Mikilfenglegt hús í Vestmannaeyjum

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan María Pétursdóttir hárgreiðslukona og maðurinn hennar, Gunnar Bergur Runólfsson, fluttu á Heiðarveginn í Vestmannaeyjum. Þau keyptu húsið sem þá var illa á sig komið, árið 2007 og fóru í heljarinnar framkvæmdir. Þau fengu heimsókn frá Húsum og híbýlum árið 2012 en halda mætti að þau byggju í nýju húsi sem tekið hefur stakkaskiptum síðan þá. Hvítir veggir og kuldalegri stíll hefur vikið fyrir hlýjum tónum þó að byggt hafi verið að miklu leyti ofan á þann grunn sem þau lögðu upp með fyrir 14 árum síðan. María situr sjaldnast auðum höndum, hún nýtir vel þann efnivið sem rekur á fjörur hennar og veigrar sér ekki við því að gera upp hin ýmsu húsgögn og hluti.

Borðstofan í dag. Mynd / Hallur Karlsson

Borðstofan árið 2012. Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Húsið var áður í eigu Helga Benediktssonar sem var afkastamikill útgerðarmaður og einn helsti athafnamaður Vestmannaeyja um miðja síðustu öld. Hann bjó á Heiðarveginum ásamt fjölskyldu sinni en hýsti einnig fólk sem starfaði hjá honum. Hann var meðal annars í hótelrekstri en húsið var notað undir þvottahús fyrir hótelið, þar var afgreidd mjólk en margir Vestmannaeyingar unnu hjá honum á þeim tíma.

Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Húsið er einkar rúmgott, það er um 450 fermetrar og er á þremur hæðum ásamt risi. Helmingurinn af neðstu hæðinni er í dag notaður undir leiguíbúð en á þeim tíma sem þau fluttu inn voru þau átta á heimilinu. Nú eru þau fjögur og má segja að húsið aðlagist vel breyttum fjölskylduháttum.

Mynd / Hallur Karlsson

Skipulagið gjörbreyttist
Aðspurð segist María hafa verið búin að sjá fyrir sér alla möguleikana við kaupin en þau breyttu skipulaginu töluvert. Húsið var byggt árið 1943 og kominn var tími á allt en lítið viðhald hafði verið á því síðan það reis. Húsið var áður hólfað niður að miklu leyti en þau tóku meðal annars niður veggi og hurðir, stækkuðu baðherbergið og opnuðu alla miðhæðina. „Það voru hurðir inn í hvert rými. Eldhúsið var eins og í iðnaðarhúsnæði með lúgu, stofan var í tvennu lagi og rennihurð á milli þeirra. Önnur stofan var notuð undir „húsbóndaherbergi“ eins og stendur á teikningunum, en þar er borðstofan okkar núna. Það vantaði alveg samverustaðinn í húsinu, það var allt lokað af,“ útskýrir María.

Mynd / Hallur Karlsson

María hefur alltaf verið einkar framtakssöm en þegar þau fluttu inn var hún komin langt á leið og hafði ekki tök á að gera meira en nauðsynlegt var á þeim tíma. „Þegar við fluttum þá máluðum við allt hvítt í hólf og gólf, það var mikið um stál og gler og töluvert kuldalegra þótt ég hafi í raun og veru alltaf verið hrifnari af þessum hlýlega stíl.“

„Ég er stöðugt að, ég er búin að mála öll herbergi og gera upp á nýjan leik á síðustu tveimur árum.“

Húsið nýtist á alls konar vegu og nú hefur María til dæmis útbúið sérherbergi fyrir barnabörnin og stelpurnar sínar sem búa í bænum. Mynd / Hallur Karlsson

Að sögn Maríu hefur áhuginn á heimilinu alltaf verið til staðar en hún tók sitt fyrsta húsnæði í gegn þegar hún var 18 ára gömul. María segir að hún hafi alla tíð verið dugleg við að endurnýta og segir þróunina í dag mjög jákvæða hvað það varðar. „Ég hendi aldrei neinu, heldur reyni ég að selja það sem ég nota ekki. Mér finnst mun skemmtilegra að finna notuð húsgögn og gera þau að mínum fremur en að kaupa allt nýtt. Í svefnherberginu eru til dæmis hlutir úr ýmsum áttum sem ég hef viðað að mér í gegnum tíðina en ég er yfirleitt búin að sjá fyrir mér hlutina löngu áður en þeir verða að veruleika. María hefur einstaklega næmt auga og í öllum rýmum er hún með notaðar mublur. Hún er óhrædd við að færa til húsgögn og hluti, mála aftur og aðlaga þá ólíkum rýmum heimilisins.

Mynd / Hallur Karlsson

Baðherbergið fyrir breytingar. Mynd / Rakel Ósk Sigurðardóttir

Baðherbergið eins og það lítur út núna. Mynd / Hallur Karlsson

Viðtalið í heild sinni má lesa í 3. tölublaði þessa árs sem fæst á öllum helstu sölustöðum.

Hús og híbýli er fagtímarit um heimili, hönnun, arkitektúr og listir. Lögð er sérstök áhersla á gæði bæði hvað varða efnistök og myndir. Blaðið fæst í öllum helstu matvöruverslunum og bókabúðum en einnig er hægt að gerast áskrifandi í vefverslun. 

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -