2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Lifandi og trópísk stemning hjá fagurkera í Vesturbænum

  Í fallegri litríkri íbúð í Vesturbænum búa þau Eva Sigrún og Samúel en þau hafa komið sér vel fyrir þar sem einstakir munir, bast og notalegheit ræður ríkjum. Eva Sigrún hefur einstaklega gott auga fyrir smáatriðum og er dugleg við að grafa upp gull og gersemar á hinum ýmsu mörkuðum bæði hér heima og erlendis.

   Með „lita- og flæðislöggu“ á heimilinu

  Íbúðin er í kringum 70 fermetrar að stærð en þau fluttu inn fyrir um tveimur árum. Að sögn Evu Sigrúnar heillaði útsýnið hvað mest en úr stofuglugganum sést yfir haf og Esju.

  „Eins er staðsetningin ekki af verri endanum, að minnsta kosti ekki fyrir uppalinn Vesturbæing. Við erum staðsett á Grandanum nálægt gamla Vesturbænum og miðbænum sem þýðir að það er stutt í mannlíf, menningu, bestu sundlaugina, vinnustaði okkar beggja og verslanir.“

  AUGLÝSING


  Eva er óhrædd við að notast við liti hvort sem það eru veggir eða skrautmunir heimilisins en plöntur og einstaka hluti má finna í hverju horni.

  Hvernig myndir þú lýsa stílnum á heimilinu?

  „Stíllinn er nokkuð líflegur og litríkur, það má kannski segja að hann sé trópískur á köflum, en ég legg mikið upp úr því að fylla tómleg rými með plöntum, litríkum lömpum eða kertastjökum. Sumum þykir stíllinn eflaust nokkuð villtur en það er þó alltaf einhver „lita- og flæðislögga“ sem leyfir eitt og andmælir öðru við uppröðun hluta. Hlutirnir þurfa að harmónera vel saman þegar þeir eru svona margir inni á litlu heimili.“

  Ég legg mikið upp úr því að fylla tómleg rými með plöntum, litríkum lömpum eða kertastjökum.

  Evu hefur tekist vel til og er andinn í íbúðinni einstaklega góður. Aðspurð segir hún skandinavíska hönnun afar heillandi: „… sér í lagi þegar henni er blandað fallega saman við litríka og lifandi muni eins og etnískar mottur eða teppi, plöntur, skúlptúra og fleira. Ég er mjög hrifin af öllu því sem Justina Blakeney, innanhússhönnuður og eigandi Jungalow, kemur nálægt og sæki ég innblástur frá Instagram-reikningnum og fyrirtækinu sem hún heldur úti, Jungalow.

  Eins fylgi ég myllumerkinu #jungalow og fæ hugmyndir þaðan og frá fleiri skemmtilegum „Instagrömmurum“ sem ég hef rambað á í gegnum „explore fítusinn“ á Instagram. Er maður síðan ekki alltaf að sækja sér innblástur dagsdaglega, sem maður er staddur á, eins og kaffihúsi eða í IKEA?“ segir hún og brosir.

  Hefur gott auga fyrir notuðum gersemum

  Íbúðin er nokkuð óhefðbundin og skemmtileg í laginu en áður var þessi íbúð notuð sem skrifstofurými. „Við höfum unnið með þann efnivið sem okkur var gefinn og reynt að gera íbúðina sem huggulegasta með hlýlegum húsgögnum og líflegum plöntum. Ef þetta væri eignin okkar myndum við vilja ráðast í framkvæmdir á eldhúsi og baði.“

  Eva segist ansi reglulega detta í endurröðun á íbúðinni og skiptir út hlutum eða setur þá í pásu frá því rými sem þeir tilheyrðu. En hvaða verslanir ætli séu í uppáhaldi hjá Evu?

  „Ég er mikill aðdáandi nytjamarkaða og heimsæki reglulega Hertex á Vínlandsleið, Von og bjargir og fylgist vel með Facebook-hópnum Húsgögn til sölu. Á þessum mörkuðum hef ég eflaust rambað á meirihluta húsgagna þessa heimilis. Eins verð ég að nefna IKEA sem er auðvitað bara frábær og sanngjörn verslun, við erum með tvö húsgögn úr Stockholm-línunni sem ég tel nokkuð tímalausa og fallega.“

  Hvaða litir, efni og form heilla þig þegar kemur að heimilinu? „Ég er mikið fyrir bast og hef verið uppnefnd bastarður þegar ég kem með enn eina bastviðbótina inn á heimilið. Annars er ég hrifin af fallegum viðarhúsgögnum í bland við skemmtilega liti og plöntur.“

  Eva hefur lengi haft áhuga á innanhússhönnun og því sem viðkemur heimilinu en draumaheimilið segir hún vera rómantíska íbúð í gamla Vesturbænum með stórum gluggum, opnum rýmum og fallegum suðursvölum.

  Hverju skyldi Eva helst taka eftir þegar hún kemur inn á heimili hjá öðrum?

  „Ég pæli kannski mest í heildarstemningunni og hvernig fólk fer að því að draga fram gott og jafnvel kósí andrúmsloft. Hvort það nýtir sér lýsingu, fallega muni, list og fleira til að draga góða stemningu fram. Mér finnst alltaf jafngaman að koma inn á heimili sem endurspeglar karakter heimilismeðlima.“

  Ég er mikið fyrir bast og hef verið uppnefnd bastarður þegar ég kem með enn eina bastviðbótina inn á heimilið.

  Viðtalið í heild sinni og fleiri myndir er að finna í hátíðarblaði Húsa og Híbýla.

  Myndir: Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is