Falleg hönnun heima hjá Steinunni Völu skartgripahönnuði

Deila

- Auglýsing -

Stílhrein form og tímalaus hönnun einkenna heimili Steinunnar Völu skartgripahönnuðar.

Steinunn segist helst heillast af náttúrulegum og endingargóðum efnum bæði þegar kemur að heimilinu og skartgripagerðinni.

Blaðamaður og ljósmyndari Húsa og híbýla kíktu í heimsókn til Steinunnar Völu, hönnuðar hjá Hring eftir hring, en nýlega gaf hún út  skartgripalínu sem ber nafnið „Guðrún“, eftir ömmu hennar heitinni. Steinunn segist helst heillast af náttúrulegum og endingargóðum efnum bæði þegar kemur að heimilinu og skartgripagerðinni.

Stílhrein form og tímalaus hönnun einkenna heimilið. Spurð út í stílinn segir Steinunn að hún og maðurinn hennar hafi reynt að safna að sér eigulegum hlutum smám saman í gegnum tíðina. „Þegar við kaupum okkur eitthvað hugsa ég alltaf hvort mér eigi eftir að þykja þetta fallegt þegar ég er orðin eldri. Ég er alin upp við þessa hugsun og hef alltaf fylgt þessu. Hér er mikið af gömlum hönnunarmublum og -hlutum sem við poppum upp með hlutum og húsgögnum frá nútímahönnuðum.“ Steinunn segir heimilið fyrst og fremst eiga að vera „funksjónal“ og sýna að þar búi fólk. „Ég ætti svolítið erfitt með að neyða mig til að vera innan um eitthvað sem væri til dæmis ekki alveg að „funkera“. Ég gef þá frekar aðeins eftir í stíliseringu og leyfi hlutunum að vera – mér finnst það líka fallegt og sjarmerandi.“

„Þegar við kaupum okkur eitthvað hugsa ég alltaf hvort mér eigi eftir að þykja þetta fallegt þegar ég er orðin eldri. Ég er alin upp við þessa hugsun og hef alltaf fylgt þessu.“

Steinunn segist fylgjast vel með íslenskri hönnun og er afar stolt af því að vera hluti af senunni. „Mér finnst íslenskir hönnuðir vera óhræddir og frjálsir í sinni hönnun. Þegar ég hef sýnt erlendis þá fæ ég oft að heyra að íslensk hönnun sé svo frumleg og ekta. Ég fylgist með skartgripahönnuðum, fatahönnun og innanhússhönnun svo þetta tvinnast að miklu leyti saman.”

Hægt er að sjá meira af smart heimili Steinunnar Völu í janúarblaði Húsa og híbýla en nýtt tölublað kemur út 1. febrúar næstkomandi.

Texti / María Erla Kjartansdóttir
Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

- Advertisement -

Athugasemdir