2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Litríkt og listrænt hjá keramíkhönnuði

  Á björtum en köldum fimmtudegi ökum við niður fallega litla götu þar sem tignarlegt hús með snyrtilegri aðkomu mætir okkur. Hér býr keramíkhönnuðurinn Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir en hún kom meðal annars að stofnun Hönnunarmiðstöðvarinnar og tók þátt í að koma HönnunarMars á laggirnar. Hún kennir við Listaháskólann ásamt því að starfa við auglýsingahönnun.

  Í húsinu búa einnig eiginmaður Ragnheiðar, Björn Ásgeir Guðmundsson matreiðslumeistari, og sonur þeirra, Steinn Logi, nemi við Myndlistarskóla Reykjavíkur. Auk þess dvelja mikið hjá þeim kærasta Steins, Melkorka, og stjúpdóttir Ragnheiðar, Hrafnhildur Björnsdóttir.

  Ragnheiður hellir upp á kaffi og við drekkum það úr einstaklega fallegum bollum sem hún bjó til sjálf á meðan hún segir frá heimili sínu og hönnun.

  Afslappaður stíll

  Fallegur stigi liggur upp að íbúðinni en hún er allt í allt 94 fermetrar. Fyrir utan íbúðina sjálfa er vinnuherbergi sem Ragnheiður notast mikið við í sinni vinnu sem auglýsingahönnuður.

  AUGLÝSING


  Hvað hafið þið búið hérna lengi?

  „Við höfum búið hér allt of lengi, fyrst átti þessi íbúð að vera stökk í aðra stærri en við höfum verið hérna í 20 ár. Þetta er frábær staðsetning, við eigum góða nágranna og okkur líður mjög vel hérna. Hér er allt í göngufæri og garðurinn er stór en hann er mikið notaður og ekkert mál að henda í garðpartí á sumrin!“

  Að sögn Ragnheiðar var ekkert sem heillaði hana sérstaklega við íbúðina til að byrja með. „Fólkið sem bjó hérna á undan okkur var með allt málað í rosadökkum litum; bláum, vínrauðum og gulum, og hurðirnar voru grænbæsaðar. Það þyrmdi gjörsamlega yfir mig og ég þurfti að koma aftur til að átta mig á rýminu.“

  Armstólarnir eru íslensk hönnun sem Ragnheiður lét einnig bólstra. Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Þau byrjuðu á því að mála allt og rifu niður yfirbyggðar svalir og hafa svo haldið öllu við.

  „Við erum svo ferðaglöð og peningarnir fara oftar en ekki í það frekar, en svo fyrir fjórum árum tókum við eldhúsið í gegn. Við færðum það úr svefnherberginu yfir í alrýmið hér. Það þurfti að færa rör og ýmislegt svo þetta tók dágóðan tíma en ég er rosalega ánægð með hvernig það tókst til. Innréttingin er sérsmíðuð en ég hafði hugmyndir um hvernig ég vildi hafa hana. Það var mikilvægt að hafa mikið skápapláss og hannaði systir mín eldhúsið út frá mínum teikningum.“ Innréttingin er úr hjólsagaðri eik og hefur grófa og fallega áferð. „Nú erum við með stórt opið rými með sameiginlegri borð- og setustofu sem er æðislegt, svo græddum við aukaherbergi. Hér við stóra borðstofuborðið er hjarta heimilisins og allir eru með.“

  Ragnheiður útbjó flísarnar í eldhúsinu sjálf. Hún lét prenta út myndir sem hún gerði í tölvu sem hún brenndi síðan á flísarnar og gefa þær eldhúsinu mikinn karakter.

  Stílnum á heimilinu lýsir Ragnheiður sem afslöppuðum en hún segist hrífast mikið af gömlum hlutum en á sama tíma sæki hún í nýjungar.

  Hér má sjá verk meðal annars eftir Sigtrygg Bjarna Baldvinsson og Tryggva Ólafsson sem maðurinn hennar Ragnheiðar fékk að gjöf frá honum fyrir að bjóða honum í mat.

  „Heimilið er þó ekki of stíliserað því hér býr fólk og ég hef það í forgrunni. Ég elska hluti frá framandi stöðum en margt hérna hef ég keypt á ferðalögum um heiminn. Mínir minjagripir eru jafnvel stytta frá Bilbao, vasi frá Sikileyjum eða Búrma og segja manni sögur.“

  Íslensk hönnun í dag óvænt og fersk

  Hvernig hönnun skyldi Ragnheiður helst heillast af?

  „Ég er keramíker og ég skoða óhjákvæmilega mikið keramíkhönnun. Keramík er rosalega mikið inn núna en það má segja að hún hafi lengi vel verið „out“. Sem betur fer fara margir hönnuðir í keramík og ég fylgist kannski best með hvað er að gerast í þeim heimi. Annars heillast ég af öllu sem er nytsamlegt og skrautlegt en um leið einfalt og klassískt.“

  Loftljósin eru eftir Ragnheiði sjálfa auk veggflísanna. Stólarnir fengu nýtt líf en hún lét bólstra þá með kálfskinni úr IKEA.

  Hvað varðar íslenska hönnun er Ragnheiður mjög spennt fyrir því hvað íslensk hönnun er í dag fersk og óvænt.

  „Það er svo margt spennandi að gerast, eins og í upplifunarhönnun og upplýsingarhönnun sem er kannski ekki eitthvað sem við handfjötlum eða kaupum, heldur upplifum, smökkum, lyktum af eða snertum. Það er mikil gróska og ferskir vindar í íslenskri keramíkhönnun. Ég lærði iðnhönnun úti á Ítalíu og fólk spurði mig þá hvað ég ætlaði að gera við það – fólk þekkti ekki einu sinni orðið. Orðið hönnun er í dag orðið svolítið ofnotað, því miður, eins og með gallerí hitt og gallerí þetta … en mér finnst eftir að Hönnunarmiðstöðin var stofnuð og sérstaklega þegar HönnunarMars komst á kortið vera kominn meiri skilningur út í samfélagið þó að höfundaréttur sé enn ókunnur.

  „Krakkarnir sem ég kenni uppi í Listaháskóla hanna miklu meira út frá umhverfinu, hugsa út í endurvinnslu, hvað er endurnýtanlegt og umhverfisvænt.“

  Margt ungt fólk er að koma úr námi með ótrúlega ferskar hugmyndir. Krakkarnir sem ég kenni uppi í Listaháskóla hanna miklu meira út frá umhverfinu, hugsa út í endurvinnslu, hvað er endurnýtanlegt og umhverfisvænt, þannig að já, hönnun hefur breyst og mér finnst það mjög spennandi – þau fræða mig líka. Þessi kynslóð sem er að taka við heiminum, ef þetta heldur áfram svona, þá verður kannski hægt að bjarga jörðinni. Eins og strákurinn minn segir við mig: „Mamma, ekki fara í H&M, þetta er fast fashion“,“ segir hún og hlær.

  Tók þátt í að setja Hönnunarmiðstöðina á laggirnar

  Ragnheiður var ein af þeim sem tók þátt í stofnun Hönnunarmiðstöðvar Íslands á sínum tíma en þá sat hún einnig í stjórn leirlistafélagsins.

  „Áður var enginn HönnunarMars en við réðum Höllu Helgadóttur sem framkvæmdastjóra Hönnunarmiðstöðvarinnar og hún er rosalega lunkin og klár. Við töluðum um á fundi að okkur langaði til þess að setja eitthvað af stað og svo fóru hlutirnir að gerast. Halla er mjög góður stjórnandi þannig að þetta gekk upp og HönnunarMars varð til. Maður getur verið afar stoltur að hafa verið partur af þessu.“

  Ragnheiður hefur sjálf oft tekið þátt í HönnunarMars en ekki í ár. „Ég er með fullt af hugmyndum í kollinum en maður verður að vera með svolítið sterkt dæmi í dag til að eftir manni verði tekið, það er svo ofboðslega mikið í gangi. Mér finnst frábært stundum að vera ekki með því þá hef ég meiri tíma til þess að fara á staði og skoða allt, en eins og í fyrra sá ég meira og minna allt. Það er líka gott fyrir mig sem hönnuð,“ bætir hún við.

  Fer eftir tilfinningunni og líðan

  Ragnheiður segist mikið breyta til á heimilinu, færa til hluti og húsgögn og víxla myndum, svo eitthvað sé nefnt. „Ég hef haldið mig svolítið við hvíta litinn á veggjunum, kannski af því ég er með svo mikið af litríkum hlutum og verkum. Gulur er mjög mikið í uppáhaldi og strákurinn minn sem er litblindur elskar gulan og ég er mjög spennt að sjá hvernig hann notar liti,“ segir hún brosandi.

  Fallegar veggskreytingar og diskar, ýmist eftir Ragnheiði sjálfa eða aðra listamenn.

  Form eru Ragnheiði afar hugleikin og vinnur hún mikið með þau í sinni vinnu. „Ég er alltaf að pæla í formum en það er ekkert eitt fast. Í minni vinnu byrjar maður svolítið út frá grunnformunum. Ég spái mikið í tilfinningar og ég reyni að koma þeim út í formin. Í staðinn fyrir að hugsa að formið sé kassi eða hringur þá er það þessi innri tilfinning sem kemur út; hvernig ég sé hlutina, hvernig mér líður og hvað ég er að ganga í gegnum. Það getur verið jafnvel andardráttur eða ást … fólk sem þekkir mig vel segist svolítið geta lesið í verkin og séð hvernig mér líður hverju sinni. Maður tekur mikið úr umhverfinu og sérstaklega þegar maður áttar sig á því hvað mann sjálfan vantar.“

  Í íbúðinni er að finna samansafn af hlutum bæði hérlendis og erlendis frá. Mikið af verkum eftir vini Ragnheiðar ásamt hennar eigin hönnun. Hún segist oft finna eitthvað smart í Hertex í Garðastræti og í Góða hirðinum. Panton-lampann keypti hún til dæmis í Góða hirðinum á litlar 2.500 krónur og fjólubláa Panton-stólinn fékk hún gefins og lét bólstra hann upp á nýtt með þessu fagurfjólubláu ullaráklæði.

  Steinn Logi, sonur Ragnheiðar, á þetta listræna og persónulega herbergi.

  Hvað finnst Ragnheiði gera heimili persónuleg?

  „Minjagripir héðan og þaðan úr heiminum, en þetta eru engir venjulegir minjagripir. Mér finnst mikilvægt að vera trúr sjálfum sér og kaupa það sem manni finnst fallegt. Ég elska sögur, held að flest heima hjá mér eigi ferðasögu eða einhverja misgóða sögu,“ bætir hún við og hlær.

  Áttu til sniðugt innanhússráð fyrir okkur svona í lokin?

  „Þegar við gerðum upp eldhúsið gerði ég ráð fyrir því að hafa gott pláss fyrir endurvinnslu nú þegar vitundarvakning allra er að aukast. Við erum með rúmgóða skúffu þar sem allt kemst fyrir til flokkunar. Svo er annað ráð sem ég er byrjuð að nota alltaf meira og meira en það er þegar þig langar að kaupa þér eitthvað fyrir heimilið að vera búin að finna stað fyrir hlutinn áður en þú kaupir hann. Þetta er mjög gott sparnaðarráð fyrir manneskju eins og mig, sem væri til í að eiga svo marga hluti sem ég hef enga þörf fyrir. Annars er mikilvægast af öllu að litla hreiðrið sem maður býr sér til sé fullt af ást og friði. Maður er endalaust að nostra í hreiðurgerðinni,“ segir hún að lokum.

  „Brúðuleikhúsið“ er frá Búrma og hefur að geyma skemmtilega sögu.

  Myndir / Hákon Davíð Björnsson

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is