Notalegheit og einfaldleiki ræður ríkjum í þessari snotru íbúð í miðbænum. Hér eru kertaljós, könglar, greni og jólalaukar hafðir í fyrirrúmi í jólaskreytingum.
Húsráðandi hefur komið sér upp góðu safni af jólaskrauti sem fær að njóta sín hér og þar um íbúðina. Að hennar sögn heillast hún af því sem er einfalt en á sama tíma heillar það óvenjulega líka.
„Þessi tími er yndislegur og skapar notalega stemningu. Það er alveg sérstök orka yfir aðventunni – að lýsa upp myrkrið með fallegum ljósum og kertaskreytingum.“
Að sama skapi er einfaldleikinn oft bestur, að hennar mati, „en hér á bæ er byrjað að skreyta í upphafi aðventunnar og skreytt meira og meira eftir því sem nær dregur jólum.“
Glerkrukkur skreyttar með borðum og náttúrulegum efnivið, hýasintur og amaryllis – allt þetta og meira til notar hún til þess að kalla fram jólastemningu á heimilinu.
Aðspurð segir hún föndurstund með barnabörnunum ómissandi hluta af jólaundirbúningnum, að njóta og hafa það gott með fjölskyldu og vinum og láta stressið ekki bera sig ofurliði.
Myndaþátturinn birtist í heild sinni í 12. tölublaði Húsa og híbýla, 2019.