2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Praktískar lausnir vanmetnar

  Halldóra Vífilsdóttir er arkitekt frá háskólanum í Norður-Karolínu og frá Tækniháskólanum í Helsinki. Hún hefur einnig lokið námskeiðum á meistarastigi í skipulagsfræðum frá LBHÍ. Hún er verkefnastjóri Austurbakka, nýbyggingar Landsbankans, var áður forstjóri Framkvæmdasýslu ríkisins og þar á undan rak hún eigin teiknistofu, Hvar arkitekta.

   

  Hvaða tískustraumar finnst þér vera mest áberandi núna fyrir heimilin?

  „Það sem er mest áberandi er natni og umhyggja fyrir heimilinu. Heimilið er griðastaður fjölskyldunnar og það er aðdáunarvert hvað fólk leggur almennt mikinn metnað í að skapa fjölskyldunni gott umhverfi.“

  Hvaða efni, litir og form eru vinsælust núna?

  AUGLÝSING


  „Fjölbreytnin hefur sjaldan verið meiri en einmitt nú en þó hefur grátt verið ríkjandi í þónokkurn tíma nú ásamt svörtu og hvítu og í bland við muskaða jarðliti og náttúrulega tóna.“

  Hvað gleymir fólk helst að spá í þegar það skipuleggur/hannar heimili sín?

  „Praktískar lausnir eru stundum vanmetnar, við þurfum stað til að hlaða, ekki bara tækin okkar, heldur einnig okkur sjálf. Það er mikilvægt að þekkja sjálfan sig og spyrja hvað það er sem fær okkur til að tikka. Ef ástríðan er lestur góðra bóka þá myndi ég mæla með að fjárfesta í góðum stól og frábærum leslampa og fylla rýmið af uppáhaldsbókunum. Það er alltaf gott að finna hvar hjartað slær og gera sér grein fyrir hvernig ramma fólk vill móta utan um daglegar athafnir fjölskyldunnar.“

  Finnst þér lýsingin skipta miklu máli?

  „Lýsing er án efa eitt allra áhrifamesta tækið til að skapa stemningu og breyta rými. Mér finnst mikilvægt að geta stjórnað birtustigi og svo finnst mér litur birtunnar skipta öllu máli. Ég hef ekki enn séð rými þar sem manngerð blá birta kemur vel út. En brakandi blámi íslenskra náttúru virkar aftur á móti alltaf.“

  Hvernig er einfalt að bæta hljóðvist híbýla?

  „Ég nota sjálf teppi og mottur til að bæta hljóðvistina á mínu heimili ásamt veggskermum.“

  Halldóra mælir með að nota teppi og mottur til að bæta hljóðvist á heimilum.

  Hvað er nýjasta „trendið“ í innanhússhönnun?

  „Það er mjög gaman að sjá húsgagnahönnun sem byggir á því besta frá síðustu öld en gerir það á nútímalegan og framsækinn hátt. Mjúk og falleg form eru nokkuð áberandi, sérstaklega í stólum og sófum, og hafa þau oftar en ekki sterka skírskotun til sjöunda áratugarins. Þannig er gaman að geta lesið og endurspeglað tíðarandann í gegnum góða og vandaða hönnun.“

  Hvernig gólfefnum heillast þú af og hvers vegna?

  „Samhengið finnst mér skipta mestu. Gólfefnið þarf að hæfa og þjóna aðstæðunum. Ég heillast af náttúrulegum efnum eins og gegnheilum við og náttúrusteini. Svo er ég mjög hrifin af terazzo en útfærslan skiptir miklu máli.“

  Hvaða hönnun er framúrskarandi að þínu mati?

  „Hönnun sem byggir á snjöllum lausnum sem auka upplifun og gæði og auðga þannig umhverfi okkar.“

  Ódýrasta og besta innanhússráðið væri?

