2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Göldrótt veggjalist

  Lista- og tónlistarmaðurinn Örn Tönsberg hefur lengi verið leiðandi í veggjalist á Íslandi og líta má mörg verka hans í miðborg Reykjavíkur. Örn byrjaði snemma að fikra sig áfram í listinni en hann hefur aðallega verið að vinna með veggmyndir og prentverk fyrir fólk og fyrirtæki en inn á milli einnig hefðbundin málverk. Einnig hefur hann verið að fást við tónlist í hjáverkum undir nafninu 7berg.

  Hvernig verk ertu aðallega að gera og fyrir hvað?
  „Ég geri mikið af lógóum fyrir hina ýmsu staði og verkefni. Ég hef alltaf gaman af einfaldleikanum, að sveipa einhverri hugmynd áru með myndskreytingu. Ég vinn einnig mikið af veggmyndum fyrir aðra, hvort sem það eru bílafyrirtæki, flugfélög, veitingastaðir eða barir.“

  Hvar liggur þitt áhugasvið helst?
  „Í allskyns list, hvort sem það er veggjalist, tónlist, matarlist eða keramík. Ég hef dálæti á fallegum hlutum með sögu og að vekja eitthvað upp í manni sem maður vissi ekki að byggi þar.“

  Hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?
  „Mikið af línum sem eru feimnar við að snertast.“

  Hvernig byrjaði ferillinn?
  „Ég stal fyrsta brúsanum af pabba mínum þegar ég var 12 ára og hann hefur elt mig allar götur síðan – brúsinn það er að segja – ekki pabbi. Hann styður vel við bakið á mér í minni sköpun.“

  „Ég stal fyrsta brúsanum af pabba mínum þegar ég var 12 ára og hann hefur elt mig allar götur síðan – brúsinn það er að segja – ekki pabbi. Hann styður vel við bakið á mér í minni sköpun.“

  AUGLÝSING


  Hefur veggjalist alltaf heillað þig?
  „Já, alveg frá því ég sá fyrstu veggjakrotin (töggin) og bomburnar þegar ég var yngri. Stærðin og hraðinn heillaði mig, það er eitthvað göldrótt við það að geta málað stóran vegg á stuttum tíma og láta sig svo hverfa en verkið stendur.“

  Hefur þú alltaf haft gaman af því að teikna og mála?
  „Nei, stundum er það alveg hundleiðinlegt og mikil barátta þó að það líti ekki þannig út. En oftast er gaman að sjá afraksturinn af því.“

  Hvaða litir og form heilla þig mest?
  „Bjartir skemmtilegir litir á dökkum bakgrunni, hringir, línur og sporöskjur eiga hug minn allan.“

  Listamaðurinn Örn Tönsberg.

  Hvaðan færðu innblástur?
  „Í náttúrunni, í göngutúrum, í spjalli við áhugavert fólk og á leynistöðum þar sem innblásturinn felur sig. Það besta er þegar maður er ekki að leita heldur þegar hann kemur til manns.“

  Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?
  „Margeir Dire er alltaf í fyrsta sæti, að mínu mati besti listamaður sem Ísland hefur alið. En hann féll frá í vor langt fyrir aldur fram, en það er enginn sem náði að töfra fram það sem hann gat. Blessuð sé minning hans.“

  Hvar fást verkin þín?
  „Ég er stundum með opna vinnustofu hjá mér í Ingólfsstræti í rými sem ég deili með nokkrum öðrum snilldarlistamönnum. Svo er alltaf hægt að hafa samband við mig á Instagram @selur1 eða gegnum tölvupóst, [email protected] ef einhver hefur áhuga að fá vegg málaðan hjá sér.“

  Myndir / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum