Hlý, mjúk og litrík verk sem tala saman

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Lilý Erla Adamsdóttir opnar sýninguna Skrúðgarður í Listasafninu á Akureyri í lok ágúst. Eins og nafnið gefur vísbendingu um eru verk sýningarinnar litrík með mýkt eins og blómabeð.

Lilý Erla vinnur textílverk. „Verkin mín byggja á endurtekningu, samtali efnisáferðar og lita sem ég reyni að að byggja upp á ljóðrænan hátt á myndfleti,“ segir Lilý um verkin sín.

Lilý fékk styrk bæði frá Hönnunarsjóði og Myndlistarsjóði fyrir sýninguna. Mynd / Hallur Karlsson

Lilý er ættuð frá Akureyri og segir Lystigarðinn á Akureyri hafa hafa verið kveikjuþráðinn að þema sýningarinnar. Þangað fór hún til að vinna rannsóknarvinnu fyrir gerð verkanna. „Garðurinn á fallegan stað í hjarta mínu. Í æsku varði ég miklum tíma í garðinum og verkin eru að einhverju leyti endurkast af marglaga upplifun minni á honum og hugmyndinni um skrúðgarða almennt líka. Það sem mér finnst áhugavert við skrúðgarða er að þeir eru afmarkaður reitur fyrir ákveðinn vöxt en þeim vexti er stýrt eftir kúnstarinnar reglum. Þetta á líka við um mína sköpun, það er alltaf eitthvað sem vex fram í hvert sinn sem verk verður til og maður er alltaf á einhvern hátt að reyna að stýra þessu lífræna flæði,“ útskýrir Lilý.

„…í raun finnst mér setningar stundum vera eins og þræðir, orð eins og útsaumsspor og ljóð eins og myndverk.“

Hún segir ýmis plöntuheiti hafa læðst inn í titla verkanna. „Ég fór í garðinn og eyddi löngum tíma í að skoða plönturnar og skrifa niður nöfnin á þeim. Svo voru nokkur nöfn sem sátu eftir í mér og uxu í myndmáli verkanna. Ég hef lengi leikið mér að orðum, skrifað ljóð og gefið út og í raun finnst mér setningar stundum vera eins og þræðir, orð eins og útsaumsspor og ljóð eins og myndverk. Þannig að það er ljóðrænn blær yfir sýningunni og verkin tala saman sín á milli.“

Lilý hélt sýninguna sem ber heitið Skrúður í fyrra í sýningarsal SÍM. Sýningin Skrúðgarður er að einhverju leyti framhald af þeirri sýningu. Mynd / Hallur Karlsson

Verk sem bæta hljóðvist

Lilý segir verk sín gædd þeim eiginleikum að bæta hljóðvist og minnka glymjanda. Hún hefur hug á að skoða þessa kosti verka sinna enn frekar og vonar að hún fái tækifæri til að vinna í samstarfi við arkitekta á þessum nótum. „Vinnustofulífið er bæði ljúft og skemmtilegt en það heillar mig líka að fá að vinna að einhverju áhugaverðu verkefni í þverfaglegu teymi. Maður vex alltaf svolítið í sjálfum sér við það að vinna með öðrum.“

Sýningin Skrúðgarður verður opnuð 29. ágúst í sal 07  á Listasafninu á Akureyri. Lilý mun einnig sýna útilistaverk á svölum safnsins.

Nokkur af nýjustu verkum Lilýjar eru töluvert stærri en hennar eldri verk. Mynd / Hallur Karlsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Litlir fuglar á vappi um safnið

Myndlistarmaðurinn Sigurbjörn Helgason hefur komið sér fyrir í vinnustofunni í safnbúð Hönnunarsafns Íslands. Þar mun hann nýta tímann...

„Eins og ég sé að taka þessar tilfinningar og skilja þær eftir á rammanum“

„Þemað er þunglyndi, þetta eru frekar svört verk,“ segir myndlistarmaðurinn Kris Helga um verkin sem hán sýnir á sýningunni Hugarmyrkur sem opnar á laugardaginn...