Finnst fjölbreytileikinn skemmtilegastur við starfið

Deila

- Auglýsing -

Baltasar Breki Samper leikari og kvikmyndagerðamaður sat fyrir svörum í 4.tbl. Húsa og híbýla fyrr á þessu ári. Þessa stundina vinnur hann að mestu leyti sem kvikmyndatökumaður þótt hann taki að sér einstaka verkefni sem leikari. Fjölbreytileikinn sem fylgir því að starfa í kvikmyndageiranum heillar hann mjög og telur hann afar líklegt að hann eigi eftir að vera viðriðinn kvikmyndir með einum eða öðrum hætti það sem eftir er.

 

Hvaðan ertu?
Fæddur og uppalinn í Reykjavík, á ættir að rekja til Bolungarvíkur og suður til Barcelona-borgar.

Hvaða form listar er í uppáhaldi hjá þér?
Það er erfitt að segja. Augljósa svarið væri auðvitað kvikmyndalist en í rauninni er öll myndræn list (myndlist, ljósmyndun, kvikmyndun, leikhús) í uppáhaldi. En listformið sem hefur mestu líkamlegu áhrifin á mig er eiginlega tónlist. Hún nær einhvern veginn að rjúfa þennan ósýnilega hjúp sem við höfum öll og stingast inn í hjartað á manni.

Hvað er það skemmtilegasta við starfið þitt?
Ég held að fjölbreytileikinn sé mesti kosturinn við þá bæði leiklistina og kvikmyndatökuna. Maður er alltaf að takast á við ný og spennandi verkefni á ókunnum slóðum og hitta nýtt fólk með alls konar skoðanir.

Hvaða bók eða bækur hafa hreyft við þér?
Ég les ekki jafnmikið af bókum og ég vildi en síðasta bók sem hafði virkilega mikil áhrif á mig var „The Postmortal“ eftir Drew Magary. Hún fjallar um heim þar sem lækning við öldrun finnst, og fékk mig virkilega til að horfast í augu við minn eigin dauðleika.

Fallegasta bygging erlendis?
Fallegasta bygging sem ég hef komið í er líklega Chichu-listasafnið á eyjunni Naoshima í Japan. Hún er byggð ofan í jörðina og sést því varla að utan en þegar inn er komið sér maður að hún er öll hönnuð í kring um sýningarnar sem þar eru. Ótrúleg upplifun að koma þangað.

En á Íslandi?
Þetta er kannski algjör klisja en mér finnst Harpa alltaf vera hrikalega flott mannvirki. Ekki síst vegna þess hversu mikilvægu menningarlegu hlutverki hún gegnir.

Í hvaða rými í þínum húsakynnum líður þér best?
Ég er mikill sófakall og líður mjög vel í stofunni með góða ræmu í tækinu.

Hvernig eða hvar hleðurðu batteríin?
Ég spila gjarnan tölvuleiki til að dreifa huganum og gera eitthvað annað en að vinna en stundum fer ég líka út með hundinn minn og tek ljósmyndavélina með. Get alveg gleymt mér í því.

Uppáhaldsstaður á Íslandi?
Ég er mikil bæjarrotta og líður mjög vel í miðbænum en úti á landi hefur mér alltaf fundist Mývatn með fallegri stöðum á landinu.

Hver er þinn uppáhaldshönnuður?
Ég er nú ekki mikið að pæla í hönnuðum nema þegar ég sé eitthvað fallegt sem mig langar að vita meira um. Þessa stundina er það líklega arkitektinn Tado Ando sem hannaði safnið í Japan sem ég minntist á hér áðan.

Baltasar Breki Samper. Mynd: Hákon Davíð Björnsson
- Advertisement -

Athugasemdir