2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Listin bjargráð gegn erfiðleikum

  Sigurður Atli Sigurðsson er fjölhæfur og drátthagur myndlistarmaður sem er með mörg járn í eldinum.

  Sigurður Atli Sigurðsson, myndlistarmaður og kennari við Listaháskóla Íslands, hefur komið víða við á ferlinum þrátt fyrir ungan aldur, sýnt á fjölmörgum sýningum og tekið þátt í uppákomum víðsvegar um heim. Hann hefur tileinkað sér ýmsar aðferðir prentlistarinnar en einnig unnið með teikningar, málverk, skúlptúr og ljósmyndun ásamt innsetningum og gjörningalist. Í verkum sínum dregur hann upp birtingarmyndir sköpunarferlisins í daglegum atburðum og tilviljanakenndum mannlegum gjörðum og skoðar hvernig tengsl tungumáls, mynda og menningarsamhengis hafa áhrif á merkingu. Í verkunum vinnur hann með hin ýmsu efni allt frá pappír, yfir í barnaleir og textíl. En hvernig verk er Sigurður Atli helst að gera og fyrir hvað?
  „Ég vinn mikið í grafík, sérstaklega með silkiþrykk, en þá oft í bland við málverk, teikningar eða ljósmyndun,“ segir hann. „Stundum skila verkin sér best í formi skúlptúrs eða innsetninga.“

  Hvaða efni vinnurðu helst með?
  „Þegar maður vinnur í grafík eru það pappír og prentfarvi. En ég vinn oft með leir, þá einna helst barnaleir. Það er eitthvað alveg ómótstæðilegt við það að móta eitthvað með höndunum, þó að það sé bara einhver klessa. Ég vinn líka stundum með textíl.“

  Sigurði Atla þykir mikilvægt að vera umhverfisvænn í sinni listsköpun og notast til að mynda við umhverfisvænstu prentaðferð í heimi við störf sín. „Þetta skiptir mig verulegu máli,“ segir hann, „það er svo margt hægt að gera til að framleiðsluferlið verði umhverfisvænna. Það sem liggur beinast við er að flokka úrgang á verkstæðinu og ég reyni að nota endurunninn pappír þegar það hentar. Undanfarið hef ég verið að kolefnisjafna efnisnotkunina á verkstæðinu. Einnig nota ég nánast eingöngu vatnsbaseraðan lit sem krefst þess ekki að maður noti leysiefni. Fyrir tveimur árum keypti ég Risograph-prentara fyrir Listaháskólann sem er umhverfisvænsta prentaðferð í heimi. Hann gengur fyrir litlu rafmagni af því að hann notast ekki við hitaelement. Hann notar líka vatnsbaserað sojablek og mastera úr bananatrefjum.“

  AUGLÝSING


  Spurður hvort listsköpun hafi ávallt verið honum hugleikin, segist hann alltaf haft mjög mikinn áhuga á öllu sjónrænu og líka haft áhuga á tónlist. „Ég var drátthagur sem barn en hafði líka mikla þörf fyrir að búa eitthvað til og þá skipti það ekki máli í hvaða formi það var.“

  En hvað finnst honum um íslenska myndlist almennt?
  „Það er mikil gróska í íslenskri myndlist og merkileg saga, þó að hún sé stutt. Mér finnst líka svo margir hérlendis fást við einhverskonar listsköpun þó að þeir starfi við annað, sem er jákvætt. Ætli þetta eigi ekki rætur að rekja í sagnahefðinni okkar. Þetta er líklega genetískt, við höfum þurft á skáldskapnum að halda til að komast í gegnum erfiðleikana sem við bjuggum við,“ segir Sigurður Atli, en hægt er að kynna sér verk hans nánar á vefsíðunni www.sigurduratli.com

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum