2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ástríðufullur keramíkhönnuður sem elskar að drullumalla

  Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir keramíkhönnuður var skiptinemi í Bandaríkjunum þegar hún uppgötvaði að myndlistin ætti vel við hana og eftir tveggja ára nám í Frakklandi varð síðan leirlistin fyrir valinu. Hún vinnur á jaðri handverks og iðnaðar og eru engin tvö verk hennar eru nákvæmlega eins.

   

  „Ég leyfi handverkinu að njóta sín og vil að hlutirnir mínir beri þess merki hvort þeir eru renndir, steyptir eða handmótaðir. Ég hef áhuga á nytjahlutum sem eru hannaðir með hlutverk í huga. En hvað er nytjalist, listmunur eða skúlptúr? Stundum eru þessi skil óljós, stundum er ekki hægt að nota verkin öðruvísi en bara til þess að horfa á þá eða handfjatla, er það þá ekki líka nytjalist?“ segir Ragnheiður Ingunn.

  Hún sækir innblástur í hluti sem verða á vegi hennar og skapar þeim nýtt hlutverk í samtíðinni.

  „Oft eru þetta hlutir sem eru á milli klassískrar hönnunar og „kitsch“. Ég nota mjög þekkt fyrirbæri úr okkar daglega lífi, spila með klisjur, finn það sem skiptir máli í tíðarandanum og byggi upp nýja mynd sem verður til í leit að merkingu þess fallega í umhverfinu. Á sama hátt vakna hugmyndirnar. Þær verða á vegi mínum og oft fæ ég lánaðar hugmyndir úr fortíðinni og/eða samtíðinni og túlka þær á minn hátt. Hugmyndir vakna út frá hugmyndum.“

  AUGLÝSING


  Ragnheiður Ingunn vinnur nær eingöngu með leir.

  „Þetta var alls ekki ást við fyrstu sýn, en núna, hvar væri ég án leirsins. En leirinn er stjórnsamur húsbóndi, ef þú byrjar á verki, þá þarf að klára það, leirinn er lifandi efni og vill að sér sé strokið á réttan hátt þar til hann fer í ofninn. Það þarf að undirbúa leirinn, hann er mjúkur í byrjun, svo þarf hann að þorna aðeins, en ekki of mikið til að klára verkið. Það þarf mikið skipulag í kringum leirinn og þolinmæði.“

  „Ég nota mjög þekkt fyrirbæri úr okkar daglega lífi, spila með klisjur, finn það sem skiptir máli í tíðarandanum og byggi upp nýja mynd sem verður til í leit að merkingu þess fallega í umhverfinu.“

  Endurunninn leir

  Skiptir þig máli að vera umhverfisvæn í þinni hönnun?

  „Meðvitund um mikilvægi þess að varðveita jörðina er að verða hluti af okkar daglegu lífi, núna meira en nokkru sinni fyrr. Endurvinnsla er í raun ómissandi hluti af grænu umhverfi. Þú hugsar kannski ekki um leir sem endurunnið efni. Reyndar er endurunninn leir að verða nýtt listrænt form sem tákn um vistfræðilega vitund. Að endurvinna leir er ekki það mest spennandi fyrir keramíkhönnuð en það er nauðsynlegt. Við endum öll með leirafganga þegar við vinnum með leir. Ég endurvinn allan minn leir og fæ leir frá öðrum kermíkhönnuðum sem annars myndu henda honum.

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg 

  Ég kaupi afar sjaldan leir nema þá steinleirssteypumassa og einhvern sérstakan leir, sem ég endurvinn líka. Allur leir, nema sá sem kemst í snertingu við gifs, er hægt að endurvinna. Til að endurvinna leir þarf gott kerfi á vinnustofunni, það þarf að finna leið til að koma öllum leirnum í rétt rakastig svo hægt sé að nota hann aftur. Frá söfnun, þar sem leirinn er þurrkaður, síðan bleyttur upp, drullan svo sett á gifsplötur þar til hann verður mátulega þurr til að geta hnoðað hann aftur í nothæfan leir.

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg 

  Hefur hönnun, smíði og sköpun alltaf verið þér hugleikin? „Þetta var náttúrlega alltaf þarna, ég var alltaf að smíða húsgögn og tilheyrandi fyrir dúkkurnar mínar, en ég var aðallega að byggja vegi og drullumalla borgir þar sem ég gat alltaf talað um strákastelpuna Ragnheiði í bílaleik en ég bara elskaði að drullumalla. Má bjóða þér drulluköku?

  Mynd / Heiðdís Guðbjörg 

  Myndir / Heiðdís Guðbjörg 

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum