2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Kristjana Arnarsdóttir íþróttafréttakona: „Það jafnast ekkert á við að reima á sig takkaskóna“

  Kristjana Arnarsdóttir er orðin flestum landsmönnum kunn en hún hefur getið sér gott orð að undanförnu sem íþróttafréttakona á RÚV. Síðasta vetur tók Kristjana við sem spyrill í Gettu betur og var þar með fjórða konan til að stýra þættinum, með góðum árangri. Við fengum hana til að svara nokkrum spurningum í Húsum á híbýlum og birtum hér nokkrar vel valdar.

   

  Hver er Kristjana? Ég myndi segja að Kristjana væri frekar hress Kópavogsmær sem nýtur sín best í góðra vina hópi.

  Hvaðan kemur þú? Ég er uppalin á Kársnesinu í Kópavogi og finnst hvergi betra að vera en akkúrat þar. Foreldrar mínir eru Húsvíkingar í húð og hár svo ég á ansi sterkar rætur norður í land og þykir mjög vænt um Húsavíkina.

  Hvar og hvenær líður þér best? Fjölskyldan á sumarbústað í Skorradal sem ég algjörlega elska. Það ríkir svo dásamleg kyrrð í dalnum og eins og tíminn standi í stað. Vinnan mín gerir það að verkum að ég fer á fleygiferð í gegnum daginn og því kann ég svo innilega að meta rólegu stundirnar í sveitinni.

  AUGLÝSING


  Hvað hefur þig alltaf dreymt um að eignast en ekki eignast hingað til? Ég hef lengi verið á höttunum eftir góðum borðstofustólum en ekki látið það eftir mér að kaupa draumastólana. Wishbone-stóll Hans Wegner finnst mér ofboðslega tímalaus og fallegur og eftir margra ára vangaveltur hugsa ég að þeir stólar verði fyrir valinu einn daginn. Nú er bara að fara að safna.

  Bestu kaupin fyrir heimilið? Ég er farin að verða aðeins meðvitaðri um eigin neyslu heima fyrir og ákvað nýverið að segja alfarið skilið við Nespresso-vélina og óumhverfisvænu hylkin. Ég keypti mér í staðinn Moccamaster-kaffivél sem ég er ofboðslega ánægð með. Hún hefur líka haft það í för með sér að ég drekk aðeins minna kaffi yfir daginn því maður þarf aðeins að hafa meira fyrir uppáhellingunni.

  En verstu? Ég á í rauninni mjög erfitt með að svara þessari spurningu því það tekur mig yfirleitt mjög langan tíma að ákveða hvort ég eigi að kaupa eitthvað inn á heimilið, og um leið, hvort ég þurfi á einhverjum tilteknum hlut að halda. Ég hugsa að verstu kaupin, svona eftir á, hljóti því að vera Nespresso-vélin. Eins þægileg og hún hefur nú verið.

  Það sem heillar mig er … jákvæðni, heiðarleiki og fólk sem getur komið vel fram við alla, sama hvaðan það kemur.

  Draumaheimilið væri … eitthvert krúttlegt hús eða rúmgóð íbúð á Kársnesinu þar sem ég gæti boðið allri fjölskyldunni í mat. Allt annað er aukaatriði. Nema kannski baðkar. Það er fátt jafndásamlegt og að slaka á í baði með gott podcast í eyrunum og rauðvínsglas. Rúmgóð borðstofa og baðkar, takk.

  Uppáhaldsíþrótt og/eða -hreyfing? Ég er fótboltastelpa í grunninn og elska allt sem tengist fótbolta. Eftir að ég lagði víðfrægu takkaskóna á hilluna hef ég sótt þessar hefðbundnu líkamsræktarstöðvar. Það jafnast samt ekkert á við að reima á sig takkaskóna.

  Hvaða heimsfræga íþróttamann myndir þú helst vilja hitta og hvað mynduð þið gera? Ég er með langan og líklega óendanlegan lista af íþróttafólki sem ég væri til í að hitta; Pelé, Usain Bolt og Simone Biles, til dæmis. Ég hitti Gary Player, einn besta kylfing sögunnar á Opna breska risamótinu í fyrra, en hann var alveg rosalega leiðinlegur og mjög upptekinn af sjálfum sér, sem var eiginlega mjög fyndið. En ef ég fengi aðeins að hitta einn heimsfrægan íþróttamann væri ég til í að hitta goðsögn tennisheimsins, Serenu Williams. Hún er stórkostleg fyrirmynd og frábær íþróttakona. Fyrst myndum við fá okkur mojito og ræða öll afrekin hennar. Ég myndi segja henni frá öllum sigrunum í yngri flokkum Breiðabliks. Svo færum við saman í karaokí.

  Ef þú ættir eina ósk? Ég myndi óska þess að við gætum fundið betri leið til að hjálpa flóttafólki sem kemur hingað til lands. Og svo myndi ég að sjálfsögðu óska þess að við gætum öll verið góð hvert við annað. Þá væri heimurinn okkar svo miklu fallegri og betri.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is