„Gaman að geta verið með tré sem maður sáði fyrir sjálfur“

Deila

- Auglýsing -

Á haustlegum degi gerðu blaðamaður og ljósmyndari sér ferð til Borgarness þar sem Anna Sólrún býr ásamt Friðriki og börnunum þeirra tveimur, Ásdísi, fimm ára og Emil, tveggja ára. Framkvæmdagleði og vinnusemi einkennir parið og þau sitja sjaldnast auðum höndum.

Húsið keyptu þau fyrir um fjórum árum en það er 115 fermetrar að stærð og byggt árið 1962. Jólahefðir fjölskyldunnar eru enn í mótun en þau hafa það fyrir sið að höggva sitt eigið jólatré. Innlit inn á þeirra fallega heimili er að finna í jólablaði Húsa og híbýla.

Anna segist ekki skreyta mikið, en greni, könglar og hvít ljós eru í forgrunni. Jólatréð er að hennar mati veigamesta skreytingin. Fjölskyldan fer alltaf saman upp í sveit og sækir jólatré og þá taka þau með sér kakó og piparkökur. Síðastliðin þrjú ár hafa þau verið með jólatré sem Anna gróðursetti sjálf þegar hún var í kringum 10 ára. „Trén eru núna komin í rétta stærð til að geta staðið inni í stofu. Það er mjög gaman að geta verið með tré sem maður sáði fyrir sjálfur, eins og mér þótti það leiðinlegt á sínum tíma að ganga upp í fjall með fjölskyldunni og gróðursetja tré.“

Anna nýtir náttúruleg efni til jólaskreytinga, meðal annars greni og köngla.

Önnu þykir mikilvægt að nýta náttúruna til skreytinga og segir það að hafa alist upp í sveit og verið mikið úti í náttúrunni hafa haft áhrif. „Ég kann að meta náttúruna betur og það sem hún gefur okkur. Það er hægt að nýta svo margt.“

Lestu viðtalið við Önnu og sjáðu fleiri myndir í nýjasta tölublaði Húsa og híbýla.
Tryggðu þér áskrift að Hús og Híbýli í vefverslun

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Advertisement -

Athugasemdir