2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Mörgæsir lýsa mínum karakter

  Júlíana Sara er upprennandi leikkona sem hefur verið að skjóta sér hratt upp á stjörnuhimininn síðan hún útskrifaðist frá listaháskólanum Rose Bruford College of Theatre and Performance vorið 2013.

  Hún hefur bæði leikið á sviði, í bíómyndum auk þess sem hún hefur framleitt sínar eigin þáttaseríur og sketsa. Árin 2014-2016 gerði hún gamanþættina Þær tvær ásamt Völu Kristínu leikkonu og nú síðast Venjulegt fólk.

  Júlíana er algjör íþróttagarpur og finnst fátt betra en að anda að sér fersku lofti og hlaupa ófáa kílómetrana.

  Hver er Júlíana? Hress, góðhjörtuð og metnaðarfull leikkona, handritshöfundur og leikstjóri. Það sem ég er þó stoltust af er að vera móðir tveggja dásamlegra einstaklinga og vera eiginkona Ása.

  Hvaðan kemur þú? Ég er að mestu uppalin í Grafarvogi þótt mig langi einhvern veginn alltaf að segja að ég sé ættuð úr Eyjum þar sem móðurættin mín er þaðan. Ég er stolt af því þar sem þetta er að mínu mati, fallegasti staður á Íslandi.

  AUGLÝSING


  Bestu kaupin fyrir heimilið? Bestu kaupin fyrir heimilið er píanóið okkar. Það eru ófá kvöld sem Ási, maðurinn minn spilar og ég og börnin öskursyngjum með. Sem betur fer erum við ein af þeim fáu sem erum flutt inn í blokkina.

  En verstu? Verstu kaupin er eitthvað af gerviblómunum mínum sem ég keypti í flutningunum. Ég er því miður sú manneskja sem drep óvart allar alvöruplöntur.

  Te eða kaffi? Ég vildi að mér þætti te gott en mér finnst bara svo leiðinlegt að drekka það. Ég vel swiss mocca eða góðan latte-bolla.

  Bíó eða leikhús? Þar sem ég er leikkona þá finnst mér ég verða að segja leikhús en ég held að bæði sé jafnmikið uppáhalds. Að horfa á góða mynd finnst mér ekkert síðra en að sjá gott leikrit.

  Netflix eða línuleg dagskrá? Ég er tiltölulega nýbúin að átta mig á snilldinni sem Netflix er svo ég kýs það.

  Hvaða dýr lýsir þínum karakter best? Mig langar að segja mörgæs. Ég held að mörgæsir séu stundum svolítið utan við sig, þær líta allavega út fyrir það. Þær synda líka og labba mikið. Þetta lýsir mér.

  Hvaða listamaður heillar þig upp úr skónum? Sá listamaður sem heillar mig algjörlega upp úr skónum er alltaf Steve Carell. Sama hvað hann gerir þá finnst mér hann snilld.

  Ef þú ættir eina ósk? Ég hugsa svo oft, sérstaklega ef maður dettur í leiðindalestur á kommentakerfinu. Getum við ekki bara öll verið góð hvert við annað? Ætli það sé ekki bara óskin mín.

  Mynd / Aldís Pálsdóttir

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is