2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Hef miklar mætur á sterkum og sjálfstæðum konum í list og lífi“

  Anna Inga Arnórsdóttir er ung listakona sem brennur fyrir baráttumálum nútímasamfélags.

   

  Hvernig listamaður ert þú?

  „Það er ekkert eitt sem einkennir mig sérstaklega sem listamann, ég vinn út frá því hvernig mér líður á hverri stundu og hvað mér finnst fallegt. Stíllinn minn getur breyst mjög hratt – núna hef ég verið mjög hrifin af línuteikningum en það gæti breyst á morgun og þá gæti ég verið að gera eitthvað allt annað. Einnig finnst mér samfélagið og vandamál samfélagsins hafa mikil áhrif á það hvernig verk ég geri,“ segir Anna Inga, sem hefur bæði unnið að málverkum og tölvuteikningum. „Það að gera listaverk eða eitthvað skapandi er mjög sálrænt fyrir mig og hjálpar mér t.d. í gegnum kvíða og margt annað, því myndi ég segja að það væri að mestu leyti fyrir sjálfa mig.“

  Arna Inga.

  AUGLÝSING


  Hvernig er ferlið frá hugmynd að mynd?

  „Það er yfirleitt mjög misjafnt, oft er verkið eitthvað sem mér dettur í hug á staðnum. Annars eru önnur verk kannski meira útpæld þar sem ég reyni að koma frá mér einhverjum mikilvægum skilaboðum. Síðan getur maður alltaf bætt við og betrumbætt allar myndir, þó svo að maður telji þær vera tilbúnar.“

  Nú hefur þú líka verið að hanna skartgripi, gera tattú og fleira – hvernig myndir þú lýsa þínum stíl?

  „Myndirnar mínar eru flestallar gerðar út frá línuteikningum og jafnframt skartið mitt líka – eyrnalokkarnir eru innblásnir af andlitum sem ég teikna úr einni línu.“

  Hvar liggur þitt áhugasvið helst?

  „Mitt áhugasvið liggur helst á sviði tísku og fatnaðar, þó svo að ég sé með mjög vítt áhugasvið og langar að gera allt sem er skapandi hvort sem það er listaverk eða föt.“

  Mynd / Hákon Davíð

  Hefur þú alltaf haft gaman að því að teikna og mála?

  „Já frá því ég man eftir mér, ég var alltaf að gera eitthvað skapandi hvort sem það var að teikna myndir eða búa til föt á Barbie-dúkkurnar mínar úr eldhúsrúllu.“

  Hvaða litir og form heilla þig mest?

  „Allir litir heilla mig – það er aldrei nóg af litum, svo eru ófullkomin form langskemmtilegust að mínu mati.“

  Hvaðan færðu innblástur?

  „Alls staðar frá – náttúrunni, byggingum, fólki, hlutum, dýrum, af Netinu og í skilaboðum úr ýmsum heimsfréttum og baráttumálum. Ég hef einnig miklar mætur á sterkum og sjálfstæðum konum í list og lífi og veita verk Fridu Kahlo mér mikinn innblástur þar sem hún er einmitt þekkt fyrir að koma fram miklum tilfinningum og skilaboðum í sínum myndum.“

  Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

  „Basquiat, Alina Zamanova, Chloe Wise, Frida Kahlo, Adam Riches og svo margir fleiri.“

  Mynd / Hákon Davíð

  Hvar sérðu þig eftir 10 ár?

  „Vonandi útskrifaður fatahönnuður og sjálfstætt starfandi listakona, mögulega búin að stofna einhvers konar fyrirtæki.“

  Hvar fást myndirnar þínar og skart?

  „Það er hægt að nálgast myndirnar mínar og skart á Instagram-aðgangi mínum @arnainga.“

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is