér leið ömurlega í skólanum þá fóru þau formlega fram á að ég skipti um skóla og það var ekkert mál. Það var ekki einhver peningalegur ómöguleiki eins og aðstoðarskólastjórinn hafði endurtekið logið að mér. Það var það ljótasta í þessu öllu saman.“

Það var á þessum tíma sem Þórhildur Sunna ákvað að leggja fyrir sig mannréttindalögfræði. „Ég ætlaði alltaf að verða leikkona en þessi höfnun hjá jafnöldrum mínum dró mikið úr mér máttinn. Ég las mikið þegar ég var ein í skólanum og las gríðarlega mikið af sjálfævisögum kvenna frá Miðausturlöndum sem höfðu lent í alls konar ofbeldi fyrir það eitt að vera konur. Þetta ræktaði með mér ákveðið þakklæti fyrir að vera þó sú manneskja sem ég var, að vera kona á Íslandi og geta farið í skóla og geta valið að giftast eða ekki. Ég afréð það að ég myndi fara í að hjálpa þessum konum í Miðausturlöndum. Svo reyndar þroskaðist það af mér og ég áttaði mig á því að þær væru alveg fullfærar um að berjast fyrir sínum réttindum sjálfar. En þessi áhugi á mannréttindum kviknaði í kringum þetta.“

Freistar að sitja í ríkisstjórn

Þórhildur Sunna lét drauminn rætast og hélt út eftir framhaldsskóla til að læra mannréttindalögfræði, fyrst í Þýskalandi og síðan í Hollandi. Hún fór í starfsnám hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag og stóð hugur hennar til að starfa áfram á þeim vettvangi. Í það minnsta var planið aldrei að fara á þing.

„Ég var eiginlega bara sótt,“ segir hún, en félagi hennar í Pírötum, Smári McCarthy, hafði rekið augun í greinar hennar um lögfræðileg álitaefni tengd mannréttindum og borgararéttindum. „Við enduðum á því að hittast og hann vildi meina að mínar hugmyndir ættu góða samleið með Pírötum og hvatti mig til þess að ganga í Pírata, beita mér þar og bjóða mig fram. Ég hafði fylgst með þeim úr fjarlægð og litist vel á það sem þau voru að gera en mér fannst pólitík á Íslandi ekkert mjög freistandi starfsvettvangur. Ég tók mér góðan umhugsunarfrest, ákvað að slá til og gekk í Pírata 2015. Ári síðar var ég komin á þing.“

„Ég var eiginlega bara sótt,“ segir Þórhildur Sunna um tildrög þess að hún fór í framboð fyrir Pírata. Fram að því að hafði hugur hennar stefnt á að vinna að mannréttindamálum á erlendri grundu.

Þórhildur Sunna segist una sér ágætlega í stjórnarandstöðu en viðurkennir þó að það freisti að taka sæti í ríkisstjórn. „Sem stjórnarandstöðuþingmaður get ég vissulega haft mikil og góð áhrif, en getan til þess að breyta hlutunum eftir sinni eigin pólitísku sýn er mjög takmörkuð ef maður kemst ekki í ríkisstjórn. Vissulega hlýtur það að vera takmark að komast í ríkisstjórn og þá með flokkum sem deila svipaðri sýn á stjórnmálin og á samfélagið. Öðruvísi held ég að það sé til lítils unnið. Ég væri alveg til í að komast í ríkisstjórn á einhverjum tímapunkti en ekki af því bara heldur með því markmiði að bæta réttarríkið á Íslandi, auka aðgengi fólks á ákvarðanatöku og auka réttlæti, eins og ég sé það fyrir mér, í samfélaginu.“

Þar vegur þyngst, að mati Þórhildar Sunnu, að allir séu jafnir fyrir lögunum. Eins og staðan sé í dag beiti ríkisvaldið sér af óhófi gagnvart þeim sem eiga erfitt uppdráttar á meðan það hygli þeim sem eru í forréttindastöðu.

„Það er mjög mismunandi hvernig það er komið fram við þig ef þú ert Jón eða séra Jón. Ef þú tilheyrir ákveðinni stétt eða hefur ákveðin ítök, þá færðu allt annað viðmót frá kerfinu en ef þú gerir það ekki. Ég veit til dæmis ekki til þess að það sé verið að rannsaka á nokkurn hátt þennan sendiherrakapal sem Gunnar Bragi og þeir lögðu upp með á Klaustri en á sama tíma er Persónuvernd að rannsaka Báru Halldórsdóttur fyrir að hafa tekið upp opinberar persónur á bar. Það er heldur ekki verið að rannsaka skattamál Bjarna Benediktssonar eða akstursferðir Ásmundar Friðrikssonar og ég fæ ekki séð að það verði nokkurn tíma gert. Það held ég að hafi mikið með þeirra stöðu að gera.

Ef þú tilheyrir ákveðinni stétt eða hefur ákveðin ítök, þá færðu allt annað viðmót frá kerfinu en ef þú gerir það ekki.

Ég er ekki að segja að þeir hafi framið nokkurn glæp en mér finnst augljóst að það sé ástæða til rannsóknar miðað við gögnin sem við höfum fyrir framan okkur. En svo horfum við á fólk, þá sem eru bótaþegar eða fá pening frá ríkinu af einum eða öðrum ástæðum, og það er jafnvel farið í herferðir út af bótasvindli og skrifaðar heilar skýrslur sem eftir á að hyggja reyndust byggja á vafasömum grunni. Ríkisvaldinu er beitt óspart og jafnvel úr hófi gagnvart þeim sem eiga erfitt með að verja sig.“

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Yves Saint Laurent á Ísland

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -