• Orðrómur

„Ég er einhver mesti plöntumorðingi landsins“

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Viktoría Hermannsdóttir er 33 ára sjónvarpskona, alin upp í Breiðholti. Hún hefur lokið námi í mannfræði og hagnýtri menningarmiðlun. Við fengum hana til þess að svara nokkrum spurningum fyrir Hús og híbýli fyrr á þessu ári. Hún lýsir sér sem óþolinmóðri, hressri og vinnusamri og finnst fátt skemmtilegra en bækur, allskonar grúsk og að hitta skemmtilega vini.

Fylgistu vel með straumum og stefnum í hönnun? Nei. Ég spái mjög lítið í hönnun en meira bara hvað mér finnst vera flott. Mér finnst allt of mörg íslensk heimili vera eins, myndi vilja sjá meiri fjölbreytni í þessu.

Spáirðu í myndlist? Við skötuhjú erum nýlega farin að spá í myndlist. Við keyptum skemmtilegt verk eftir Kristínu Gunnlaugsdóttur um daginn, mér finnst hennar verk mjög falleg og svo er ég líka hrifin af Þráni Þórarinssyni og fleirum góðum. Við stefnum markvisst að því að safna fleiri fallegum myndum inn á heimilið. En það er eins með myndlistina og hönnunina, mér finnst maður verða að tengja einhvern veginn við verkin til þess að fíla þau.

- Auglýsing -

Lýstu stílnum heima hjá þér. Hann er bara svona alls konar. Hann hefur reyndar mótast lengi af þeim framkvæmdum sem hafa verið í gangi síðustu ár þannig það er mikið um verkfæratöskur og svona hluti sem eiga sér ekki sinn stað. En við reynum að hafa notalegt í kringum okkur og þetta er allt að koma.

Hvort heillar meira, gamaldags eða nýtískulegur stíll? Gamaldags stíll heillar mig meira, en samt í bland við nýtt. Fyrir nokkrum árum var heimili mitt eins og ég væri 83 ára og hefði aldrei skipt um innbú en núna er þetta meira í bland, nýtt og gamalt. Ég bý í 86 ára gömlu húsi og finnst mikilvægt að það sé ekki of nýtískulegur stíll í gangi heldur frekar að bera aðeins virðingu fyrir upprunanum. Svo líður mér líka betur í húsum þar sem eimir aðeins af því gamla, heimili með sál finnst mér meira heillandi.

Hvað keyptirðu síðast inn á heimilið? Blóm! Ég er alltaf að kaupa blóm, í þessu COVID-ástandi eyði ég svo óeðlilega miklum upphæðum í blóm á mánuði en þau bæta allt og kæta. Svo keypti ég líka jólaskraut frá Finnsdóttir til að gleðja í skammdeginu.

- Auglýsing -

Bestu kaup og verstu kaup? Sonos-hátalarnir og kaffivélin frá Sjöstrand eru bestu kaupin en verstu kaupin eru líklega allar pottaplönturnar sem ég gefst ekki upp á að kaupa þótt ég drepi þær allar alveg óvart. Ég er einhver mesti plöntumorðingi landsins.

Uppáhaldshlutur? Forstofuskápurinn sem pabbi minn smíðaði. Hann er algjör snilld (bæði skápurinn og pabbi). Það hverfur allt inn í hann.

Þú lýstir því einu sinni yfir að hæfileikar þínir lægju annars staðar en í matargerð, á það enn við? Já, það er alveg magnað hvað ég er léleg að elda. Ég var t.d að sjóða egg í morgun og tókst að klúðra því á ævintýralegan hátt. Fjögur af fimm eggjum brotnuðu og suðu á einhvern fáránlegan hátt þannig það var gult og hvítt gums út um allt í pottinum. Maðurinn minn hristi bara höfuðuð þegar hann sá þetta enda orðinn ýmsu vanur.

- Auglýsing -

Er verkaskipting á heimilinu? Já. Sóli minn eldar yfirleitt af því það er ekki vinsælt þegar ég elda en ég geng eiginlega alltaf frá öllu. Svo er svona allur gangur á hinum húsverkunum en við stefnum á að koma þessu í fastari og jafnari skorður með tíð og tíma. Og líka fara að kenna börnunum að taka meiri þátt.

Besta ákvörðun sem þú hefur tekið? Að vinna bara við það sem mér finnst skemmtilegt af því það skilar sér í betri hlutum.

Besti staður sem þú hefur búið á? Þar sem ég bý núna, í gamla Vesturbænum í Reykjavík. Það er æðislegt að búa hérna, stutt að ganga í bæinn og sagan allt í kring. Þetta er dálítið eins og að búa í litlu þorpi, góðir nágrannar og allt til alls í hverfinu.

Áttu þér leyndan draum? Ég væri til í að vinna í antíkbúð.

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -