2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Álfrún Pálsdóttir hjá Hönnunarmistöð Íslands: „Reyni að vera meðvitaður neytandi og kynni mér framleiðsluferlið“

  Álfrún hefur lengi verið viðloðandi tísku- og hönnunarbransann og starfaði í nokkur ár sem ritstjóri Glamour. Nú hefur hún fært sig yfir í annan starfsvettang og starfar hjá Hönnunarmiðstöð Íslands. Við fengum Álfrúnu til þess að svara nokkrum spurningum sem tengjast heimilinu og hönnun.

   

  Hver er Álfrún? Gift, 36 ára, tveggja barna móðir í Vesturbænum og kynningarstjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands.

  Fyrsta hönnunarminning? Ég man vel eftir því þegar ég gekk inn í verslun í Kaupmannahöfn og þreifaði á flíkum frá hátískuhúsunum í fyrsta sinn. Auðvitað gekk ég tómhent út enda 18 ára að skúra yfir sumarið, en maður lifandi, efnin og sniðin sitja enn í minningunni.

  Eftirlætishönnuður? Þeir eru margir. Ég hef alltaf haldið mikið upp á skandinavíska hönnuði, hvort sem það kemur að húsgögnum eða fatnaði. Í seinni tíð hef ég tekið gæði fram yfir magn og reyni að kaupa fáa hluti en góða, óháð merki. Einnig reyni ég að vera meðvitaður neytandi og kynna mér framleiðsluferli og hugmyndafræði hönnuða. Eftir að ég hóf störf á nýjum stað hef ég líka kynnst heilum hellingi af frábærum íslenskum hönnuðum sem við erum alveg ótrúlega rík að eiga og ég hvet alla til að kynna sér verk þeirra.

  AUGLÝSING


  Bestu kaupin fyrir heimilið? Ætli það sé ekki bara PH-ljósið eftir Louis Poulsen sem við hjónin fengum í þrítugsafmælisgjöf frá tengdaforeldum mínum. Eitt best hannaða ljós fyrr og síðar. Svo fengum við mikið af fallegum hlutum í brúðargjöf fyrr á þessu ári sem fegrar heldur betur heimilið.

  En verstu? Soda Stream-tækið – sem er falið inni í skáp og þar af leiðandi ekkert notað – sökum ljótleika. Já, ég veit. Stundum eru hlutirnir bara svoleiðis.

  Hvað virðistu aldrei eiga nóg af þegar kemur að heimilinu? Kaffibollum. Sérstaklega um helgar, þeir eru alltaf búnir þegar heimilið er fullt af fólki. Og kökudiskum og göfflum. Nota það svo sjaldan að þegar ég þarf þá á ég of lítið.

  Málverk eftir hvaða listamann er efst á óskalistanum, ef peningar væru ekki fyrirstaða? Ég myndi vilja eiga verk eftir Georgiu O’Keeffe og Hilmu af Klint. Svo er og verður Piet Mondrian alltaf í uppáhaldi.

  Hvað trónir á toppi óskalistans fyrir heimilið? Við hjónin erum sammála um að Eggið, helst í koníaksbrúnu leðri, væri góð fjárfesting inn á heimilið.

  Fallegasta bygging á Íslandi? Bakkaflöt 1 eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt. Ásmundasafn er líka ofarlega á listanum.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum