Retro-stíll hjá Björt Ólafsdóttur

Efnisorð

Deila

- Auglýsing -

Er umhugað um að endurnýta hluti heimilisins.

Við kíktum í heimsókn til Bjartar Ólafsdóttur fyrrum umhverfis- og auðlindaráðherra og formanns Bjartrar framtíðar fagran dag ekki fyrir löngu. Björt býr ásamt manni sínum, Birgi Viðarssyni, og þremur börnum, Garpi, átta ára, og tvíburunum Foldu og Fylki, tveggja ára, í skemmtilegri íbúð í Hvassaleiti. Húsið var byggt árið 1962 og prýðir upprunalegur palisander-veggur stofuna sem kemur vel út á móti Drápuhlíðargrjótinu sem sómir sér vel við arininn og vegginn þar í kring.

Sixties stíllinn var það sem heillaði Björt hvað mest við íbúðina.

Björt er mjög umhugað um endurnýtingu hluta og fáum við að skyggnast aðeins inn í hennar persónulega umhverfi en heimilið er hlaðið fallegum munum héðan og þaðan. Lífsgæði að hafa allt á einum stað Íbúðin er um 220 fermetrar að stærð með bílskúr en þau fluttu inn fyrir tæpum þremur árum. Þá var Björt ófrísk að Foldu og Fylki sem fæddust í ágúst árið 2015. Það sem heillaði þau hvað mest við íbúðina var 60‘s-stíllinn í íbúðinni sem er í miklu uppáhaldi hjá Björt að hennar sögn.

„Hér var allt upprunalegt og vel með farið og stærðin hentaði mjög vel, herbergjaskipanin var fullkomin fyrir stækkandi fjölskyldu en íbúðin er heldur ekki of stór því þá væri bara meira að þrífa,“ segir hún og brosir. „Það eru stórir gluggar hérna, mikið tekk og palisander-veggurinn í stofunni heillaði mig algjörlega. Húsið er mjög miðsvæðis en við erum rosalega fljót í og úr Reykjavík. Við förum mikið út á land og á æskuslóðir mínar í Biskupstungum. Útivist er í miklu uppáhaldi hjá okkur svo það er mjög hentugt að geta verið fljót inn í og út úr bænum.

„Hér var allt upprunalegt og vel með farið og stærðin hentaði mjög vel, herbergjaskipanin var fullkomin fyrir stækkandi fjölskyldu en íbúðin er heldur ekki of stór því þá væri bara meira að þrífa.“

Það sem hafði einnig mjög mikil áhrif á kaupin á íbúðinni er að hér er mjög stutt í alla þjónustu, við löbbum í leikskólann með krakkana, það er stutt í skólann, allar tómstundir og íþróttir fyrir eldri strákinn og í vinnu fyrir okkur bæði, svo er stutt í mjög góða matvörubúð. Við þurfum ekki að vera mikið að skutla og sækja en það eru ákveðin lífsgæði í okkar huga og lágmarkar allt vesen. Við föttuðum það eiginlega eftir á hvað þetta væri í raun miðsvæðis og ekki síður þægileg staðsetning. Þegar mikið er að gera hjá mér þá skiptir staðsetningin og heimilishættirnir mjög miklu máli.“

Eldhúsið er stórt og gott.

Innblásturinn fyrir heimilið segist Björt helst fá úr gömlum bíómyndum: „Mad man-þáttunum líka, ég væri til í að búa í öllum þeim húsum sem hafa komið fyrir í þeim þáttum, það er alveg minn stíll.“

Á heimilinu er að finna mublur sem hafa tilfinningalegt gildi fyrir fjölskylduna.

Hér er mikið af mublum sem hafa tilfinningalegt gildi en Björt segist sækja mikið í það. Hún segist helst heillast af hönnun sem endist. „Dönsk hönnun frá 1960-1970 er í miklu uppáhaldi þar sem gegnheill viður var ríkjandi. Ég heillast einnig mikið af franskri hönnun frá 1950 en ljós og annað frá þeim tíma finnst mér geggjað. Ég er dálítið þar; ég er ekki mikið fyrir að hafa allt svart og hvítt eða þennan svokallaða nútíma „ómassífan“ mínimalisma. Marga af þeim hlutum sem ég hef fengið frá ömmu og afa hafði til dæmis enginn annar en ég augastað á.“

Hvað er mikilvægt í þínum huga þegar kemur að því að innrétta heimilið? „Að öllum fjölskyldumeðlimum líði vel á heimilinu. Það verður að vera hægt að búa hérna; borða popp uppi í sófa, elda í eldhúsinu og að það sé auðvelt að ganga um og þrífa. Það verður að vera þægilegt og á sama tíma huggulegt að eiga sér samastað; að það séu staðir þar sem gert er ráð fyrir börnum og atgangi, að það sé handagangur í öskjunni og að það sé pláss fyrir það.

Við eyðum miklum tíma í eldhúsinu sem er dálítill suðupunktur. Það er mikilvægt fyrir okkur að vera með stórt og gott eldhús þar sem þægilegt er að búa til stórar veislumáltíðir og athafna sig í. Svo eru börnin stanslaust að koma þangað inn og næla sér í eitthvað gúmmelaði svo það er líka mikilvægt að það sé aðgengilegt. Við gerum mjög mikið af því um helgar að fá fólk í mat og hafa það huggulegt heima hjá okkur, við erum mjög heimakær,“ bætir Björt við.

Björt leggur mikið upp úr því að skapa notalegt umhverfi.

Höfundur / María Erla Kjartansdóttir
Myndir / Aldís Pálsdóttir

Deila

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 
- Auglýsing -

Orðrómur

Helgarviðtalið

Lestu meira

Nýtt í dag

Í fréttum er þetta helst...

Mest lesið í vikunni

- Auglýsing -