  „Gleði, ilmur og góð tónlist – engin spurning! Svo er bæði einfalt og ódýrt að ganga vel um bæði í eiginlegri og óeiginlegri merkingu.“

  Hvað með veggina? Hvað finnst þér fallegast á veggi?

  „Ég heillast af fallegum veggjum. Á heimili afa míns og ömmu var sjónsteypuveggur og var endalaust gaman að lesa rákirnar sem mótaðar voru af timbrinu sem klæddi mótin. Ég velti þessu ekki síður fyrir mér en fallega málverkinu sem prýddi vegginn. Þannig getur einfaldur veggur verið ögrandi og róandi í senn.

  Svo finnst mér vel sparslaðir og málaðir veggir einstaklega fallegir og þá skiptir meginmáli að velja fallega litatóna sem virka með breytilegri birtu dags sem árstíðar.“

  Hvaða verki ertu stoltust af?

  „Maður gerir ekki upp á milli barnanna sinna en ég er stolt af þeim verkum sem hafa náð að skapa góða umgjörð fyrir gott fjölskyldulíf. Ég er ánægðust ef ég sé að lausnirnar þjóna notendum og skapa þá jafnvel virkni sem ekki var fyrirséð áður.

  Ég hef verið svo lánsöm að fá að vinna fyrir og með einstöku fólki. Ég vann að endurgerð á húsi fyrir sex manna fjölskyldu fyrir nokkrum árum. Eldhúsið var frekar þröngt en við færðum það og völdum besta staðinn í húsinu með fallegu útsýni og miklu plássi. Ég veit að þetta virkaði vel og ef fjölskyldan er ánægð þá er ég ánægð.“

  Þínir uppáhaldslitir?

  „Það er enginn einn litur enda get ég fundið tón í öllum litum sem ég er hrifin af. En eflaust hrífst ég mest af sauðalitunum og hinum fallega íslenska gangstéttagráa lit sem sumir gætu kallað „taupe“ á ensku. Ég er nú dálítið fyrir drappaðan lit, gráan og hvítan en ég vel liti sem virka vel saman og svo er ég hrifnust af litum með hlýjum undirtóni. Málarar hafa oft ekkert skilið í mér og spurt hvort þetta sé ekki allt sami liturinn. Svarið er oft jú en að það sé skuggamunur.“

  Hvaða húsgagn eða hlut dreymir þig um að eignast?

  „Ég er ótrúlega íhaldssöm þegar kemur að húsgögnum. Þegar við höfum keypt okkur hluti inn á heimilið þá hefur það átt sér langan aðdraganda. Ég sá t.d. sófa í Finnlandi upp úr aldamótum sem mér leist vel á. Ég safnaði mér fyrir settinu í nokkur ár og svo var það sérpantað. Mér finnst það enn glænýtt þó líklegast séu um fimmtán ár síðan það kom inn á heimilið og mér dettur ekki í hug að skipta því út. Það er því ekki mikið um skyndiákvarðanir þegar keypt eru húsgögn á heimilið og skrifast það algjörlega á mig. Nú er ekkert húsgagn á óskalistanum, nú er ég bara að leika mér og ætla ég næst að fjárfesta í fjallaskíðum.“

  Hvaða form heilla þig helst?

  „Hrein form með góðum hlutföllum heilla. Kökuformin mín eru flest ferköntuð.“

  Hverjir eru uppáhaldshönnuðirnir þínir?

  „Gömlu kollegar mínir í Bolholtinu eru alltaf í uppáhaldi enda skapandi og skemmtilegir hönnuðir. Við eigum fullt af flottum ungum sem og eldri og reyndari hönnuðum. Húsin hans Manfreðs hafa lengi heillað og svo hafa þau Alla og Falk verið að gera flotta hluti. Ég fylgist alltaf með finnskum arkitektum og hönnuðum en ég dáist að gæðunum sem virðast einkenna bæði finnska hönnun og framleiðslu.“

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum