Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961 þegar iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára gaf Alþýðusambandi Íslands listaverkasafn sitt og lagði þar með grundvöllinn að listasafninu. Listaverkasafn hans samanstóð af 147 verkum eftir þekktustu myndlistarmenn þjóðarinnar.
Eins og fram kemur á vef listasafnins var ósk Ragnars sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi á framfæri list vinnandi fólks í landinu og hefur safnið alla tíð starfað með það að leiðarljósi.
Nú býður listasafnið upp á vönduð eftirprent úr safneign sinni, prentað á hágæða pappír. Um er að ræða tvær stærðir; 50 x 70 cm og 19,5 x 24 cm. Hægt er að skoða úrvalið á vefsíðu safnsins.
Listasafn ASÍ er staðsett í Guðrúnartúni 1.