„Ég tengist hlutunum mínum tilfinningaböndum“

Deila

- Auglýsing -

Í 58 fermetra íbúð miðsvæðis í Reykjavík hefur Hildur Erla ljósmyndari ásamt fjölskyldu sinni búið sér fallegt heimili. Stílnum á heimilinu lýsir Hildur sem bóhemískum þar sem brúnir náttúrutónar eru ríkjandi.

Nýting hluta
Er einhver skemmtileg saga á bak við einhverja hluti eða húsgögn á heimilinu? „Náttborðið sem afi minn smíðaði og ég málaði síðan hvítt þegar hann féll frá er okkur ótrúlega dýrmætt. Svo er það líka koffortið en ég hef einnig fengið fullt af eldhúshlutum frá afa mínum og ömmu sem mér þykir mjög vænt um.

Annars kaupi ég ótrúlega mikið í Góða hirðinum og á nytjamarkaðinum Von og bjargir, meðal annars bækur og ýmislegt sem er inni í eldhúsi ásamt fleiri hlutum.

Ótrúlega margir af basthlutunum hérna inni hafa komið úr Góða hirðinum og nytjamörkuðum sem eflaust hafa skemmtilega sögu og sál á bak við sig.“

Árstíðabundið heimili
Hvernig hönnun heillast þú af? „Tímalausri hönnun, það má segja að ég tengist hlutunum mínum tilfinningaböndum, ég fæ ekki leiða á hvítu, brúnu og svörtu. Svo finnst mér gaman að poppa það upp með fallegum hönnunarmunum.“

Hvað spáir þú í þegar þú innréttar og verslar fyrir heimilið? „Hvort það tóni allt vel saman aðallega, ég vil hafa sama „vibe“ í gangi inni á heimilinu. Ég var búin að sanka að mér hlutum og húsgögnum lengi, áður en við fluttum inn sem átti bara eftir að setja saman, í staðinn fyrir að kaupa allt á einu bretti. Ég mæli klárlega með því að safna hægt og rólega.“

Mynd / Heiðdís G. Gunnarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir