2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Konurnar dóu ekki ráðalausar

  Leiðari úr 9. tölublaði Húsa og híbýla

   

  Vissulega og sem betur fer eru heimili almennt fjölbreytt og ólík þó svo að ég verði að segja að ákveðnir tískustraumar séu afar ríkjandi inni á mörgum íslenskum heimilum. Tekkið var allsráðandi á áratugunum á milli 1960 og 1970 og þá var líka algengt að Nagel-kertastjakarnir þýsku prýddu stofur og hol. Fyrr á 20. öldinni voru flauelsklæddir litríkir sófar og þungar síðar gardínur algengar ásamt kristalljósakrónum og öðru glingri. Í dag er þetta allt komið aftur í tísku og mörgum stílum er oft blandað saman af skandinavískri smekkvísi. Já, jafnvel þótt tískan fari alltaf í hringi þá fær hún á sig nýjan blæ í hvert skipti sem hún skýtur upp kollinum og hún getur tekið á sig fjölbreyttar myndir.

  Til að fallegt heimili verði fullkomnað, þarf það að ilma vel. Lykt hefur nefnilega ótrúleg áhrif á upplifun einstaklingsins af hverskonar rými og því þarf engan að undra að hótel um víða veröld úði vellyktandi vökva í móttökuna. Ilmkerta- og olíuvörulínur fyrir heimilið eru í tísku og hafa sprottið upp að undanförnu svo hundruðum skiptir og enginn er maður með mönnum nema eiga sitt uppáhaldsilmkertamerki.

  Þegar amma hafði lokið við að þrífa húsið og von var á gestum, þá kveikti hún í vindli sem hún gekk með í öll herbergi og púaði…

  Sjálf á ég mjög sterkar og góðar minningar um ilminn á mínu æskuheimili og einnig hjá ömmu og afa, konurnar í gamla daga dóu nefnilega ekki ráðalausar. Þegar amma hafði lokið við að þrífa húsið og von var á gestum, þá kveikti hún í vindli sem hún gekk með í öll herbergi og púaði en bæði amma og afi reyktu eingöngu sígarettur. Amma sagðist gera þetta til að fá fína veislustemningu í húsið. Þess vegna kallar vindlalykt í bland við hreingerningarilm fram hjá mér afar góðar og hátíðlegar minningar. En besti heimilisilmurinn fannst mér nú samt þegar Old Spice-rakspírinn hans pabba blandaðist líka saman við hreingerningailminn og vindlareykinn, því mamma tók upp sama sið, þá vissi ég að von væri á gestum, við fengjum góðan mat og það yrði glatt á hjalla. Ég læt liggja á milli hluta hvort mér finnist þessi ilmur góður í dag en eitt er víst að hann myndi kalla fram sérlega góðar minningar.

  AUGLÝSING


  Þetta tölublað er einstaklega fjölbreytt þar sem við höfðum sniðugar hugmyndir að leiðarljósi. Innlitin eru því afar ólík og ættu að gefa lesendum fjölbreyttar hugmyndir. Við spjölluðum við nokkra innanhússarkitekta og hönnuði sem gefa margskonar ráð. Lesendur ættu því að fá ferskan innblástur fyrir haustið í þessu blaði og ilmkertaframeiðendur hafa vonandi fengið hugmyndir að nýjum ilm. Ég bíð spennt eftir Havanavindlailmkertinu með dassi af Old spice og Ajaxi.

  Tryggðu þér áskrift að Hús og híbýli í vefverslun

  Sjá einnig: Hugmyndablaðið er komið út – stútfullt af ferskum hugmyndum fyrir haustið

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is