2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Einfaldleiki og hreinar línur

  Áhugaverðar staðreyndir um frumkvöðulinn og hamhleypuna Kaare Klint.

  Kaare Klint (1888-1954) var danskur arkitekt, húsgagnahönnuður og myndlistarmaður. Hann var brautryðjandi á sviði nútímahúsgagnahönnunar í Danmörku en áherslur hans í hönnuninni voru hreinar línur, gæðaefni og vandað handverk. En hann var frumkvöðull á sviði vinnuvistfræði og sökkti sér niður í hreyfingar og byggingu mannslíkamans sem hann nýtti í hönnun á húsgögnum og tækjum, sem sagt hannaði út frá líkamlegum þörfum og eiginleikum mannslíkamans. Hann lagði ríka áherslu á að hönnun sín væri hagnýt og þægileg en á sama tíma falleg með hreinar línur.

  1 Faðir Kaare Klint var arkitektinn Peder Vilhelm Jensen-Klint en hann á meðal annars heiðurinn af því að hafa hannað Grundtvig‘s-kirkjuna í Kaupmannahöfn sem er einstaklega falleg. Þegar P.V. Jensen Klint féll frá árið 1930 tók Kaare Klint yfir vinnuna hans við Grundtvig‘s-kirkjuna og kláraði það sem faðir hans hafði byrjað á sem tók u.þ.b. 10 ár en kirkjan var fullgerð árið 1940.

  2 Það var ekki bara faðir hans sem var í hönnunariðnaðinum heldur einnig bróðir hans, Tage Klint en hann stofnaði hið þekkta lampafyrirtæki, Le Klint árið 1943 sem framleiðir einstaklega falleg og vönduð ljós enn í dag. Greinilegt er að skapandi hæfileikar hafa gengið í erfðir því þrír synir Kaare Klints eru arkitektar.

  AUGLÝSING


  3 Meðal þekktustu hönnunarverka Klints eru þrír stólar sem eru enn framleiddir í dag. Faaborgstóllinn, Safari-stóllinn og Kirkjustóllinn en sá síðast nefndi var framleiddur fyrir Bethlehemkirkjuna í Kaupmannahöfn og var í fyrsta sinn sem lausir stólar voru notaðir í danskri kirkju í stað bekkja.

  4 Á árunum 1920 til 1926 vann Klint ásamt arkitektinum Ivar Bentsen að því að endurgera Hönnunarsafn Danmerkur (Design museum Danmark), en þar hafði áður verið hinn konunglegi Frederiks-spítali í afar fallegri rókokkóbyggingu, reistri á árunum 1752-1757. Klint sérhannaði öll húsgögnin en á meðan á þessari vinnu stóð bjó hann í safninu.

  5 Klint var kennari og lærifaðir margra frægra danskra arkitekta en hann byrjaði að vinna við húsagnahönnun í Listaháskólanum í Danmörku (Academy of Fine Arts) árið 1924 og varð prófessor og fyrirlesari í skólanum árið 1944.

  6 Kaare Klint hannaði nokkur ljós fyrir Le Klintljósafyrirtækið sem bróðir hans stofnaði og eru sum þeirra enn vinsæl í dag. Eitt fallegasta og áhugaverðasta ljósið sem Kaare Klint hannaði árið 1944, The Lantern model 101, er enn eitt mest selda ljós fyrirtækisins í dag.

  7 Húsgögn Kaare Klint hafa oft verið nefnt „the human furniture“ eða mannlegu húsgögnin en Klint stúderaði mannslíkamann í þaula og hannaði húsgögn sín út frá honum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is