2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Bergþóra í Farmers Market: „Ég tek andköf í hvert skipti sem ég horfi á Dómkirkjuna í Flórens“

  Bergþóra Guðnadóttir textílhönnuður, eða Bebba eins og hún er oft kölluð, er mikill fagurkeri enda hefur hún hannað verulega smart flíkur undir merki Farmers Market sem margir landsmenn hafa klæðst í gegnum tíðina. Við fengum hana til að svar nokkrum laufléttum spurningum í Húsum og híbýlum á árinu 2019 og hér birtum við hluta af svörunum. 

  1. Hver er Bergþóra Guðnadóttir?
  Ég er menntaður textílhönnuður, tveggja barna móðir sem rek hönnunarfyrirtækið Farmers Market og tvær verslanir í Reykjavík.

  2. Hvaða hlut langar þig mest að eignast um þessar mundir?
  Vöðlur eru núna efstar á óskalistanum mínum eftir mína fyrstu veiðiferð síðastliðið haust.

  3. Hvaða bók eða bækur hafa hreyft við þér?
  Ég les töluvert mikið og á marga uppáhaldshöfunda þar sem Bragi Ólafs er framarlega í flokki og svo fannst mér Rökkurbýsnir eftir Sjón hrikalega flott og þyrfti eiginlega að fara að lesa hana aftur.

  AUGLÝSING


  4. Fallegasta bygging erlendis?
  Ég tek andköf í hvert skipti sem ég horfi á Dómkirkjuna í Flórens.

  5. En á Íslandi?
  Kjarvalsstaðir eru í miklu uppáhaldi.

  6. Hver er þinn uppáhaldshönnuður?
  Ég á ekki beint neinn uppáhaldshönnuð en ber mikla virðingu fyrir þeim hönnuðum sem þrauka lengi í þessum bransa eins og t.d. Dries Van Noten, Ralph Lauren og Karl Lagerfeld heitinn sem þraukaði bókstaflega fram á síðasta dag.

  7. Skiptir útlitið máli?
  Já, ef innrætið er í lagi.

  8. En uppáhaldsflík?
  Sú sem ég er að vinna að hverju sinni.

  9. Ertu með eitthvert lífsmottó?
  Í mínu tiltölulega flókna lífi er ég að reyna að temja mér að boxa inn verkefnin sem ég er að takast á við hverju sinni því mér hættir til að hugsa um allt í einu og þá geta manni fallist hendur.

  10. Hvaða borg myndirðu velja til að fara í rómantíska helgarferð með manninum þínum?
  Vinnan okkar er þannig að við þurfum reglulega að ferðast til yndislegra borga eins og Parísar, Flórens og Kaupmannahafnar. En ég verð að segja að mér finnst Reykjavík orðin svo skemmtileg að ég á bara yfirleitt mjög skemmtilegar helgar með manninum mínum hér heima.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is