Notaleg stemning og náttúrulegir litatónar á Holtsgötunni

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Við kíktum í heimsókn í fallega, bjarta íbúð í Vesturbænum þar sem þau Hrafnhildur Ylfa Magnúsardóttir, Guðjón Ólafsson, og sonur þeirra, Mikael Máni, búa. Hrafnhildur hefur verið dugleg að ferðast í gegnum tíðina og fá ótal munir hvaðanæva af úr heiminum að njóta sín á heimilinu. Íbúðin er björt og hlýleg í senn og garðurinn dásamlegur á þessum tíma árs.

Gott skipulag og Portofino-garðurinn heillaði

Íbúðin er 72 fermetrar og flutti fjölskyldan inn í nóvember 2017. Íbúðin er björt og praktísk og var að sögn Hrafnhildar frábrugðin mörgum gömlum íbúðum sem þau höfðu skoðað í Vesturbænum. „Suðursvalirnar eru æðislegar á sumrin og ekki að ástæðulausu að íbúarnir á svæðinu kalla bakgarðinn Portofino enda verður algjör hitapollur hérna á sumrin. Við keyptum íbúðina af Axel Kaaber sem er arkitekt og hann var búinn að gera nánast allt upp, færa eldhúsið inn í stofu sem áður var þar sem barnaherbergið er núna, sem opnaði hana töluvert. Stofan er því algjör miðpunktur íbúðarinnar.“

„Svo eru það suðursvalirnar sem eru æðislegar á sumrin og ekki að ástæðulausu að íbúarnir á svæðinu kalla bakgarðinn Portofino enda verður algjör hitapottur hérna á sumrin.“

Að ná fram réttu stemningunni

Aðspurð segist Hrafnhildur ekki mikið eltast við tískustrauma innanhússhönnunar og velur þá hluti sem henni þykir fallegir hverju sinni. „Ég er ekkert endilega að sækjast eftir því að eiga þessar týpísku hönnunarvörur.“ Hún segist einnig heillast mikið af marokkóskri hönnun í bland við New York loft-stíl og að einhverju leyti skandinavískum stíl.

Aðspurð segist Hrafnhildur ekki mikið eltast við tískustrauma innanhússhönnunar og velur þá hluti sem henni þykir fallegir hverju sinni.

Gott flæði er í íbúðinni og mjúkir litatónar tengja rýmin vel saman. Hvaða litir skyldu heilla Hrafnhildi mest? „Mér finnst náttúrulegir tónar í bland við grænt ótrúlega falleg samsetning. Hnotuviður finnst mér fallegur á móti því svarta og hvíta, hann kemur með þennan hlýleika inn á móti sem mér finnst skipta máli.“ Lýsing skiptir Hrafnhildi einnig miklu máli til að ná fram réttu stemningunni. „Það gladdi ljósameistarann mjög mikið að það væru dimmerar í íbúðinni,“ segir hún og hlær. „Lýsing getur algjörlega breytt stemningu.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Sófaborð úr bandaríska sendiráðinu

Þau Hrafnhildur og Guðjón hafa valið gaumgæfilega þau húsgögn sem eru í íbúðinni og í bland er að finna eldri hluti sem þau hafa meðal annars fengið frá fjölskyldunni. Eru einhverjar skemmtilegar sögur á bak við húsgögnin? „Þegar við fluttum inn þá vissi ég að ég vildi koníakslitaðan sófa. Eina sem mér fannst erfitt við það val var að ég var í miklum vandræðum með að finna sófaborð í stíl. Ég fékk sófaborð í heimlán frá hinum og þessum búðum en ég rakst svo loksins á borðið sem smellpassaði við sófann á Bland.is. Ég keypti það af strák í Grafarvoginum sem hafði keypt borðið á uppboði í bandaríska sendiráðinu. Borðstofuborðið og grænu stólarnir koma frá ömmu Guðjóns, okkur þykir ótrúlega vænt um það sett og gefur það heimilinu mikinn karakter.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Mynd / Hákon Davíð Björnsson
Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Myndir / Hákon Davíð Björnsson

- Auglýsing -

Athugasemdir

Lestu meira