2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Hugmyndaríkt par sem hrindir hlutunum í framkvæmd

  Á fallegum stað í Hafnarfirði búa þau Katla, Sigurður og Kári sonur þeirra en þau hafa komið sér vel fyrir þar sem litir og fallegir munir ráða ríkjum. Katla og Siggi hafa mikinn áhuga á öllu því sem viðkemur heimilinu og sitja sjaldnast auðum höndum. Katla hefur einstakt lag á smáatriðum heimilisins og Siggi er afar handlaginn en saman hafa þau unnið að því að smíða og innrétta nokkrar íbúðir og sumarhús og eru hvergi nærri hætt.

  Formfögur hönnun með smávegis tvisti í uppáhaldi

  Íbúðin er 107 fermetrar að stærð en þau hafa búið í húsinu síðan 2013. Þegar þau fluttu tóku þau þátt í allri smíðavinnu og innréttuðu íbúðina sjálf en ljósar innréttingar og ljóst eikarparket varð fyrir valinu. Katla hefur búið í Hafnarfirði síðan hún var barn en Siggi er uppalinn í Kópavogi. Íbúðin er mjög björt og opin og litagleðin leynir sér ekki. Stílnum á heimilinu lýsir Katla sem fremur léttum í grunninn og þykir henni gaman að lífga upp á umhverfið með björtum litum hér og þar. „Ég get endalaust dundað mér í herberginu hans Kára alveg og ég reyni að skapa þar einskonar ævintýraheim fyrir strákinn minn.“

  Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Aðspurð segir Katla stílhreina og formfagra hönnun helst vera í uppáhaldi: „Mér finnst smáatriðin skipta miklu máli en mér finnst mjög skemmtilegt þegar það er smávegis tvist sem gerir hlutinn einstakan eða öðruvísi.“

  AUGLÝSING


  Hér er spáð í hvert einasta smáatriði og að sögn Kötlu getur hún verið tímunum saman að raða í hillur, breyta og bæta. Eruð þið Siggi sammála þegar kemur að því að innrétta heimilið? „Já, við erum það. Við höfum bæði mjög gaman af því að hafa fallegt í kringum okkur. Hann hefur sterkar skoðanir á þessu og spáir mikið í smáatriði en hann tekur alltaf eftir því ef ég kaupi nýjan hlut inn á heimilið. Siggi er þó mun praktískari í hugsun og horfir meira á notagildi hluta,“ segir hún og brosir. „Ég held að við séum mjög góð blanda og jöfnum hvort annað út. Hér á heimilinu er þetta svolítið í bland; hlutir sem við söfnum okkur fyrir og viljum eiga alla ævi og svo hlutir sem kosta minna og þeim er þá hægt að skipta hraðar út.“

  Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Dugleg að hrinda hlutunum í framkvæmd 

  Katla og Siggi eru dugleg að breyta til á heimilinu, færa til húsgögn og smáhluti, mála veggi og fleira í þeim dúr. „Ég dett svolítið í gírinn á kvöldin og fæ oft hugmyndir þá og framkvæmi þær oftar en ekki strax. Þar liggur kannski líka munurinn á okkur; Siggi undirbýr sig yfirleitt mjög vel, eins og þegar hann er að fara að mála meðan ég kem heim með dolluna og skvetti nánast á vegginn. Ég er kannski aðeins meira fiðrildi en þá er mjög gott að hafa eitthvert jafnvægi í þessu.“

  Hvað finnst ykkur skipta mestu máli varðandi lýsingu, liti og uppröðun húsgagna og hluta? „Lýsingin skiptir mjög miklu máli, mér finnst mjög mikilvægt að hafa nóg af lömpum og kertum til þess að skapa góða stemningu. Við viljum hafa liti í kringum okkur en kannski á frekar einföldum grunni. Við máluðum nýlega alla veggi í hlýrri tón en það breytti miklu að mála veggina í dekkri lit, það varð hlýlegra og mér finnst aukahlutirnir á veggjunum verða sýnilegri. Varðandi uppröðun þá finnst mér oft mega vera frekar færri hlutir en fleiri svo að hver og einn hlutur fái að njóta sín og breyta þá frekar oftar. Við pælum líka mikið í staðsetningu og uppröðun húsgagna því notagildið er ekki síður mikilvægt að okkar mati,“ bætir Katla við.

  Mynd/Aldís Pálsdóttir

  Ekki missa af þessum

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is