Gullsmiðir sem leyfa skartgripunum að tala sínu máli

Deila

- Auglýsing -

Í verslun og vinnustofu á Hverfisgötunni starfa gullsmiðirnir Erling og Helga Ósk. Erling útskrifaðist úr gullsmíði frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1983 og hefur starfað að mestu leyti sjálfstætt við gullsmíði síðan. Helga stundaði nám við gullsmíði á Akureyri hjá Pétri Breiðfjörð og útskrifaðist úr faginu árið 1995 en Helga er einn fárra gullsmiða sem notast við íslenskt víravirki í hönnun sinni.

Hvenær kynntust þið og fóruð að starfa saman? Við höfum unnið á sömu verkstæðum og verið með vinnustofur í sömu húsum, tekið þátt í sömu sýningum þannig að eitt leiddi af öðru. Við byrjuðum svo að reka þessa verslun og vinnustofu saman haustið 2016.

Hvert sækið þið helst innblástur? Eitt leiðir af öðru, yfirleitt eru nokkrir boltar á lofti, gamlar hugmyndir sem hafa einhvers staðar kviknað mæta nýjum hugmyndum, stundum er þetta löng meðganga, mikil vinna að fá hugmyndir til að ganga upp. En stundum koma sterkari hugmyndir sem einhvern veginn nánast rúllast upp og verða að heilsteyptum línum á tiltölulega skömmum tíma.

Hvaða hráefni vinnið þið með? Algengust eru hefðbundin efni gullsmiða, þ.e. gull og silfur en bæði höfum við leikið okkur með allskyns efni í gegnum tíðina, það hefur þó oftar verið fyrir sýningar eða til þess að brjóta rammana og leika sér.

Hvernig er hönnunarferlið? Það er nokkuð stöðugt og alltaf í gangi. Við erum ekki úti í náttúrunni að upplifa og reyna að túlka einhverja vitleysu. Hönnunin er nátengd vinnunni og handverkinu í okkar tilfelli. Við einfaldlega setjumst við borðið og vinnum úr þeim hugmyndum sem bærast innra með okkur. Hugmyndir eru ekki vandamál, það er nóg til af þeim, vinnan og útfærslan er flókna ferlið. Við eigum líka mjög gott samtal um þá hluti sem við erum að gera og við leitum mikið álits og ráða hvort hjá öðru.

Hvernig er að vera gullsmiður í dag, hefur það breyst mikið síðan þið byrjuðuð? Já, þetta er töluvert ólíkt fag frá því sem áður var enda hafa tímarnir breyst en það er alltaf gaman að vera gullsmiður.

Myndir / Aldís Pálsdóttir

 

- Advertisement -

Athugasemdir