2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Ó, þú yndislega sveitarómantík!- sveitasíminn hleraður og hlaupið í flórinn

  Leiðari úr 8. tölublaði Húsa og híbýla

  Fyrir mörgum árum síðan fór ég í enskuskóla í borginni Bournemouth í Suður-Englandi. Áður en ég fór utan hafði ég ímyndað mér að bresk heimili væru afar rómantísk með arin, rósótt veggfóður, málverk í gylltum römmum og veggklukku sem tifaði í takt við andann í húsinu. Þótt ég vissi innst inni að ólíklegt væri að húsið sem fjölskylda mín byggi í væri með stráþaki, eða „thatche“ eins og það heitir á ensku, þá vonaði ég það samt mjög heitt enda heimilisfangið Kastalavegur 10. Raunin var svo allt önnur og ég varð fyrir vonbrigðum þegar ég gekk inn í lítið parhús, þar sem varla héngu myndir á veggjum, allt var málað í kremuðum litum og fáir munir voru á einu mublunni í stofunni. Engin rómantík nema kannski í garðinum en hjónin nýttu hvert tækifæri til að nostra við hann. En þótt mér liði vel saknaði ég bresku sveitarómantíkurinnar.

  Á meðan ég dvaldi þarna fór ég í ferðalag um sveitirnar og gisti á krám og bed&brekfast og þar fann ég sveitarómantíkina! Ég gisti í gömlum herbergjum með veggfóðri, viðarbitum í lofti og gardínum sem náðu niður á gólf. Á einum stað var rúm með himnasæng sem brakaði skemmtilega í og ég upplifði mig eins og í leikriti eftir Shakespeare. Umhverfi hefur nefnilega svo mikil áhrif á okkur. Við vinnsluna á þessu blaði fór ég að hugsa um hvernig íslensk sveitarómantík væri og það fyrsta sem kom upp í huga minn var burstabær, álkaffikanna og rjómafylltar pönnukökur með bláberjasultu á útsaumuðum bláum blómadúk. Ég minntist líka gamla sveitasímans en það var nú heldur betur glatt á hjalla hjá okkur krökkunum í sveitinni þegar við hleruðum samtöl sveitunga okkar og vissum að Gunna á næsta bæ hefði áhyggjur af ástamálum systur sinnar norður í landi og þyrfti nauðsynlega að komast í bæinn til að kaupa tölur. Já, íslenska sveitarómantíkin er skemmtileg.

  En þó er ekki allt tekið út með sældinni þegar borgarbörn eins og ég fara í sveit því einu sinni datt ég kylliflöt í flórinn. Ég losaði mig með erfiðismunum og kom mér inn í bæinn þar sem fullorðna fólkið sat við kaffidrykkju. Eðli málsins samkvæmt ráku allir upp stór augu þegar ég gekk inn grenjandi og grútskítug, að ekki sé minnst á fnykinn sem lagði af mér og blandaðist kaffiilminum. Frúin á bænum spurði hvernig í ósköpunum ég hefði farið að þessu. Ég útskýrði vandræðalega fyrir henni að ég hefði verið að leita að malbiki svo ég gæti skoppað nýja súperboltanum mínum á einhverju hörðu og storknaður flórinn leit út eins og malbik á yfirborðinu og hreinlega lokkaði mig til sín. Ég þarf vart að lýsa hlátrasköllum heimilisfólksins sem ég heyrði enn í á meðan ég stóð grenjandi í sturtunni og skolaði af mér skítinn. Já, sveitarómantíkin er ekki alltaf falleg en hún er skemmtileg og full af sögum … og þannig ættu íslensk heimili líka að vera.

  AUGLÝSING


  Tryggðu þér áskrift að Hús og híbýli í vefverslun

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is