2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Það eiga allir að klæða sig eins og þeir vilja“

  Hús og híbýli fékk verslunareigandann Sindra Snæ Jensson til að svara nokkrum spurningum. Sindri lýsir sjálfum sér sem metnaðarfullum og kröfuhörðum. Hann hleður batteríin spa-inu í Laugum og vildi að Ísland væri fjölmennara.

   

  Hver er Sindri?

  Metnaðarfullur og kröfuharður einstaklingur með mikinn drifkraft. Hef ástríðu fyrir fallegri hönnun, góðum mat og fótbolta. Ég starfa í Húrra Reykjavík sem ég stofnaði ásamt Jóni Davíð vini mínum, þar að auki er ég meðeigandi í Flatey Pizza og Yuzu, sem er nýr veitingastaður að Hverfisgötu 40-44.

  AUGLÝSING


  Hvaða bók eða bækur hafa hreyft við þér?

  Ef ég les þá er það eitthvað tengt vinnu, Shoe Dog eftir Phil Knight, stofnanda Nike, er sennilega sú bók sem kveikti mestan áhuga hjá mér. Ég nota Blinkist mikið en í því appi er hægt að fá úrdrætti úr bókum og bæði hægt að lesa eða hlusta.

  Fallegasta bygging í heimi?

  Ég ber miklar tilfinningar til World Trade Center tvíburaturnanna, man hvað ég var heillaður af þeim og svo fór ég þar upp með fjölskyldunni 11. ágúst 2001. Það sem eftir fylgdi er svo sorgarsaga sem vonandi mun aldrei endurtaka sig.

  Uppáhaldsveitingastaður?

  Hverjum finnst sinn fugl fagur. En á Íslandi hefur orðið mikill uppgangur í veitingasenunni svo það er úr nægu að velja. Mínir uppáhalds hérna heima eru Snaps, Sumac og Skál á Hlemmi. Erlendis er það Zuma sem er á nokkrum stöðum í heiminum og La Cantine Du Fauborg í Dubai sem er mjög eftirminnilegur.

  Hvernig eða hvar hleðurðu batteríin?

  Þar sem ég spila einnig fótbolta með KR er lítill tími fyrir sumarfrí. Það er helst að ég reyni að fara erlendis í sól á haustin, undanfarin tvö haust hefur það verið Marrakesch og Dubai. Hér heima er það helst að hoppa í spa-ið í Laugum eða taka langa helgi á sveitahóteli, Rangá eða Búðir klikka ekki.

  Hver er þinn uppáhaldshönnuður?

  Tinker Hatfield hefur hannað marga af mögnuðustu skóm Nike frá upphafi. Í dag eru hönnuðir yngri merkja meira „decision-makers“, þeir velja og hafna hönnun frá starfsfólki merkjanna. Í þeim efnum eru helstu hönnuðir New Guards Group algjörlega magnaðir: Heron Preston, Virgil Abloh (Off-White) og Francesco Ragazzi (Palm Angels).

  Fyrsta tískuminningin?

  Menntaskóli var sjokk, þá mætti maður nánast í íþróttagallanum og þurfti að uppfæra hratt. Þar vildi maður vera svalur.

  Skiptir útlitið máli?

  Útlit og framkoma hafa áhrif á hvernig fólk upplifir einstaklinginn við fyrstu kynni. Ég held að allir vilji líta vel út. Gott eða slæmt útlit er þó huglægt mat hvers og eins. Það hafa allir mismunandi smekk og skoðanir sem betur fer. Það eiga allir að klæða sig eins og þeir vilja og þannig að þeim líði vel.

  Listamaður eða kona sem þú heldur upp á?

  Marion Jdanoff, Kristín Dóra, Korkimon, Ásmundur Sveinsson, Sigurður Sævar, Kjartan Hreinsson, Þórsteinn Sigurðsson, Helga Páley, Steingrímur Eyfjörð og margir fleiri.

  Ef þú ættir eina ósk?

  Fyrst og fremst auðvitað heimsfriður og að loftslagið væri ekki í hættu. Svo væri ég til í að við værum svona alla vega milljón manneskjur sem byggjum á Íslandi.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum