2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

  Royal Copenhagen í 240 ár

  Stellið frá Royal Copenhagen er löngu búið að stimpla sig inn sem hönnunarklassík í hæsta gæðaflokki.

  Royal Copenhagen – alltaf sígilt.

  Royal Copenhagen er, eins og glöggir lesendur vita, framleiðandi á postulínsvörum en fyrirtækið var stofnað í Kaupmannahöfn þann 1. maí árið 1775 af Frantz Heinrich Müller, þá kallað The Royal Porcelain Factory. Í dag er Royal Copenhagen einn af elstu postulínsframleiðendum í Evrópu, þekkt fyrir gæði og fallega hönnun. Nú skulum við kafa örlítið dýpra í sögu nokkurra af helstu stellum sem Royal Copenhagen hefur framleitt og skyggnast á bak við bláa litinn sem hefur einkennt fyrirtækið frá upphafi.

  Blái liturinn er mikið notaður í skreytingar hjá Royal Copenhagen en hver hlutur er handmálaður af færum listamönnum fyrirtækisins. Það krefst mikillar nákvæmni og einbeitingar að mála á postulín en það ferli er bæði langt og flókið. Í gegnum söguna hefur blái liturinn verið mikilvægur tjáningarmiðill en listamenn hafa notað bláa litinn bæði til merkis um auðlindir og auð á meðan aðrir hafa notað hann til þess að tjá tilfinningar sínar. Spænski málarinn Pablo Picasso fór til dæmis í gegnum „blátt“ tímabil sem gaf af sér hluta af vinsælustu verkum hans í dag.

  Rifflaða Blue Fluted-matarstellið var fyrsta stellið sem gert var fyrir Royal Copenhagen en það var hannað af Arnold Krog, málara og arkitekt. Nú, rúmlega 240 árum síðar, er Blue Fluted-stellið enn í framleiðslu og er eitt þekktasta og eftirsóttasta postulínsstell í heiminum. Árið 2000 var Blue Fluted Mega-stellið sett á markað en það var hannað af Karen Kjældgård-Larsen sem var aðeins 26 ára þegar hún bankaði á dyr hjá Royal Copenhagen með lokaverkefni sitt úr dönskum hönnunarskóla. Hún hafði einstakt dálæti á Royal Copenhagen og fékk þá hugmynd að stækka mynstrið af fyrsta stellinu. Kennarinn hennar var svo áhugasamur að hann hvatti hana til þess að sýna Royal Copenhagen hönnun sína. Þessi útgáfa vakti gríðarlega lukku og hefur verið eitt vinsælasta stellið í yfir tíu ár en fjöldann allan af hlutum er að finna í línunni, allt frá diskum og skálum yfir í krukkur og blómavasa.

  AUGLÝSING


  Árið 2008 hannaði Daninn Louise Campbell síðan Elements-línuna fyrir Royal Copenhagen. Þar er hin sígilda hönnun sem einkennir vörur fyrirtækisins sett í nýstárlegan búning en í grunninn er Elements-stellið alhvítt og nútímalegt. Við línuna bættust síðan litir en þar á hver og einn hlutur einstakan skrautlit, en Multicoloured-línan kemur með skemmtilegan svip á matarstellið. Bláa Elements-stellið varð síðan til úr grunni hvíta og litríka stellsins sem einkennist af hinu einstaka og fallega blómamynstri í hinum virðulega bláa lit sem hefur verið ríkjandi hjá Royal Copenhagen í gegnum tíðina. Niðurstaðan er sígild fegurð sem getur notið sín bæði ein og sér eða með öðrum hlutum úr hvíta eða litríka Elements-stellinu – nú eða allt í bland fyrir þá sem það kjósa.
  Falleg hönnun sem stenst tímans tönn.

  Lestu meira

  Annað áhugavert efni

  Nýjast á Mannlíf.is