2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hönnun er tæki til að gera samfélagið betra

  Halla Helgadóttir er mörgum kunn í hönnunarheiminum. Hún var ráðin framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands árið 2008 og hefur gegnt því starfi síðan. Halla er grafískur hönnuður að mennt, hefur starfað lengi í faginu og hlotið töluvert af viðurkenningum fyrir verk sín.

   

  Hver er Halla?
  Ég er grafískur hönnuður og hef mikin áhuga á hlutverki hönnunar í samtímanum. Hönnun sem tæki til að skapa betri lausnir og leiðir til hagsbóta fyrir samfélagið; atvinnulíf, menningu og mannlíf. Ég starfa sem framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar Íslands, svo er ég líka Vesturbæingur, móðir, dóttir, systir, eiginkona, vinkona og amma og reyni að leggja mig fram um að vera sæmileg manneskja.

  Fyrsta hönnunarminningin?
  Í löngu kennaraverkfalli á unglingsárum endurhannaði ég herbergið mitt, málaði og breytti öllu en hafði ekki hugmynd um að þetta væri að hanna.

  Uppáhaldslitur?
  Litir eru almennt í uppáhaldi enda leiðist mér litleysi. Það er ósanngjarnt að gera upp á milli en ef ég á að velja einn þá er það kannski PANTONE 564.

  AUGLÝSING


  Uppáhaldsform og -efni?
  Mismunandi verkefni kalla á ólík efni og form en ég get alltaf fundið ástæðu til að kaupa mér pappír og bækur til að skrifa eða teikna í.

  Bestu kaupin fyrir heimilið? En verstu?
  Ég er almennt betri í að skapa en að kaupa og finnst erfitt að kaupa hluti því úrvalið hentar mér sjaldnast. Ég hugsa að ég eigi eftir að gera bestu kaupin og mögulega líka þau verstu.

  Hvað virðistu aldrei eiga nóg af þegar kemur að heimilinu?
  Málið er að mér finnst ég almennt eiga nóg, en ekki endilega rétta útgáfu.

  Fallegasta bygging á Íslandi?
  Það er margar fallegar byggingar á Íslandi enda eigum við góða arkitekta. Til dæmis hús Hafsteins og Ragnheiðar í Garðabæ eftir Högnu Sigurðardóttur, Hof í Skagafirði eftir Studió Granda, hús Sigvalda Tordarson og gömlu skipstjórahúsin í Vesturbænum.

  Hvernig væri draumaheimilið?
  Litríkt, glaðlegt og opið heimili, vel hannað með lausnum sem einfalda lífið og hver hlutur á sinn stað.

  Málverk eftir hvaða listamann er efst á óskalistanum, ef peningar væru ekki fyrirstaða?
  Ef ég mætti velja verk þá væru þau m.a. eftir Huldu Hákon, Birgi Andrésson, Egil Sæbjörnsson, Ragnar Kjartansson, Húbert Nóa, Elínu Hansdóttur, Loji Höskuldsson …

  Hvað er á döfinni hjá Hönnunarmiðstöðinni?
  Við erum með mörg verkefni á okkar könnu sem við erum að þróa áfram eins og HA-tímaritið, HönnunarMars og Hönnunarverðlaun og auk þess stór ný verkefni sem lúta að hönnun í náttúrunni auk vaxandi fjölda erlendra verkefna. Við erum líka að þróa nýja og öfluga vesfíðu sem fer í loftið með vorinu þannig að það er best að fylgjast bara með á honnunarmidstod.is

  Mynd / Hallur Karlsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is