2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  „Sumir skapa til að lifa, ég lifi til að skapa“

  Hallur Karlsson er ljósmyndari að mennt með brennandi áhuga á myndlist. Eftir nokkurra ára hlé dró hann penslana aftur upp úr skúffunni og hélt sýningu í Núllinu Gallerý í sumar. Hann segir myndlistina vera mikilvægan hluta af sér þrátt fyrir að ljósmyndunin leiki stóra rullu.

   

  Hvernig listamaður ertu?

  Ég er aðallega skúffuskáld. Ég vinn við ljósmyndun og mála svo myndir þegar ég er ekki að vinna aðrar myndir. Ég er mest að mála óhlutlægar abstraktmyndir núna þar sem ég fæ nóg af andlitum í gegnum ljósmyndunina. Fyrst til að byrja með var ég alltaf að reyna að gera mjög raunverulegar myndir líkt og ljósmyndir, svo fór ég að vinna meira í að skapa einhverjar tilfinningar þar sem ég kafa mun dýpra inn í sál mína og ná í eitthvað þar úr djúpinu. Myndir sem erfitt er að finna alveg út hvað er, en er samt eitthvað sem ég sé og man.

  Hvernig byrjaði ferillinn?

  AUGLÝSING


  Ég hef alltaf verið að teikna og mála, ég á myndir af bílum og mótorhjólum sem ég var að teikna um tveggja ára aldur. Ég fór í Fjölbraut í Breiðholti á myndlistarbraut eftir að hafa verið að mála í nokkur ár. Ég hélt einkasýningu árið 2002 og hef tekið þátt í samsýningum, en upphaflega ætlaði ég mér alltaf að verða bóhem-listamaður og ljóðskáld. Ég endaði í Kaupmannahöfn og sótti þar um í Myndlistaháskólanum og í ljósmyndun, komst ekki inn í myndlistina en rauk inn í ljósmyndunina. Ég hætti að mála nánast frá 2005 til 2018, en fann að ég gat bara ekki komist af eða funkerað almennilega sem manneskja án þess og byrjaði aftur með krafti.

  Í sumar opnaði ljósmyndarinn Hallur Karlsson myndlistarsýninguna Uggi er ekki ég.

  Hvaðan færðu innblástur?

  Í huganum. Stundum þarf að grafa djúpt, stundum er nóg að fiska af yfirborðinu. En allar gjörðir fólks sem ég sé hafa áhrif og skilar sér einhvern veginn í undirmeðvitundina.

  Hvernig er ferlið frá hugmynd að mynd?

  Það er mjög misjafnt, allt frá því að lesa verk einhverra ógæfuskálda yfir í að sjá vegg í niðurníslu. Þá er eins og það kvikni ljós í höfðinu á mér. Svo þarf bara að setjast niður og framkvæma.

  Hvar liggur þitt áhugasvið helst?

  Í tónlist, almennri manngæsku og í sögu, sem er ekki sérlega þekkt fyrir mikla manngæsku. Sumir skapa til að lifa, ég lifi til að skapa. Maður skapar líka minningar.

  Hvernig myndirðu lýsa þínum stíl?

  Útrásar abstrakt, semí pönk í bland við suðuramerískan vefnað.

  Hvaða litir og form heilla þig mest?

  Mattir litir, jarðlitir og dökkbláir tónar sem eru næstum því svartir, svona eins og þegar heiður himinninn fær á sig svartamyrkur í fyrsta skipti síðsumars. En mér þykja svartur og hvítur alltaf bestir til þess að búa til kontrasta, til dæmis með að ramma inn litina. Ég er meira fyrir áferð en form, eins og til dæmis pensilstrokur, hraun eða eitthvað sem lekur niður og skilur eftir sig áferð.

  Hvenær sólahringsins finnst þér best að vinna?

  Dag og nótt, bara þangað til ég er búinn með það sem ég byrjaði á. Ég tek yfirleitt langar tarnir þegar ég byrja. Mér finnst samt best að sofna snemma vegna þess að börnin vakna fáránlega snemma.

  Hvaða listamenn eru í uppáhaldi hjá þér?

  Elvis, Mark Rothko, Snorri Ásmundsson, Jeff Koons, Jackson Pollock, Ragnar Kjartansson og Megas.

  View this post on Instagram

  New print 1/3 60x90cm

  A post shared by Uggi (@uggi.art) on

  Myndir / Unnur Magna

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is

  Nýjast á Gestgjafanum