• Orðrómur

Leirlistafélagið 40 ára: Vinnustofa Þórdísar Baldursdóttur, keramíkers

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Leirlistafélag Íslands fagnar í ár 40 ára afmæli sínu og í tilefni þess erum við að fjalla um meðlimi félagsins og skyggnast á bak við tjöldin á vinnustofum þeirra.

Fyrr á þessu ári heimsóttum við vinnustofu Þórdísar Baldursdóttur, keramíkers, sem staðsett er í Íshúsinu í Hafnarfirði. Listin hafði alltaf togað í hana og árið 2011 útskrifaðist hún úr Listaháskólanum í Cumbriu á Englandi. Hún hefur notast við myndlist í ýmiss konar formi en þegar hún kynntist leirnum var stefnan mótuð að hennar sögn. Hún var lengi vel búsett úti á landi í návígi við náttúruöflin sem hafa ætíð verið hennar helsti innblástur en hún er meðal annars að hanna og framleiða veggskúlptúra, matarstell og hina ýmsu nytjahluti.

- Auglýsing -

Þórdís Baldursdóttir. Mynd / Hákon Davíð Björnsson

„Ég kalla mig keramíker, en það er samheiti yfir leirlistamann og keramíkhönnuð. Ég hef alltaf haft mikla þörf fyrir að vinna í höndunum með hin ýmsu efni. En ég lærði þó ung hjúkrunarfræði og vann við það lengi, líka meðfram myndlistarnáminu,“ útskýrir Þórdís.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

Í gamla frystihúsinu í Hafnarfirði, Íshúsinu, hafa verið settar upp vinnustofur fyrir sjálfstætt starfandi listamenn og hönnuði. Þórdís er með vinnuaðstöðu á efri hæðinni ásamt fleirum keramíkerum og hönnuðum í tólf opnum rýmum.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Helsti efniviður Þórdísar undanfarin ár hefur aðallega verið postulín og steinleir. „Þá vinn ég yfirleitt frumhlut í rennibekk, annaðhvort úr gipsi eða leir, því næst bý ég til gipsmót og steypi í þeim form úr postulíns- eða steinleirsmassa. Ég hanna og framleiði þannig matar- og kaffistell og ýmsa nytjahluti. Ég hef líka verið að vinna veggskúlptúra sem minna á vissa staði eða fjöll, eins og til dæmis Vatnsdalshóla, sem hanga í matsal Húnavallaskóla og kertaljós sem sýna línur fjallanna.“ Línuna kallar hún „Iceramic“ og einkennast hlutirnir af einföldum formum og hreinum línum. „Ég skreyti ekki hluti, en dýfi þeim í mismunandi glerung sem ég bý til sjálf úr ýmiss konar hráefni. Ég reyni svo að endurspegla áhrifin frá kröftum náttúrunnar sem við sjáum allt í kringum okkur. Eftir að hafa búið lengi úti á landi, þar sem óblíð náttúruöflin voru allt í kring, þá hafa þau alltaf verið minn helsti áhrifavaldur við sköpun. Ég reyni að ná fram ýmsum litbrigðum og áferð með aðstoð hitans sem verður í ofninum og nota aðeins náttúruleg oxíð sem litarefni.“ Þórdísi er umhugað um varðveislu íslensku náttúrunnar og segir það skipta sig máli að nýta okkar grænu orku við framleiðslu vörunnar.

- Auglýsing -

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Allt ferlið fer fram á vinnustofu Þórdísar og verkin selur hún í Kaolin Keramik Galleri á Skólavörðustíg 5. Kaolin er samstarf sjö keramíklistamanna og er eina galleríið á Íslandi sem einungis selur keramík. „Í vetur settum við upp netsíðu þar sem sjá má gott úrval frá hverjum listamanni. Við skiptumst á að afgreiða í galleríinu, svo það er alltaf manneskja sem getur rætt um keramík og vinnsluaðferðir á staðnum, enda geta oft skapast líflegar umræður við áhugasama vegfarendur um listina í leirnum.“ Hægt er að skoða verk Þórdísar og vöruúrval á iceramic.is og kaolin.is.

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Greinin í heild sinni birtist í fjórða tölublaði Húsa og híbýla þessa árs.

Sjá einnig.

Veistu meira um málið?

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Stuðmenn styðja Vilhjálm

Stuðmennirnir Egill Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon eru með stórmerkilega stuðningsyfirlýsingu við sjálfstæðismanninn Vilhjálm Bjarnason í Mogganum...

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -