Í útjaðri höfuðborgarsvæðisins, nánar tiltekið í Mosfellsbæ, stendur reisulegt hús sem enn er í mótun. Húsið er 500 fermetrar að stærð og í því eru þrjár íbúðir.
Guðfinna og Stefán búa á neðri hæðinni ásamt Ýri dóttur þeirra. Faðir Guðfinnu, Valgeir, keypti lóðina 2016/17 en búið var að steypa grunninn um tíu árum áður og kemur hann til með að búa á efri hæðinni. Þriðja íbúðin er í útleigu. Húsið var áður í eigu aðila tengdum SkjáEinum og stóð til að gera þáttaröð sem taka átti upp í húsinu. Þar átti að sýna frá byggingu hússins skref fyrir skref. Hrunið setti svo strik í reikninginn og var húsið ekki klárað og stóð grunnurinn einn eftir. Lóðinni fylgdu teikningar eftir arkitekt frá San Francisco en Valgeir, sem er byggingaverkfræðingur og smiður, breytti þeim eftir þeirra óskum. Hann hefur byggt fjölmörg hús, þar á meðal þau hús sem fjölskyldan hefur búið í.
Þau fluttu inn í mars síðastliðnum og hafa hægt og rólega verið að koma sér fyrir. „Það eru endalaus verkefni sem fylgja þessu og við búum í raun enn á iðnarsvæði. Það tekur allt lengri tíma en áætlað er og fórum við inn í þetta verkefni með það hugarfar. Við erum þannig fjölskylda að við vinnum með ákveðið deilihagkerfi; við leggjum mikið upp úr því að endurnýta og erum við pabbi mjög dugleg að þræða alla helstu nytjamarkaði og sölusíður og nýtum þannig ýmiss konar efnivið, húsgögn og hluti. Það sama á við um fermetrafjölda, fyrir okkur var afleidd hugmynd að einn aðili byggi í 500 fermetra húsnæði og þess vegna ákváðum við að fara þessa leið og höfum möguleikana á að opna á milli íbúða. Þetta verður svolítið eins og þetta var áður, kynslóðirnar sem búa saman sem er ekki endilega sjálfgefið og ekkert allir sem kjósa það sem er líka bara allt í lagi. Umhverfið er að breytast svo mikið, fólk er ekki að kaupa sér eins stór hús og áður, sem það hefur ekki þörf fyrir.“
Íbúðin sem þau búa í er 160 fermetrar að stærð. Efri hæðin er um 180 fermetrar og þriðja íbúðin í kringum 85 fermetra, auk bílskúrs og geymslu. Að sögn Guðfinnu sáu þau sjálf um að innrétta íbúðina og fengu þar alveg frjálsar hendur. „Við unnum að þessu saman, pabbi sá um byggingarvinnuna og komum við aðallega með hugmyndir. Allar innréttingar eru eftir okkar höfði og unnum við þetta í góðu samstarfi við hann.“
Það sem skipti þau fyrst og fremst máli var að gera íbúðina heimilislega og reynir Guðfinna að ná fram karakter með litum. „Lífið þarf ekki að vera litlaust og maður á að vera óhræddur við að nota hina ýmsu liti.”
Innlitið í heild sinni birtist í 12. tölublaði þessa árs.