2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Notaleg stemning í nýlega byggðu húsi í Kópavoginum

  Í glænýrri íbúð í Kópavoginum búa þau Lára Margrét Möller og Haukur Hinriksson.

  Óhefðbundið form íbúðinnar fangaði strax augu blaðamanns en íbúðin er á þriðju hæð þar sem stórir gluggar hleypa birtunni inn. Fallegar litasamsetningar, listaverk og einstakir munir gefa íbúðinni hlýlegt og persónulegt yfirbragð en þau hafa bæði afar næmt auga fyrir smáatriðum heimilisins.

  Lára bauð upp á dýrindis kaffi meðan við spjölluðum og ljósmyndari smellti af myndum og fangaði stemninguna.

  Nýbyrjuð að búa

  AUGLÝSING


  Íbúðin er um 108 fermetrar með geymslu en þau fluttu inn í júlí 2018 og hafa því aðeins búið í íbúðinni í um sjö mánuði. Þau hafa komið sér einkar vel fyrir á stuttum tíma en húsið var byggt 2018 og því allt splunkunýtt.

  „Við þurftum að leggja gólfefni áður en við fluttum inn og máluðum síðan allt í þessum gráa lit eftir að við höfðum búið hérna í u.þ.b. þrjá mánuði – það er ótrúlegt hvað málning gerir, hún gjörbreytti íbúðinni. Ég laðaðist að innréttingunum sem eru blanda af dökkum við og hvítu, en ég er ekki mjög hrifin af því að hafa allt hvítt,“ segir Lára.

  Íbúðin er nokkuð óvenjuleg í laginu að því leyti að hún er bogadregin og hálfpartinn þríhyrnd. Það er ekkert rými kassalaga nema forstofa og baðherbergi.

  …leið okkur svolítið eins og við værum komin inn í New York-loftíbúð.

  „Skipulagið á íbúðinni var eiginlega það sem heillaði okkur hvað mest. Þegar við komum inn í tóma íbúðina og sáum þetta óhefðbundna form á henni ásamt því að hún er með aukinni lofthæð leið okkur svolítið eins og við værum komin inn í New York-loftíbúð. Við höfum oft fengið að heyra að það sé svolítill stórborgarbragur yfir íbúðinni og sérstaklega á kvöldin þegar borgarljósin skína og sjást vel úr íbúðinni.“

  Einstakir munir í bland við klassíska hönnun

  Lára og Haukur hafa bæði mjög mikinn áhuga á því sem viðkemur heimilinu og hafa valið gaumgæfilega þá hluti sem er að finna í íbúðinni.

  „Þegar við fluttum inn áttum við lítið af húsgögnum sem við vildum taka með okkur í þessa íbúð. Við erum að einhverju leyti með frekar ólíkan smekk en finnum alltaf sameiginlegan völl í vali, þetta er svona millivegurinn okkar og úr því verður svolítið einstök útkoma sem við erum mjög ánægð með. Haukur vill mjög mikið drífa hlutina áfram meðan ég vil meira spá og spekúlera í þessu, en ég er mjög ánægð með uppröðunina hér inni og það samansafn af húsgögnum sem höfum komið okkur upp eftir að við byrjuðum að búa fyrir ekki svo löngu síðan. Bleiki sófinn er gott dæmi um það, en ég var svolítið skeptísk á að fá bleikan sófa í stofuna á meðan Haukur vildi engan annan. Ég lét það svolítið eftir honum og í dag gæti ég ekki verið ánægðari, sófinn er eiginlega miðpunktur stofunnar.“

  Ég var svolítið skeptísk á að fá bleikan sófa í stofuna á meðan Haukur vildi engan annan.

  Lára hefur alla tíð lagt mikið upp úr því að hafa fallegt í kringum sig og á ekki langt að sækja það.

  „Ég sæki mikinn innblástur frá fólkinu í kringum mig, frá mömmu minni og systur og fjölskyldunni almennt en það má segja að ég hafi verið alin upp við ákveðin gildi hvað heimilið varðar,“ segir hún og brosir.

  „Þegar kemur að húsgögnum og öðrum munum sækist ég eftir sígildri hönnun en blanda henni með meira funky/bóhem-hlutum sem hressa aðeins við, en ég passa mig að fara ekki yfir strikið. Ég er ekki mikið fyrir að sanka að mér hönnunarmunum og jafnvel ef það er eitthvað sem telst sem hönnun, hvað þá ef það er rosalega vinsælt og til á öðru hverju heimili, þá laðast ég síður að því. Mér finnst skemmtilegra að eiga hluti sem fólk veit ekki endilega hvaðan eru.“

  Myndir / Hallur Karlsson

    

   

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is