• Orðrómur

Fann hugarró í kringum plöntur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

„Ég hef þurft að takast á við kvíða og þunglyndi frá því að ég var barn og plöntuáhugamálið hefur verið ákveðin undankomuleið síðustu ár,“ segir Birgitta Saga Jónsdóttir, konan á bak við Instagram-síðuna Heimilisplöntur. Sú síða er helguð plöntum og plöntuumhirðu.

Aðspurð hvernig það kom til að hún opnaði þessa skemmtilegu síðu fyrir tæpu ári svarar Birgitta: „Ég var byrjuð að birta svo margar myndir af plöntunum mínum á minni persónulegu Instagram-síðu og vildi koma myndunum öllum saman á einn stað. Fyrst var ég ekki með neitt ákveðið markmið með síðunni. En þegar fylgjendurnir jukust fann ég enn meiri hvatningu til þess að birta fallegar myndir af plöntum með haldbærum og einföldum upplýsingum um umhirðu þeirra.“

Fallegar plöntur prýða hvern krók og kima heima hjá Birgittu.

- Auglýsing -

Birgitta hefur undanfarið orðið vör við að plöntuáhugi fólks er almennt að aukast. „Nýlega hef ég fundið fyrir auknum áhuga fólks og fæ fleiri spurningar í gegnum síðuna. Spurningarnar sem ég fæ tengjast oftast umhirðu plantna, hvaða plöntum ég mæli með fyrir þá sem eru ekki með græna fingur eða spurningar um hvar tilteknar plöntur og plöntutengdar vörur fást.“

Ekki alltaf mikið fyrir plöntur

Birgitta segist ekki alltaf hafa haft áhuga á plöntum en að hún hafi alist upp í kringum fólk sem hafði áhuga á garðrækt og plöntum. „Pabbi minn átti tæplega tuttugu ára gamlan kaktus sem strauk nánast loftið í íbúðinni okkar og amma mín átti fallegan garðskála fullan af ilmandi rósum. Samt sem áður skyldi ég aldrei hvað væri svona merkilegt við inniplöntur þegar ég var barn eða unglingur. Ég man þó eftir því að þegar ég var fengin til þess að vökva heimilisplönturnar sem barn var ég mjög skyldurækin og drekkti plöntunum rækilega,“ segir Birgitta.

- Auglýsing -

Birgitta Saga Jónsdóttir

Plöntuáhugi hennar kviknaði fyrir um tveimur árum. „Árið 2018 byrjaði ég að leita í að vera kringum plöntur, læra um þær og ferja þær sem flestar með mér heim. Ég fann ákveðna hugarró í blómabúðunum. Hegðunarmynstrið hjá mér varð á þann veg að ef ég var kvíðin leitaði ég í að skoða plöntur,“ segir Birgitta sem hefur glímt við kvíða og þunglyndi frá því að hún var barn. Hún segir plöntuáhugamálið hafa hjálpað sér í þeirri baráttu.

„Hegðunarmynstrið hjá mér varð á þann veg að ef ég var kvíðin leitaði ég í að skoða plöntur.“

„Það þýðir samt alls ekki að ég sæki einungis í plöntur þegar mér líður illa heldur geri ég það einnig þegar mér líður vel eða til þess að verðlauna mig fyrir námsárangur. Svo er ekkert skemmtilegra en nýtt lauf á vel hirtri plöntu og að skreyta heimilið með plöntum. Það hefur nefnilega alltaf haft mikil áhrif á mig, hvernig heimili mitt lítur út og ég eyði miklum tíma í að raða hlutum upp á nýtt. Í barnæsku endurraðaði ég húsgögnunum í herberginu mínu ítrekað og geri það enn í dag. Það sama á við um plönturnar mínar. Ég legg mikið upp úr því hvernig ég raða þeim og hvar ég hef þær. Þá auðvitað gæti ég samt alltaf að því að fullnægja birtuþörf þeirra þrátt fyrir óþarfa tilfærslur,“ útskýrir Birgitta.

- Auglýsing -

Væri til í að eiga fleiri plöntur

Spurð út í hvað hún eigi margar plöntur núna svarar Birgitta að þær séu í kringum 50 en hún væri til í að eiga fleiri. „Talan hefur haldist svo lág þar sem ég bý með kærastanum mínum í lítilli íbúð. Að auki er hann ekki jafnmikið fyrir plöntur og ég og setti meðal annars þá reglu að þegar ein planta kemur inn í íbúðina fer önnur út. Þeirri reglu hef ég aldrei fylgt,“ segir Birgitta.

Þessi planta er í miklu uppáhaldi hjá Birgittu.

Uppáhaldsplanta Birgittu hefur latneska heitið Monstera adansonii. „Sú planta er ekki allra þar sem á henni eru göt líkt og að barn með skæri hafi komist í hana. Mér finnst hún þó rosalega falleg og kraftmikil planta en hún er sérstaklega dugleg að gefa af sér ný blöð.“

En hvaða planta er á óskalistanum? „Ég dáist alltaf að plöntu sem ber nafnið Sjómannstryggð eða á latínu Aglaonema commutatum. Hún er með stór græn blöð með silfurgráu mynstri og er gífurlega falleg.“

Áhugasamir geta fylgst með plöntuumfjöllun Birgittu á Instagram-síðunni Heimilisplöntur.

Mynd / Unnur Magna

Mynd / Unnur Magna

Þessi einstaka planta er þykkböðungur og heitir á latínu Senecio haworthii.

Birgitta á um 50 plöntur en væri alveg til í fleiri.

Myndir / Unnur Magna

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -