2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Látlausar skreytingar fyrir jólin

  Íris Tanja, leikkona og flugfreyja, Valur Hrafn, deildarstjóri og forritari hjá Vodafone, og börnin þeirra, Aron Þór og Kolbrá Saga, búa í fallegri íbúð í Laugardalnum.  Stíllinn á heimilinu er mínimalískur og skreytingarnar í takt við það; ilmandi greinar og greni, ljós og fagurlega dekkað hátíðarborð.

  Íris Tanja, leikkona og flugfreyja,

  Íris segist leggja mikið upp úr notalegri stemningu á heimilinu og í því samhengi skiptir lýsingin hana miklu máli. „Ég er alltaf með tvær seríur uppi allan ársins hring en ég mjög hrifin af notalegri stemningu, ekki með neinum krúsídúllum heldur með lýsingu. Ég kveiki mikið á kertum og þá mörgum í einu. Valur segir stundum að hann sé í bráðri lífshættu hérna á heimilinu,“ segir hún og hlær.

  Íbúðin er rúmir 120 fermetrar að stærð með bílskúr og hafa Íris og Valur gert töluvert mikið fyrir hana, en hún er nær óþekkjanleg frá því að þau keyptu hana fyrir rúmum þremur árum. Hvað var það við hana sem heillaði? „Frönsku hurðirnar, fiskibeinaparketið og listarnir fönguðu okkur fyrst,“ segir hún. „Svo eru stórir gluggar hérna og við sáum svolítið möguleikana út frá því, en íbúðin var ekki í góðu standi. Við máluðum allt upp á nýtt og lökkuðum lista, tókum út næstum alla fataskápa og fínpússuðum allt. Eldhúsið var upphaflega hinum megin við vegginn en við sáum strax að við gætum fært það yfir og bætt við herbergi sem varð herbergið hans Arons.“

  Heldur upp á jólasveinana frá ömmu
  Stíllinn á heimilinu er nokkuð mínimalískur og stílhreinn þar sem falleg form og látlausir litir eru allsráðandi. Hvíti og græni liturinn eru áberandi sem gefur íbúðinni léttan en notalegan brag. „Ég heillast af því sem er klassískt og stenst tímans tönn,“ segir Íris. „Hér er því bæði að finna gamla hluti og nýja – hönnun í bland við ódýrari muni.“

  AUGLÝSING


  Spurð hvenær hún byrji að skreyta fyrir jólin, segir hún: „Ég byrja oftast að skreyta eftir afmælið mitt í nóvember en þá veit ég að jólin eru næst á dagskrá og byrja að bæta við seríum til að það birti meira. Ég er ekki fyrir of mikið skraut; styttur, jólakarla og þess háttar, og kaupi frekar eitthvað sem endist. Eina undantekningin er jólasveinalengjan sem var síðasta jólagjöfin sem amma gaf mér en hún dó nokkrum dögum síðar. Ég hengi hana alltaf upp 4. desember sem var afmælisdagurinn hennar og er örugglega eina „jólaskrautið“ sem ég nota alltaf. Amma átti sjálf svona og bað dóttur konunnar sem bjó til hennar lengju til þess að búa til eins fyrir mig rétt áður en hún lést. Mér þótti afar vænt um það en þetta er án efa dýrmætasta jólaskreytingin mín.“

  Íris segist annars leyfa sér að kaupa eitt og eitt jólaskraut á hverju ári en þá helst á útsölunum. „Ég á svona grunn sem eru seríur og svo skreyti ég mína hluti sem fyrir eru með greni, eins og kertastjaka og set greinar í vasa. Ég kaupi grenið frekar snemma og skipti út yfir aðventuna til að fá góðu grenilyktina inn. Ég vil hafa látlausar skreytingar og hafa þær frekar lengur uppi og lýsa upp skammdegið. Jólatréð er alltaf komið upp 20. desember sem er afmælisdagurinn hennar mömmu, en hún er mikið jólabarn og hefur alltaf verið. Síðan er ég yfirleitt búin að taka allt niður 2. janúar,“ segir hún, en Íris og mamma hennar gerðu allar skreytingarnar á heimilinu sjálfar.

  Myndir / Aldís Pálsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum