• Orðrómur

Á í sérstöku ástarsambandi við bleika litinn

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Ragna Bjarnadóttir er fatahönnuður en segist vera „fljótandi“ á milli þess að vera hönnuður og listakona, það fari eftir þeim verkefnum sem hún vinnur að hverju sinni. Hún á í sérstöku ástarsambandi við bleikan lit, að eigin sögn, en það þarf ekki að koma neinum sem skoða verk Rögnu á óvart.

„Mér finnst ég alltaf fljótandi milli þess að vera hönnuður og listakona,“ segir Ragna þegar hún er spurð út í hvers konar listamaður hún er. „Hönnuður er eiginlega bara listamaður sem býr til list sem er hægt að nota á einhvern hátt, klæðast, sitja á, nota til að auðvelda sér lífið. Ég hef líka mjög gaman að einmitt þeim snertifleti, hönnun sem er kannski mjög ópraktísk eða hefur notkunareiginleika sem manni dettur ekki í hug þegar maður fyrst sér hlutinn.“

Þegar verk Rögnu eru skoðuð er augljóst að bleikir litatónar eru í uppáhaldi hjá henni. Hún segist eiga í sérstöku ástarsambandi við bleika litinn og reiknar ekki með því að fá leiða á honum.

- Auglýsing -

Bleiki liturinn er alltaf í aðalhlutverki í verkum Rögnu.

Mynd / Aðsend

„Ég er mjög litaglöð í allri minni hönnun en hef átt í sérstöku ástarsambandi við bleika litinn alveg síðan ég var í BA-náminu í Listaháskólanum. Þá hannaði ég útskriftarlínu þar sem kvenfyrirmyndin mín var sterk og sjálfstæð og á þeim tíma var bleiki liturinn einhvern veginn bara kvenlegur og mjúkur svo mér fannst gaman að nota hann með sterkum línum og formum og gera hann kaldari og máttugri. Svo þegar ég var að vinna mastersverkefnið mitt í listaháskólanum í Kaupmannahöfn fór ég alla leið og notaði eiginlega bara bleikan. Óteljandi tóna í mismunandi áferð til þess að rannsaka hversu fjölbreyttur liturinn er. Ég drekkti eiginlega flíkunum í sykursætu bleiku skýi en útkoman varð samt sterk og óvænt svo liturinn fór allan hringinn, fannst mér. Ég held að fyrst ég er ekki komin með leiða á litnum nú þegar eigi hann eftir að fylgja mér alla ævi.“

- Auglýsing -

Augun og hausinn stöðugt að vinna

Innblásturinn kemur út öllum áttum, að sögn Rögnu sem er búsett í Kaupmannahöfn og starfar þar sem hönnuður hjá 2NDDAY. „Ég er afar forvitin að eðlisfari og finnst mjög gaman að skoða fólk. Ég hjóla mikið í Kaupmannahöfn og er stöðugt að skoða og pæla í fötum sem fólk úti á götu klæðist og skoða allt sem ég sé í kringum mig, liti, form og áferðir. Augun og hausinn vinna stöðugt sama hvar ég er en svo er alls ekki þar með sagt að ég muni eftir því sem ég sé og skoða þegar ég hef tíma til að setjast niður og skissa. En þessar upplýsingar eru samt alltaf geymdar einhvers staðar í undirmeðvitundinni, held ég.“

„Ég hjóla mikið í Kaupmannahöfn og er stöðugt að skoða og pæla í fötum sem fólk úti á götu klæðist og skoða allt sem ég sé í kringum mig…“

Aðspurð hvaða listamanna hún líti helst upp til segir Ragna erfitt að svara þeirri spurningu. „Ég er búin að læra það að af því að ég er svo forvitin og af því ég vinn í tísku sem er svo síbreytileg og fjölbreytt þá gengur ekkert hjá mér að finna mér uppáhald, því bæði á mér sjálfri eftir að finnast eitthvað allt annað eftir nokkra mánuði en líka af því að á þeim tíma verður viðkomandi listamaður eða hönnuður kannski að gera líka eitthvað allt annað en það sem ég dáðist að á sínum tíma. En almennt dáist ég að fólki sem stendur fast með sínum stíl, er með einhvern rauðan þráð í gegnum öll sín verk og sem sýnir einlægni og fegurð. Ef mér væri stillt upp við vegg mundi ég setja Dries van Noten, Louise Bourgeois og Tara Donovan í þennan flokk.“

- Auglýsing -

Mynd / Karina Waliczek – @waaliczek

Á erfitt með að fylgja uppskriftum og hrífst af óvissu

Ragna segist vera hrifin af óvissu og þeirri útkomu sem verður til þegar vinnuferlið er flæðandi en ekki niðurneglt.

„Í mínum eigin verkum er ég mjög hrifin af því að vinna með óvissu og að vera ekki búin að ákveða of mikið fyrir fram. Leyfa hugmyndunum að koma jafnóðum og vera ekki hrædd við að gera tilraunir og taka skyndiákvarðanir. Mér finnst mjög gaman að vinna með það sem er til staðar hverju sinni og finna út hvernig ég get nýtt það sem er beint fyrir framan mig. Þegar ég sauma út er ég til  dæmis aldrei búin að ákveða hvernig lokaútkoman á eftir að líta út. Ég ákveð kannski litina mestmegnis en svo koma formin bara að sjálfu sér jafnóðum. Ég á til dæmis mjög erfitt með að fara eftir útsaums- eða prjónauppskriftum því ég þarf alltaf að vera að breyta til, breyta litum, sniðum og smáatriðum. Taka skyndiákvarðanir sem stundum ganga upp og stundum alls ekki en ég get ekki komist hjá því einhvern veginn,“ segir Ragna.

Mynd / Aðsend

„…veit að ég get ekki bara verið inni í minni eigin sápukúlu að dóla mér.“

Hún segist hafa komist að því að galdurinn sé að gefa sér góðan tíma í verkin. „Hönnunarferli tekur svo mikinn tíma og bestu hugmyndirnar og samsetningarnar koma þegar maður gefur sér tíma til að láta hugmyndirnar malla og gerjast. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa ákveðið að fara í mastersnám því þar hafði ég tvö ár til þess að malla í hausnum á sjálfri mér og komast að því hver minn hönnunarstíll er og hvernig ég vinn best. En svo er ég líka mjög raunsæ og praktísk og veit að ég get ekki bara verið inni í minni eigin sápukúlu að dóla mér og skapa út í loftið svo ég hef alltaf lagt mikið upp úr því að læra allt praktískt og tæknilegt sem viðkemur mínu fagi því einhvern veginn verður maður að lifa af þessu. Þó að ég sé í 100% vinnu sem fatahönnuður núna þá er sjálft sköpunarferlið kannski 10% af allri vinnunni. Allt annað er tæknilegt, framleiðsluteikningar, praktískar ákvarðanir og skriffinnska og ég hef lært að hafa gaman að þeirri vinnu líka,“ útskýrir Ragna.

Mynd / Karina Waliczek – @waaliczek

Áhugasamir geta skoðað verk Rögnu nánar á Instagram-síðu hennar. 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Dáleiðandi verk úr teipi og krulluböndum

Nú stendur yfir sýning á verkum myndlistarmannsins Ásgeirs Skúlasonar í sýningarrými Norr11 undir yfirskriftinni Athugið, athugið.Á sýningunni eru ofin...

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -