Marc Sadler – hönnuður sem byggir á framtíðinni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Hönnuðurinn Marc Sadler er franskur ríkisborgari, fæddur í Austurríki þann 4. desember 1946, nú búsettur í Mílanó á Ítalíu. Sadler hefur starfað í Evrópu, Norður-Ameríku og Asíu en í dag er hann ráðgjafi fyrir fyrirtæki sem ná yfir ýmis svið svo sem húsgögn, heimilistæki, lýsingu, tæknilega háþróaðar vörur og vörur á sviði íþrótta. Á öllum þessum sviðum hafa tilraunir með plast oft spilað stórt hlutverk sem og í verkum hans.

Hönnuðurinn Marc Sadler.

Starfsferill Sadlers hófst vegna óbilandi ástríðu hans fyrir tækni og tilraunum með ný efni en Sadler útskrifaðist úr iðnhönnun frá ENSAD-háskólanum í París árið 1968 og fjallaði lokaverkefni hans að miklu leyti um plast og notkun þess. Í upphafi áttunda áratugarins fullkomnaði Sadler fyrstu skíðaskóna úr Thermo-plasti, eða harðplasti, sem voru í mörg ár mest seldu skíðaskór í heimi, seldir af ítalska fyrirtækinu Caber, seinna þekktu sem Lotto. Þetta varð til þess að Sadler fór að sérhæfa sig í íþróttahönnun sem leiddi af sér samstarf við mörg af stærstu, alþjóðlegu íþróttafyrirtækjunum í Bandaríkjunum, Asíu og Evrópu. Hann hefur hannað allt frá mótorhjólabúnaði til skóbúnaðar en hann hannaði meðal annars sandala fyrir Nike, sem flestir ættu að kannast við, árið 1995.

Marc Sadler hefur unnið náið með verkfræðingum og skapað ferli sem leitt hefur til mismunandi vara en hann leggur mikla áherslu á tækni og þá aðferðafræði sem liggur að baki sköpunarverkum hans. Hann tekur þátt í að þróa og hanna framleiðsluferlið og fylgir því frá upphafi til enda. Á þann hátt hefur Sadler náð að brjóta upp og skapa nýjar aðferðir í iðnhönnun.

Verkfræðin og fagurfræðin mætast
Samhliða ástríðu hans fyrir verkfræði og nýsköpun skiptir fagurfræði, tilfinning fyrir verkinu og markaðssetning hann miklu máli; að varan sé aðlaðandi. Sadler hefur ekki aðeins fengist við vörur á sviði íþrótta því hann hefur einnig sérhæft sig í lýsingu og húsgagnahönnun. Það kemur skýrt fram í hönnun hans á Mite and Tite-lampanum, sem hann hannaði fyrir Foscarini, hvernig verkfræðin og fagurfræðin mætast. Það tók hann fjögur ár að þróa lampann eftir mikla tilraunastarfsemi þar sem ýmsir tæknilegir þættir og aðferðir voru prófaðar. Síðar vann Sadler Compasso D’oro-verðlaunin, eða Gyllta áttavitann, árið 2000 en lampinn opnaði nýjar gáttir á sviði framleiðslutækni og hráefna sem Foscarini sýnir nú með stolti í sýningarsal sínum.

Hugmynd út frá veiðistöng
Sadler hélt áfram að sýna sig og sanna og árið 2006 kom Twiggy-lampinn á markað en hann sést á ófáum íslenskum heimilum í dag, sem og víðar. Twiggy-lampinn byggir á áralöngu samstarfi Sadlers við Foscarini en upphaflega kom hugmyndin að Twiggy-lampanum út frá veiðistöng að sögn Sadlers en hugsunin á bak við lampann er sú að hann sé sveigjanlegur – líkt og veiðistöng. Lampinn er einfaldur í hönnun en á sama tíma háþróuð vara sem setur sterkan svip á hvert það rými sem hann kemur inn í. Í kjölfar velgengni vörunnar hafa komið á markað nýjar viðbætur við Twiggy-fjölskylduna, líkt og loftljós og leslampi.

Marc Sadler hefur unnið á einkar mismunandi sviðum í gegnum hönnunarferil sinn og gert tilraunir með mismunandi aðferðir og tækni til þess að öðlast nýja sýn og áhrif í heimi hönnunar. Þannig nær hann að tvinna saman reynslu úr ólíkum áttum sem gerir hann að jafneinstökum hönnuði og hann er en hann hefur unnið til fjölda alþjóðlegra verðlauna fyrir hönnun sína og verk í gegnum árin. Verk hans prýða nú meðal annars MOMA-safnið í New York og Beaubourg-safnið í París.

Myndir / Frá framleiðanda

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira

Úr listaverki í ramma yfir í húsgagn

Línan The Piece Furnature frá Craft Combine er einstaklega sniðug en í línunni eru einskonar púsluspil sem þjóna bæði því hlutverki...

Breyta gömlum sokkabuxum í húsgögn

Sænski sokkabuxnaframleiðandinn Swedish Stockings tekur við gömlum sokkabuxum og breytir þeim í húsgögn.Skaðleg áhrif textílframleiðslu á náttúruna...