Hinir klassísku og vinsælu jólaplattar frá Bing & Grøndahl og Royal Copenhagen hafa verið framleiddir í yfir 100 ár og voru algengir á mörgum heimilum á 20. öldinni.
Plattarnir sjást enn á mörgum heimilum í dag og eru margir sem safna þeim. Á ári hverju ári er gefinn út nýr platti með ártali og nýrri jólamynd og oft ríkir talsverð eftirvænting um myndefnið sem er yfirleitt sótt í danskar jólahefðir.
Það var árið 1895 sem fyrsti jólaplattinn kom á markaðinn en þar er horft út um frostbitna rúðu þar sem útlínur húsa Kaupmannahafnar standa undir stjörnubjörtum himninum í fjarska. Plattinn er hvítur og fallega blár með ártalinu 1895 efst.
Hugmyndina að plöttunum fékk eigandinn Harald Bing og hann réð sænska listamanninn Frans August Hallin sem hannaði fyrsta plattann. Einungis voru framleiddir 400 plattar en það var nóg til að hefð skapaðist fyrir því að safna þeim.
Árið 1908, eða 13 árum seinna, hóf svo Royal Copenhagen framleiðslu á svipuðum plöttum en María mey prýddi fyrsta þeirra sem var einnig heiðblár að lit og úr postulíni eins og diskarnir frá Bing & Grøndahl.
Árið 1987 tók Royal Copenhagen yfir framleiðsluna hjá Bing & Grøndahl en hafa allt frá því framleitt báða postulínsplattana með mismunandi myndum. Þeir eru eftirsóttir meðal safnara, eins og áður segir, og oft er hægt að finna eldri platta í antíkbúðum og á mörkuðum en einnig á Ebay og Amazon.
Jólaplattinn 2020 frá Bing & Grøndahl er hannaður af Dag Samsund. Þar gefur á að líta Rósenborgarhöll í Kaupmannahöfn, á vetrarkvöldi, þar sem jólastjarnan blikar á lofti.