2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Sameina hágæða sérsmíði við fjöldaframleidda praktíska hluti IKEA

  HAF STUDIO tekur að sér fjölbreytt verkefni, allt frá hönnun veitingastaða, verslana, skrifstofa og heimila til hönnunar á húsgögnum og hlutum. Hafsteinn Júlíusson hönnuður og Karitas Sveinsdóttir, innanhússarkitekt hjá HAF STUDIO, segja mikla grósku vera í innahússhönnun um þessar mundir og eru fullt af spennandi hlutum í gangi hjá fyrirtækinu.

  „Það er fullt í gangi og margt ólíkt,“ segir Hafsteinn Júlíusson, hönnuður hjá HAF STUDIO, þegar hann er spurður hvað sé áberandi í innanhússhönnun um þessar mundir. „Það sem okkur finnst áberandi og spennandi í dag eru lituð teppi, terrazzo-flísar eða -borðplötur, Oregon Pine-viður, krómað stál og plöntur, í raun þetta „late 80’s vibe“.“

  Að hans sögn er HAF STUDIO rekið sem vinnustofu hönnuða og arkitekta. „HAF STUDIO tekur að sér fjölbreytt verkefni, allt frá hönnun veitingastaða, verslana, skrifstofa og heimila til hönnunar á húsgögnum og hluta. Nýverið fórum við einnig af stað með ráðgjöf fyrir heimili sem hefur verið mjög vinsæl viðbót við starfsemi okkar. Fyrir ári síðan fluttum við vinnustofuna okkar í gamla verbúð við Geirsgötu 7. Ásamt því létum við gamlan draum verða að veruleika og opnuðum verslun og sýningarsal á neðri hæð verbúðarinnar en vinnustofan er á efri hæðinni,“ segir Hafsteinn.

  Hafsteinn er útskrifaður vöruhönnuður frá Listaháskóla Íslands og með masters-gráðu í innanhúss- og iðnhönnun frá SPD í Milano og er Karitas Sveinsdóttir útskrifuð sem innanhússarkitekt frá IED Milano. „Ásamt því að vera að hanna rými þá höfum við mikinn áhuga á hönnun á húsgögnum og hlutum,“ segir hún. „Við bjóðum því upp á ýmsar vörur í HAF STORE hvort sem það er sérhönnun á húsgögnum og hlutum frá okkur eða aðra vel valda hluti frá erlendum merkjum sem finnast ekki annars staðar á Íslandi.“

  AUGLÝSING


  Eruð þið aðallega að vinna fyrir einstaklinga eða fyrirtæki? 

  „Undanfarin ár höfum við meira unnið fyrir fyrirtæki en síðustu misseri höfum við verið að bæta við okkur heimilum og sýningaríbúðum fyrir byggingaverktaka. Einstaklingar eða fyrirtæki hafa samband við okkur varðandi verkefni sem þau hafa í huga. Eftir það er yfirleitt vaninn að hittast og fara yfir málin og út frá því gerum við verk- og kostnaðaráætlun. Við förum síðan vel yfir markmið verkefnisins og leggjum mikið upp úr því að það sé unnið í góðu samráði við verkkaupa. Samvinna og uppbyggileg gagnrýni er mikilvæg í okkar vinnu. Flest verkefni vinnum við í þrívídd og kynnum þau fyrir verkaupa, ef það er svo samþykkt útfærum við verk- og smíðateikningar. Svo er mikilvægt að fylgja eftir framkvæmd þangað til verkinu er lokið.“

  „Við hrífumst mest af náttúrulegum efnum og erum undir áhrifum frá ítalskri, skandinavískri og japanskri hönnun. Svo finnst okkur reyndar flest fallegt í réttu samhengi.“

  HAF STUDIO hefur verið að vinna að mörgum verkefnum, má þar nefna veitingastaðinn YUZU, VIGTINA sem er bakarí í Vestmannaeyjum og svo hefur fyrirtækið hannað framhliðar á IKEA-innréttingar.

  „HAF FRONT er ný lína af framhliðum fyrir IKEA, við erum að framleiða þetta í Litháen og hver framhlið er með gegnheilum eikarlista og spónlögðu MDF í miðju. Þannig að það eru engar kantlímingar og þess vegna ætti endingin að vera góð. Þessi lína kemur í eik og erum við með nokkur litbrigði af henni, eins getum við sérpantað hvaða lit sem er. Það má segja að með þessu séum við að sameina hágæða sérsmíði við fjöldaframleidda praktíska hluti IKEA. Við lítum á eldhússinnréttingu sem eitt mikilvægasta húsgagn hvers heimilis og því finnst okkur það skipta miklu máli að útlitið sé fallegt. Að okkar mati eru innvols og grunnskápar frá IKEA með því betra sem er í boði og því nýtum við okkur það.“

  Sjáið þið fyrir ykkur að auka úrvalið, bæta við litum og öðrum útgáfum af framhliðum?

  „Já það er fullt af hugmyndum á teikniborðinu, næsta lína verður væntanlega kynnt upp úr áramótum.“

  Texti / María Erla Kjartansdóttir
  Myndir / Unnur Magna

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum