Nemar grípa til sinna ráða vegna COVID-19

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Kórónuveirufaraldurinn fær hönnunarnema til að hugsa út fyrir boxið.

„Í raun má segja að kórónaveiran setji mark sitt á sýninguna og allt innihald hennar, því þarna eru nemendur meðal annars að takast á við þær takmarkanir sem COVID-19 hefur sett samfélaginu,“ segir Kolbrún Þóra Löve sýningarstjóri HOW LONG WILL IT LAST?, um útskriftarsýningu meistaranema í hönnun við Listaháskóla Íslands, sem opnar í Ásmundarsal í kvöld klukkan 18.

Í ljósi hertra takmarkana vegna COVID-19 mega einungis 20 gestir vera á sýningunni í einu og því verður opnuninni og sýningunni streymt beint á netið, sem Kolbrún segir að geri til dæmis fólki kleyft að skoða hana heima hjá sér ef aðstæður kalla á það. „Þannig verða verkin samtímis staðbundin í Ásmundarsal og óstaðbundin þar sem þau birtast hverjum sem er í tölvu, síma eða snjalltæki og þannig takst þau á við togstreitu þess stafræna og hins efnislega,“ lýsir hún.

„Í raun má segja að kórónaveiran setji mark sitt á sýninguna og allt innihald hennar.“

Sex útskriftarnemendur taka þátt í sýningunni og eru verkefnin af ýmsum toga, en eiga samkvæmt Kolbrúnu mörg sameiginlegt að takast á við vissa togstreitu milli andstæðna. „Sem dæmi rannsakaði einn útskriftarneminn, Argitxu Etchebarne, gagnaver á Íslandi og tók sérstaklega fyrir samband þeirra við mannslíkamann. Annar, Lu Li, rannsakaði möguleika þess að byggja upp nánd á milli fjarlægra staða, en hún nýtir sér tæknina til þess að byggja brýr á milli Íslands og heimalands hennar, Kína. Á meðan rannsakaði Sveinn Steinar samspil gerfigreindar og mannsins, og bjó til vídeóverk sem er afrakstur samskipta hans við gervigreindar forrit. Verkin eru því að mörgu leyti ólík en þó liggja augljósir þræðir á milli þeirra.“

Aðspurð segir Kolbrún hugmyndina að þemanu á sýningunni hafa kviknað þegar fyrsta bylgja kórónuveirufaraldursins skall á í mars á þessu ári. „Á síðustu önn neyddumst við til að endurhugsa öll okkar samskiptamunstur vegna COVID-19. Takmarkanir sem fylgdu í kjölfar faraldursins höfðu þær afleiðingar að Listaháskólanum var lokað og nemendur urðu að endurhugsa öll samskipti sín á milli og við kennara og yfirfæra þau á stafrænt form. Á vikulegum fjarfundum ræddu þau og rannsökuðu togstreituna á milli hins stafræna og efnislega og gerðu tilraunir með samskiptaforritið Teams frá Microsoft. Þaðan spratt sú hugmynd að aðaláhersla sýningarinnar í ár yrði rannsókn á þessari togstreitu á milli þess hvað er raunverulegt og hvað er ekki raunverulegt, ekki síst þegar kemur að samskiptum.“

Að sögn Kolbrúnar er meistaranám í hönnun við Listaháskóla Íslands alþjóðleg og þverfagleg námsbraut, sem þýðir að nemendur koma að náminu með fjölbreyttan bakgrunn hvað varðar fyrri menntun, þekkingu, þjóðerni og menningu. „Þessi fjölbreytileiki ýtir undir þann möguleika að hópurinn getur kannað mörg verkefni út frá mörgum sjónarhornum, sem víkkar sjóndeildarhringinn og eykur skilning þeirra á viðfangsefninu,“ útskýrir hún og bætir við að hver útskriftarhópur sé einstakur og hafi mikið að segja um það hvernig sýningarnar verða.

„Sýningarnar eru því eðlilega mjög ólíkar milli ára, sem gerir þær meðal annars spennandi, og fara allt eftir því hvað nemendur eru að hugsa um og hver tíðarandinn í samfélaginu er hverju sinni. Í þetta sinn markar COVID-19 sýninguna og allt innihald hennar.“

Eins og áður segir eiga sex útskriftarnemar verk á sýningunni, þau Argitxu Etchebarne, Christopher Dake-Outhet, Harpa Hrund Pálsdóttir, Lu Li, Ma Kowasz og Sveinn Steinar Benediktsson. Sýningin verður opnuð í í Ásmundarsal í kvöld klukkan 18 og stendur yfir til 16. ágúst næstkomandi. Hægt verður að horfa á streymið á síðu meistaranámsins hér.

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira