2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Lausnir í litlu rými – falleg smáatriði í Laugardalnum

  Í fallegu húsi í Laugardalnum býr Hildur Elísabet ásamt kærasta sínum Arnóri. Þrátt fyrir að rýmið sé ekki stórt í sniðum þá hefur Hildi tekist að innrétta það með fallegum hætti. Hún mælir með að fólk sé ekki feimið við að prófa sig áfram í lita- og húsgagnavali en mætti hafa það hugfast að gæta jafnvægis í minni rýmum.

  Hildur er í námi í arkitektúr og hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu því sem tengist heimili og hönnun. Hún eltist ekki við tískustrauma og fylgir fyrst og fremst sínu eigin innsæi.

  Rýmið er 41 fermetri að stærð og skiptist í sameiginlegt svefn- og stofurými og er rúmgott fataherbergi inn af því, auk baðherbergis. Áður var þetta rými sundlaug og baðherbergið notað sem gufubað. Að sögn Hildar byrjaði hún ung að spá í hönnun og því sem viðkemur heimilinu en hún hefur einstakt lag á smáatriðum heimilisins og er með góða rýmisgreind.

  „Það lá beinast við að ég færi í nám tengt þessu áhugamáli mínu. Ég hef alltaf verið mjög listræn og heillast af þessu. Ég var örugglega svona tíu ára þegar ég byrjaði að kaupa hluti inn í herbergið mitt. Þegar ég hlustaði á sögur eða las bækur þá ímyndaði ég mér alltaf hvernig grunnmyndin væri hjá persónunum og teiknaði hana upp, herbergi fyrir herbergi þannig að þetta hefur alltaf blundað í mér,“ bætir hún við.

  Dökkir litatónar heilla Hildi.

  AUGLÝSING


  Hildur er mikið fyrir dökka litatóna og hluti og segist blanda saman skandinavískum og amerískum stíl að einhverju leyti.

  „Ég vil ekki hafa of mikið hvítt eins og svo margar íbúðir eru hjá ungu fólki í dag. Svartur er þó í miklu uppáhaldi – við máluðum til dæmis gluggapósta svarta en það rammar svolítið inn rýmið og allar hurðar og innréttingar í húsinu eru svartar. Ég legg mikið upp úr því að hafa notalega stemningu á heimilinu en stíllinn er líklega fremur persónulegur og kósí, ég er ekki beint hrifin af þessum hreina skandinavíska og mínimalíska stíl.

  Svartur er þó í miklu uppáhaldi – við máluðum til dæmis gluggapósta svarta en það rammar svolítið inn rýmið og allar hurðar og innréttingar í húsinu eru svartar.

  Mér finnst gaman að blanda saman nýju og gömlu og þá kannski helst smáhlutum eins og frá ömmu, ekki endilega húsgögnum. Ég leyfi mér alveg að breyta og fer alltaf eftir því hvað mér finnst flott. Ef stíllinn minn mun koma til með að breytast mun ég algjörlega taka við því. Ég er aldrei að reyna að stoppa mig af og hugsa að þetta eða hitt sé ekki í tísku, ég leyfi tilfinningunum mínum og skoðunum alveg að ráða og ég mun alls ekki útiloka það að stíllinn minn muni eitthvað breytast síðar meir.“

  Lítil rými

  Sófaborðið er úr Módern.

  Hvað hafðir þú í huga þegar þú innréttaðir þetta rými?

  „Það var áskorun, mig langaði að hafa smástofu en á sama tíma er þetta ekki stórt. Ég þurfti að koma rúminu okkar fyrir en ég er rosalega symmetrísk í hugsun og vildi því hafa eins náttborð og lampa báðum megin. Ég vildi ekki hafa of mikið af hlutum, en samt sem áður vil ég nostra við þetta og hafa einstaka og þýðingarmikla hluti, raða fallega og ramma inn rýmið án þess að troða of miklu. Ég keypti eins stóran sófa og ég komst upp með, passaði upp á að hillur og einingar væru ekki of djúpar en samt eru náttborðin til dæmis nokkuð massíf.

  Lamparnir á náttborðunum eru úr ILVA.

  Það þarf að vera mikið jafnvægi í svona litlu rými. Mér finnst mikilvægt að vera með mublur sem manni þykir fallegar þó að þær séu kannski svolítið voldugar inn í rýmið, mér finnst það koma vel út. Fólk á ekki að vera feimið við að prófa sig áfram og vera ekki of fast á einhverju fyrir fram ákveðnu.

  Til dæmis finnst mér mikill misskilningur að stór húsgögn gangi ekki í lítil rými. Ég er með nokkuð stórar mublur hér inni og finnst það frekar stækka herbergið en minnka það. Hér eru rennihurðir sem gerir gæfumuninn í rými sem þessu. Lýsingin skiptir einnig rosalega miklu máli, en hér er ekki mikið af stórum gluggum. Í staðinn er góð lýsing og dimmer á öllu. Svo notast ég við lampa og kveiki mikið á kertum.“

  Til dæmis finnst mér mikill misskilningur að stór húsgögn gangi ekki í lítil rými.

  „Það er margt hérna inni en samt er nokkuð gott rými. Ég vil hafa smávegis andrými á móti þessum smáatriðunum. Ég er ekki með mikið á veggjunum hérna þó að ég sé mikið fyrir list en verkið eftir danska listamanninn Søren Kent er tiltölulega nýkomið hingað inn og gerir mikið fyrir rýmið. Síðan er ég alltaf að breyta og raða litlu hlutunum upp á nýtt. Ég er á öðru ári í arkitektúr og er líklega þannig þenkjandi, ég sé fyrir mér rýmið og lausnirnar og hvernig hlutirnir virka. Mér finnst svo skemmtilegt að taka svona áskorunum; hvað virkar og hvað ekki.“ Hildur hefur hug á því að starfa við þetta í framtíðinni enda hennar aðaláhugamál: „Ég væri til í að sérhæfa mig í innanhússarkitektúr og veita persónulega ráðgjöf.“

  Fataherbergið er rúmgott og vel skipulagt.

  Meira um málið í janúarblaði Húsa og híbýla sem fer úr sölu á fimmtudaginn – síðustu forvöð að næla sér í eintak. Fullt af skemmtilegu efni og sniðugum lausnum.

  Hildur segir að fólk eigi ekki að vera hrætt við að notast við sterka liti á veggina eða vera með dökka hluti og húsgögn: „Mér finnst það algengur misskilningur að það minnki rými. Fyrir mörgum árum var ég í töluvert minna rými og málaði það dökkgrátt, fólki fannst ég fulldjörf og óttaðist að þetta myndi ekki koma vel út.

  Ég ákvað samt að standa með sjálfri mér og gera það sem kom alveg virkilega vel út og fékk mikið hrós fyrir, en ég legg rosalega mikið upp úr því að fylgja algjörlega mínu innsæi. Mér er alveg sama hvað öðrum finnst, ég er alveg laus við það – nema náttúrlega ef ég væri að hanna fyrir einhvern annan,“ bætir hún við og hlær.

  Járnhillan er úr Heimili og hugmyndum. Vasinn er frá versluninni 4 árstíðir.

  Myndir / Hallur Karlsson

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum