• Orðrómur

Dásamlegir litir og djúpir tónar hjá fagurkera í miðbænum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Einn vindasaman dag í desember lá leið blaðamanns og ljósmyndara í háreist hús á Mýrargötunni en þar býr hún Guðrún Vaka lögfræðingur. Íbúðin er vel skipulögð með opnu eldhús- og stofurými og sérsvefnherbergisálmu sem gefur henni gott flæði. Gólfsíðir gluggar og fallegt útsýni setja síðan punktinn yfir i-ið en íbúðin er um 130 fermetrar að stærð.

Öldurnar bærðust á hafi úti í takt við veðrið þann daginn en inni yljuðum við okkur við kaffi og kertaljós. Guðrún heillast af einstökum hlutum og húsgögnum og eru skemmtilegir litir í bland við djúpa og dökka tóna áberandi í íbúðinni.

Myndirnar tók Aldís Pálsdóttir.

Blandar saman ólíkri hönnun

- Auglýsing -

Húsið var byggt árið 2014 og skipar 69 íbúðir. Horft er yfir Grandann úr stofuglugganum og einnig er afbragðssjávarútsýni úr íbúðinni.

Hvað ætli hafi heillað Guðrúnu við hverfið? „Mér finnst frábært að hafa góða veitingastaði og búðir allt um kring en það besta er kannski hvað það er stutt í vinnuna.“

Mammoth-stóllinn í stofunni er í miklu uppáhaldi hjá Guðrúnu.

- Auglýsing -

Guðrún flutti inn fyrir um þremur og hálfu ári síðan og hefur komið sér vel fyrir þar sem hlutir og húsgögn úr öllum áttum mynda fallega heild í íbúðinni.

Að sögn Guðrúnar hefur hún gaman af því að blanda saman ólíkri hönnun og stílum: „Það er mjög breytilegt hvaða hönnun það er sem heillar mig en ég er orðin svolítið þreytt á því sem er of „hönnunarlegt“ ef svo má að orði komast. Ég viðurkenni að ég hugsa ekki mjög langt þegar ég kaupi mér húsgögn eða hluti og vel yfirleitt það sem mér finnst fallegt hverju sinni og vona það besta,“ segir hún og brosir, „en ég vil helst hafa hlýlegt í kringum mig og sækist eftir afslappaðri stemningu,“ bætir hún við.

Bláa veggspjaldið er eftirprent af málverki eftir Yves Klein frá 1960 af sýningu í Moderna-safninu í Stokkhólmi. Myndin til hægri er eftir Hilma af Klint og ber nafnið Tree of Knowledge.

- Auglýsing -

Falleg efni og áferð

Guðrún hefur alltaf verið skapandi og byrjaði ung að fikra sig áfram í að teikna og er listaáhuginn ekki langt undan. Spurð út í eftirlætislistamann segir hún það vera Ingibjörgu litlu systur sína sem er ljóð- og tónskáld og því greinilega mikil listhneigð í fjölskyldunni. Þegar hún er erlendis sækir hún mikið í söfn og hefur oftar en ekki gripið með sér veggspjöld af sýningum sem prýða veggi heimilisins.

Svarti veggurinn setur skemmtilegan svip á rýmið.

Hefur þú alltaf haft áhuga á því sem viðkemur heimilinu?​

„Ég byrjaði í rauninni ekki að hugsa neitt út í það fyrr en ég flutti að heiman en áhuginn fer samt ört vaxandi!“ Guðrún hefur gott auga og er ekki síður útsjónarsöm þegar kemur að hlutum og húsgögnum heimilisins.

Lumar þú á einhverjum sniðugum lausnum fyrir heimilið?

„​Ég hef gert mjög góð kaup á útsölum í mínum uppáhaldsverslunum hérna heima. Eins getur það verið góð lausn að gera upp eldri húsgögn en eldhússtólarnir hjá mér eru til dæmis gamlir stólar frá foreldrum mínum sem eru á sinni þriðju bólstrun. Núna síðast fengu þeir nýtt líf hjá GÁ húsgögnum sem fá mín meðmæli. Annars hefur IKEA vinninginn þegar kemur að ódýrum og einföldum lausnum að mínu mati.“

„… eldhússtólarnir hjá mér eru til dæmis gamlir stólar frá foreldrum mínum sem eru á sinni þriðju bólstrun. Núna síðast fengu þeir nýtt líf hjá GÁ húsgögnum …“

Guðrún segir bestu kaupin fyrir heimilið vera allt sem er vandað og hefur mikið notagildi. „Moccamaster-kaffivélin mín er í mestu uppáhaldi ásamt æðardúnssænginni og sófateppi úr íslenskri ull.“

Guðrún hellir upp á kaffi fyrir okkur og við höldum áfram að spjalla – hver þykja þér vera verstu kaupin fyrir heimilið? „Klárlega allt sem er einnota!“

Fallegan textíl, púða, plöntur og kertaljós er að finna víðast hvar um stofurýmið en Guðrún leggur mikið upp úr því að ná fram notalegri stemningu.

HH1812115047, Mýrargata 26, María Erla Kjartansdóttir, Aldís Pálsdóttir, Hús og Híbýli, innlit

„Ég á mjög erfitt með að standast falleg ilmkerti, rúmföt og handklæði og ég virðist alltaf geta fundið pláss fyrir það en svo langar mig mjög oft í nýja lampa og púða en læt það mun sjaldnar eftir mér.“

Guðrún er einnig mikið fyrir mottur; persneskar, litríkar og munstraðar enda gefa þær heimilinu afar hlýlegt yfirbragð. Bekkurinn í stofunni er úr versluninni Barr Living og er úr járni og endurunnu gúmmíi og setur hann skemmtilegan svip á rýmið. Eftirlætisverslanir fyrir heimilið segir Guðrún helst vera Heimili og hugmyndir og Norr11 en Mammoth-stóllinn í stofunni er í miklu uppáhaldi. „Þegar ég er í Stokkhólmi kíki ég svo í Svenskt Tenn en mér finnst textílvaran og mynstrin þar mjög flott og öðruvísi,“ bætir hún við.

Djúpir og dempaðir litatónar

Guðrún hrífst mikið af djúpum og dökkum litum og eru grænir tónar í miklu uppáhaldi þessa stundina. Guðrún var staðráðin í að hafa svartan vegg í stofunni og eftir fjórar umferðir og mikla nákvæmnisvinnu var hún orðin sátt með verkið en liturinn gefur mikla dýpt í rýmið og sómir sér vel innan um plöntur og aðra litríka muni, verk og hjól! Guðrún hjólar mikið á sumrin og eins og sjá má fær hjólið sinn stað í stofunni.

Hvað er það sem gerir hús að heimili að þínu mati? „Heimilið er þar sem flest er nákvæmlega eins og maður vill sjálfur hafa það.“ Það er mikið til í því.

Hvað dreymir þig um að eignast? ​„Undanfarið hef ég verið með augun opin fyrir flottum höfðagafli í svefnherbergið, svo væri ég líka alveg til í að eiga sumarbústað á Þingvöllum,“ segir hún að lokum.

Verkin á veggnum eru litaður papyrus úr Magnolia. Rúmteppið er frá HAY, ljósið og lampinn eru hvoru tveggja úr Heimili og hugmyndum.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -